Sársaukafull saga sveitar

X Japan í árdaga, snemma á níunda áratugnum.
X Japan í árdaga, snemma á níunda áratugnum.

We are X, heimildarmynd um japönsku rokksveitina X Japan eftir bandaríska kvikmyndagerðarmanninn Stephen Kijak, verður sýnd í Bíó Paradís á morgun og verður aðalstjarna og forsprakki hljómsveitarinnar: trommarinn, píanóleikarinn og tónskáldið Yoshiki, fullu nafni Yoshiki Hayashi, viðstaddur sýninguna.

Yoshiki er mikil stjarna í Japan og bæði þekktur sem liðsmaður X Japan og sem klassískt tónskáld og píanóleikari. Hljómsveitin var stofnuð árið 1982 og er ein sú þekktasta þar í landi, hefur selt yfir 30 milljónir platna og haldið 18 uppselda tónleika í tónleikahöllinni Tokyo Dome sem rúmar um 55.000 gesti. Þá hefur hún leikið fyrir tugi þúsunda aðdáenda utan Japans en er samt sem áður tiltölulega óþekkt utan heimalandsins. Fyrir þremur árum hélt hún tónleika í Madison Square Garden í New York þar sem öllu var tjaldað til í tækjabúnaði og sjónrænni umgjörð og hefst heimildarmyndin og endar með svipmyndum frá þeim tónleikum og undirbúningi fyrir þá.

Margvísleg áföll

Á ýmsu hefur gengið í hljómsveitinni frá því hún var stofnuð, eins og fram kemur í heimildarmyndinni. Þrír liðsmenn hennar hafa látist, þar af gítarleikarinn Hide sem svipti sig lífi árið 1998 en nokkrum mánuðum fyrr tilkynnti hljómsveitin að hún væri hætt, við mikil harmakvein aðdáenda sinna. Söngvari sveitarinnar, Toshi, hafði þá sagt skilið við hana og sagst ætla að einbeita sér að sólóferli en síðar kom í ljós að hann hafði gengið í sértrúarsöfnuð þar sem hann var heilaþveginn og féflettur. Hljómsveitin kom saman á ný um tíu árum síðar þegar Toshi fékk leyfi frá söfnuðinum til að snúa aftur.

Yoshiki í heimildarmyndinni We are X.
Yoshiki í heimildarmyndinni We are X.

Saga X Japan er æði skrautleg líkt og sveitin sjálf á sviði en framan af voru liðsmenn klæddir mjög svo eftirtektarverðum fötum í anda níunda áratugarins, skörtuðu litríkum hanakömbum og voru stífmálaðir, í anda hinnar svonefndu „visual kei“-hreyfingar eða listastefnu, sem vikið verður að síðar. Blaðamaður sló á þráðinn til Yoshiki fyrir fáeinum dögum en þá var hann staddur á hóteli í London, nýkominn frá New York.

Stofnuðu hljómsveitina 10 ára

„Umboðsmaðurinn minn í Bandaríkjunum fékk þá hugmynd að gera heimildarmyndina fyrir löngu. Saga okkar er mjög átakanleg þannig að mig langaði í raun ekki að gera myndina en við veltum upp nokkrum hugmyndum og á endanum tókst að sannfæra mig,“ segir Yoshiki, spurður hver hafi átt hugmyndina að því að gera We are X. Yoshiki hefur leitt sveitina allt frá upphafi en þeir Toshi, söngvari sveitarinnar, hafa verið vinir allt frá fjögurra ára aldri og segir Yoshiki að þeir hafi stofnað hljómsveitina þegar þeir voru 10 ára. Yoshiki hafði þá nýverið misst föður sinn sem svipti sig lífi en í heimildarmyndinni kemur fram að Yoshiki hafi komið að honum látnum og hafði það mikil og skaðleg áhrif á hann.

„Ég byrjaði að læra klassískan píanóleik þegar ég var fjögurra ára og var í píanónámi þar til faðir minn dó þegar ég var 10 ára. Sama ár kynntist ég rokktónlist, meðal annars hljómsveitinni Kiss, og fékk útrás fyrir reiði mína og sorg í rokkinu,“ segir Yoshiki. Hann byrjaði að æfa trommuleik en hætti þó aldrei að leika á píanó. Yoshiki leikur bæði á trommur og hljómborð með X Japan og er þekktur að því að berja húðir af svo miklum ákafa að hann hefur hnigið niður örmagna á tónleikum oftar en einu sinni. Þá hefur hann einnig gengið berserksgang og ráðist á settið, eins og sjá má í myndinni.

