Vináttan hófst í Voice-þáttunum

Sigurjón Örn, Rósa Björg, Karitas Harpa, Hrafnhildur Víglunds og Eiríkur …
Sigurjón Örn, Rósa Björg, Karitas Harpa, Hrafnhildur Víglunds og Eiríkur Hafdal skipa Fókus-hópinn.

Fókus-hópurinn flytur lagið Aldrei gefast upp á fyrra undanúrslitakvöldi Söngvakeppninnar. Í Fókus-hópnum eru þau Sigurjón Örn Böðvarsson, Rósa Björg Ómarsdóttir, Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir, Karitas Harpa Davíðsdóttir og Eiríkur Þór Hafdal.

Af hverju Eurovisi­on?

Það er búinn að vera draumur flestra meðlima að taka þátt í Söngvakeppninni og því kom sú hugmynd upp í sumar að gera lag og senda það inn í keppnina. Þetta er auðvitað frábær stökkpallur og gaman að fá tækifæri til þess að taka þátt. 

Hvernig hófst vinn­an við lagið?

Við fengum frábært fólk til liðs við okkur bæði hér heima og erlendis en þar á meðal eru lagahöfundurinn Michael James Down, sem Rósa og Sigurjón kynntust í fyrra í tengslum við Söngvakeppnina, og Þórunn Erna Clausen textahöfundur. Lagið heitir á íslensku Aldrei gefast upp en Battleline á ensku. Þar sem um fimm aðalsöngvara er að ræða ákvað hópurinn að fá til liðs við sig snillinginn Ingvar Alfreðsson sem sá um raddútsetningu. 

Hverju von­ar þú að lagið skili til hlustenda?

Lagið skiptir okkur miklu máli og við munum syngja frá hjartanu enda hefur textinn mikla þýðingu fyrir okkur. Við vonum því að okkur takist að hvetja þá sem hlusta til að elta sína drauma og markmið og gefast aldrei upp. 

Hvenær byrjaðir þú að syngja?

Við höfum öll sungið mjög lengi en svo kynntumst við fimm í sjónvarpsþáttunum Voice Ísland árið 2016. Við urðum öll svo góðir vinir eftir að Voice kláraðist og vorum sammála um að við vildum vinna meira saman í tónlist. Úr því varð að við stofnuðum Fókus-hópinn.

Upp­á­halds-Eurovisi­on­lag?

Þar sem við erum fimm í hópnum hafa spunnist upp líflegar umræður við þessari spurningu. Til að halda friðinn er öruggast að nefna nokkur lög svo við getum hætt rökræðum og haldið áfram að æfa. Í uppáhaldi er sem dæmi This is my life, Molitva, Euphoria, All out of luck og Fångad av en stormvind. 

Hvernig geng­ur und­ir­bún­ing­ur fyr­ir Eurovisi­on?

Undirbúningurinn hefur gengið mjög vel og við höfum haft nóg að gera. Þetta er krefjandi og lærdómsríkt ferli en við höfum skemmt okkur rosalega mikið og þetta hefur þjappað okkur enn betur saman. Við höfum sem dæmi gert myndband við íslensku útgáfu lagsins en Eiríkur framleiddi myndbandið ásamt Árna Gylfasyni myndatökumanni. Hugmyndin kviknaði við eldhúsborðið hjá Rósu á einum fundinum og var fljót að mótast. Hugmyndin snýst um að vinna með börnin okkar sem endurspegla okkur á svo margan hátt. Hægt er að horfa á þetta sem okkur í fortíð og nútíð eða þau sem börnin okkar að fylgja sínum draumum. Áhorfandinn getur túlkað þetta á sinn hátt en textinn fjallar um að fylgja draumum sínum og aldrei gefast upp. 

Hvað hef­ur komið þér mest á óvart í tengsl­um við Eurovisi­on-ferlið?

Ætli það sé ekki hvað það er mikill áhugi á keppninni hér heima og erlendis. Við höfum fengið mörg skilaboð frá Eurovision-áhugafólki um allan heim og þar með talið eru heillóskir, viðtalsbeiðnir og skemmtileg skilaboð. Við erum ofboðslega þakklát og þetta er að opna á ýmsa möguleika fyrir okkur. 

Get­ur Ísland unnið keppn­ina og hvar ætti að halda hana?

Ísland getur klárlega unnið keppnina enda hafa Íslendingar mikið keppnisskap og baráttugleði sem hefur vakið athygli á heimsvísu. Það er fullt af möguleikum í boði til að halda keppnina og um að gera að prófa eitthvað nýtt. Okkar tillaga er fyrsta uppblásna sönghöllin sem dæmi í Herjólfsdal eða henda upp risatjaldi yfir tjörnina og hafa Frozen euro-þema. Annars látum við þetta bara í hendurnar á fagfólkinu en við verðum klárlega til taks við hugmyndavinnuna. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson