Vertu góður, annars getur þetta endað illa

Martin Eyjólfsson, sendiherra Íslands í Berlín, og Egill Sæbjörnsson.
Martin Eyjólfsson, sendiherra Íslands í Berlín, og Egill Sæbjörnsson.

Yfirleitt telst slíkt ekki til tíðinda, nema kannski þegar tröll eiga í hlut og svo var einmitt í gær þegar Kærleikskúla ársins var afhjúpuð í aðventufagnaði í Sendiráðsbústað Íslands í Berlín. 

Listamaðurinn Egill Sæbjörnsson, höfundur Kærleikskúlunnar í ár, sagði gestum frá tröllunum Ugh og Boogar og nýjasta verkefninu þeirra, Kærleikskúlunni. Egill sagði tröllin hafa átt það til að éta fólk, en þau eru nýkomin frá Feneyjum þar sem þó nokkuð af ferðamönnum hvarf ofan í þau. Tröllin voru með í för í gær – þau létu þó lítið fyrir sér fara enda föst inni í Kærleikskúlunni. Egill bað fólk að fara varlega með kúlurnar, því ef þær brotnuðu og tröllin slyppu út gætu þau hreinlega eyðilagt fyrir okkur öllum jólin. 

Ugh og Boogar er fimmtánda Kærleikskúlan sem Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra gefur út og rennur sem fyrr allur ágóði af sölunni til Reykjadals, sumarbúða félagsins fyrir fötluð börn og ungmenni. Lengst af hafa Kærleikskúlurnar verið blásnar í Þýskalandi, en þaðan kemur einmitt jólatrjáa- og jólakúluhefðin sem við höldum. Auk þess sem listamaður ársins, Egill, hefur búið og starfað í landinu undanfarin 20 ár. Martin Eyjólfsson, sendiherra Íslands í Berlín, gerði þessa skemmtilegu tengingu milli landanna meðal annars að umtalsefni í ræðu sinni. Hann benti jafnframt á að ólíkt þýska jólasveininum væru þeir íslensku af tröllakyni og þrettán að tölu og mætti gera því skóna að þeir væru skyldir Ugh og Boogar. 

Þótt tröllin fengju ekki magafylli þetta kvöld gæddu aðrir gestir sér á kræsingum Viktoríu Elíasdóttur kokks, en hún hefur gert garðinn frægan í Berlín og víðar fyrir frábæra matargerð og veitingastaðinn Dóttir. Loks lék Sif Tulinius fiðluleikari íslensk og þýsk tónverk og gerði það svo vel að meira að segja tröllin féllu í stafi.

Egill Sæbjörnsson segir sögu Kærleikskúlunnar.
Egill Sæbjörnsson segir sögu Kærleikskúlunnar.
mbl.is