Tónlist X Japan ber keim af glysrokki og málmi en sækir einnig í brunn pönks og nýbylgju, að sögn Yoshiki. Hann segir tónlistina einnig melódíska og þakkar það þekkingu sinni á klassískri tónlist sem hann öðlaðist í píanónáminu en hann er aðallagahöfundur hljómsveitarinnar. „Ég sem um 90% laganna,“ segir hann.

Illa farinn af trommuleik

Sársauki er áberandi umfjöllunarefni í heimildarmyndinni, bæði líkamlegur og andlegur og hefur Yoshiki lengi glímt við margs konar álagsmeiðsli af völdum trommuleiks. Hann er spurður að því hvort trommuleikurinn hafi valdið honum alvarlegu heilsutjóni.

„Algjörlega. Fyrir um fjórum mánuðum fór ég í aðgerð á hálsi, það var græddur í mig gervihryggjarliður,“ svarar Yoshiki en hann á fleiri aðgerðir að baki og sjúkrasaga hans er orðin æði löng. „Ég get ekki spilað á trommur núna en vonandi eftir nokkra mánuði þegar sjúkraþjálfun lýkur. Líkami minn er illa farinn af völdum trommuleiks,“ segir hann.

– Þú virðist nánast andsetinn við trommusettið, það gengur svo mikið á fyrir þér...

Yoshiki hlær og segist vissulega leggja alla sína orku í trommuleikinn, tromma líkt og enginn sé morgundagurinn og gleyma algjörlega stað og stund.

Tjáningarfrelsi í visual kei

Talið berst að útliti sveitarinnar í upphafi, stíl eða stefnu sem nefnd er „visual kei“ en X Japan er sögð ein af fyrstu hljómsveitunum sem komu fram þannig útlítandi. Yoshiki er beðinn að útskýra þetta fyrirbæri, visual kei, fyrir blaðamanni og lesendum.

„Þetta er hálfgerð hreyfing eða stefna, ótengd ákveðinni tegund listar. Í listasögunni má finna margar ólíkar stefnur og hreyfingar, stefnur á borð við Dada og fleiri. Margar hljómsveitir með svipaðar hugmyndir fóru að fylgja þessari hreyfingu, visual kei, og margar þeirra voru með brjálæðislegan augnfarða, hárgreiðslur og í klikkuðum fötum en í mínum huga snýst þessi hreyfing meira um tjáningarfrelsi,“ útskýrir Yoshiki.

Hann segir rokkinu fylgja ákveðið frelsi en þó hafi verið ætlast til að þeir sem flyttu ákveðna tegund rokktónlistar litu svona eða hinsegin út, þegar X Japan hóf að koma fram. Yoshiki segir hljómsveitina hafa gefið slíkum kröfum langt nef og mótað sinn eigin visual kei-stíl. Hreyfing þessi eða stefna lifir enn góðu lífi, að sögn Yoshiki, og nefnir hann sem dæmi að miklar hátíðir séu haldnar í Japan henni til heiðurs.

Ekki nógu athafnasamir

Í kynningarefni fyrir myndina segir að X Japan sé vinsælasta og farsælasta hljómsveit heims af þeim sem fólk þekki enn ekki til og er þar greinilega átt við aðra en Japani. Hvernig skyldi standa á því? Yoshiki hlær og segir ástæðurnar líklega margar. „Við höfum ekki verið nógu athafnasamir og það skiptir engu hversu vinsæll maður er í Japan þegar kemur að vinsældum á heimsvísu, ég held að það séu aðalástæðurnar.“

Yoshiki segist að lokum hlakka mikið til að heimsækja Ísland en hann er nú á miklu flandri um Evrópu að kynna heimildarmyndina.

Stiklu fyrir myndina má sjá á YouTube og frekari fróðleik um hljómsveitina má finna á vefsíðu hennar, xjapan.com.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson