Faðir uppvakningamyndanna látinn

Leikstjórinn George A. Romero lést eftir skammvina baráttu við lungnakrabba.
Leikstjórinn George A. Romero lést eftir skammvina baráttu við lungnakrabba. AFP

Bandaríski leikstjórinn George A. Romero, sem leikstýrði uppvakningamyndunum Night of the Living Dead, er látinn.

Romero, sem var 77 ára er hann lést, hafði átt í skammvinnri baráttu gegn ágengum lungnakrabba að sögn umboðsmanns hans, Chris Roe.

Romero skrifaði og leikstýrði uppvakningamyndaröðinni Night of the Living Dead. Fyrsta myndin leit dagsins ljós 1968 og fylgdi fjöldi uppvakningamynda í kjölfarið.

Night of the Living Dead sætti mikilli gagnrýni er hún var fyrst sýnd fyrir blóðmagnið sem þar kom fyrir, en myndin lagði engu að síður línurnar fyrir hryllings- og uppvakningamyndir næstu áratugi og telst fyrir löngu orðin klassík.

mbl.is