Munu geirvörtur njóta frelsis í kvöld?

Justin Timberlake kemur fram í hálfleik á Ofurskálinni í kvöld, …
Justin Timberlake kemur fram í hálfleik á Ofurskálinni í kvöld, í þriðja sinn á ferlinum. AFP

New Eng­land Pat­riots og Phila­delp­hia Eag­les munu eigast við í úr­slit­um banda­ríska fót­bolt­ans, Of­ur­skál­inni (e. Super bowl), í kvöld. Um stærsta íþróttaviðburð ársins er að ræða en það sem fer fram í auglýsingahléum og ekki síst í hálfleik vekur yfirleitt meiri athygli meðal áhorfenda.

Í ár mun söngv­ar­inn Just­in Timberla­ke trylla lýðinn í hálfleik, en hann hef­ur tvisvar áður séð um skemmtiatriði í hálfleik Ofurskálarinnar. Fyrst árið 2001 sem hluti af drengjasveitinni NSYNC og svo árið 2004 ásamt Janet Jackson, en óvænt augna­blik þar sem sást í geir­vörtu Jackson varð að einu um­deild­asta máli Of­ur­skál­ar­inn­ar frá upp­hafi.

Atvikið reyndist einnig kostnaðarsamt, að minnsta kosti fyrir sjónvarpsstöðina CBS sem hafði sjónvarpsréttinn það árið. Stöðin þurfti að greiða 550.000 Bandaríkjadali, eða sem nemur rúmum 55 milljónum króna, í sekt vegna birtingar geirvörtunnar, atviks sem iðulega er minnst sem „Nipplegate“ í bandarískum fjölmiðlum.

Allir þekktustu slagararnir teknir á æfingu

Miklar getgátur eru uppi um hvað Timberlake muni gera á sviðinu í kvöld. Munu hann og Jackson gera upp geirvörtumálið fræga á sviðinu eða er jafnvel von á endurkomu drengjabandsins NSYNC? Samkvæmt slúðurmiðlinum TMZ mun hvorugt gerast, en það er aldrei að segja aldrei.

Þetta myndskeið var tekið upp á æfingu poppprinsins á fimmtudag þar sem heyra má alla hans helstu slagara, nýja jafnt sem gamla, þar á meðal „Can´t Stop the Feeling“ og „Cry Me a River“.

Jackson þakkar stuðninginn en mun ekki koma fram

Ljóst er að von er á mikilli flugeldasýningu, bókstaflega. Janet Jackson hefur sjálf vísað á bug þeim sögusögnum að hún muni standa á sviðinu. „Til að kveða niður allar getgátur og orðróm um hvort ég muni koma fram á Ofurskálinni á morgun: Það mun ekki gerast,“ sagði Jackson í yfirlýsingu sem hún sendi á PEOPLE í gær. 

Hún þakkaði fyrir allan þann stuðning sem henni hefur verið veittur í aðdraganda Ofurskálarinnar, en „geirvörtu-atvikið“ hefur óneitanlega borið á góma vegna endurkomu Timberlake.

Þá kom það einnig fram í fjölmiðlum í vikunni að fjölskylda Jackson hefur ekki fyrirgefið Timberlake gjörðir hans á sviðinu fyrir 14 árum. Faðir Jackson, Joseph, sagði í samtali við New York Post að ef Timberlake væri sannur herramaður myndi hann sjá til þess að hún yrði á sviðinu í kvöld. Janet er hins vegar ekki sömu skoðunar og vill halda sig frá öllu saman. Timberlake hefur einna helst verið gagnýndur af fjölskyldunni fyrir að skella allri skuld á Janet eftir atvikið í stað þess að bera sjálfur ábyrgð á gjörðum sínum.

Janet Jackson hefur gefið út yfirlýsingu þar sem hún segir …
Janet Jackson hefur gefið út yfirlýsingu þar sem hún segir að hún muni ekki stíga á svið með Justin Timberlake í kvöld. skjáskot/Instagram

Segir samband þeirra vera í góðu lagi

Timberlake opnaði sig um atvikið í janúar. „Þú getur ekki breytt því sem gerst hefur, en þú getur horft fram á við og lært af því,“ sagði Timberlake í viðtali við Zane Lowe. Þá sagði hann að þau Jackson hefðu gert atvikið upp sín á milli og að samband þeirra væri gott.  

Timberlake, sem er nú 36 ára og nýbúinn að gefa út sína fjórðu breiðskífu, „Man of the Woods“, mun stíga á svið í hálfleik í kvöld líkt og fyrr segir. Hvort einhverjar geirvörtur verði frelsaðar á sviðinu verður hins vegar að koma í ljós, en væri það ekki bara hið besta mál, í ljósi allra þeirra byltinga sem hafa riðið yfir heimsbyggðina á þeim fjórtán árum sem liðin eru frá „Nipplegate“?



mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Samræður við stjórnendur, foreldra og yfirboðara eru beinskeyttar og ákafar í dag. Alls kyns spennandi tækifæri til vaxtar eru fyrir hendi núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Ragnar Jónasson
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Moa Herngren
5
Jojo Moyes
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Samræður við stjórnendur, foreldra og yfirboðara eru beinskeyttar og ákafar í dag. Alls kyns spennandi tækifæri til vaxtar eru fyrir hendi núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Ragnar Jónasson
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Moa Herngren
5
Jojo Moyes