Verður örugglega tómlegt á landinu

Bill Murray er á klakanum.
Bill Murray er á klakanum. AFP

Bandaríski leikarinn Bill Murray er staddur á Íslandi en annað kvöld og föstudagskvöld mun hann, ásamt tónlistarfólkinu Jan Vogler, Vanessu Perez og Miru Wang, halda sýninguna „New Worlds“ í Hörpu en henni er lýst er sem „ógleymanlegri kvöldstund“.

Hópurinn kom til landsins í gær en sýningunni er lýst sem samblandi af tónleikum og bókmenntaupplestri þar sem saman kemur tónlist, bókmenntir og afar kómískur maður.

„Við erum að keyra á Íslandi. Ég hef ekki hugmynd um hvar við erum nákvæmlega en við erum á leiðinni til Reykjavíkur,“ segir sellóleikarinn Jan Vogler þegar blaðamaður hringir, en í bakgrunni heyrist kallað að þeir séu staddir á Hellisheiði.

„Þetta er frábært, það er rigning en mjög fallegt. Ég hef komið hingað tvívegis áður en Bill er að koma hingað í fyrsta skipti,“ segir Vogler en hann og leikarinn heimsfrægi ræða við blaðamann þar sem þeir eru á leið í borgina til að undirbúa sýningarnar.

„Ég hitti Jan þegar við vorum staddir í flugvél og við fórum að ræða saman í framhaldinu,“ segir Bill Murray þegar hann er beðinn um að lýsa því hvernig það kom til að þau fjögur fóru að vinna saman að þessari óhefðbundnu sýningu.

Hópurinn sem kemur fram í Hörpu.
Hópurinn sem kemur fram í Hörpu. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hef engan áhuga á konunni þinni“

„Við hugsuðum með okkur að við gætum sett upp sýningu sem gæti farið til framandi staða eins og Íslands,“ segir leikarinn og bætir við að þeir hafi hugsað sér að blanda saman bandarískum bókmenntum og klassískri tónlist.

„Síðan spurði Jan mig hvernig mér litist á eiginkonu hans. Ég sagði: „Jan, ég hef engan áhuga á konunni þinni.“ Hann sagði þá að hann væri að tala um hvernig mér litist á hana sem fiðluleikara,“ segir Murray en fiðluleikarinn umræddi er áðurnefnd Mira Wang.

„Við fengum Vanessu í lið með okkur en hún og Jan höfðu tekið upp plötu tveimur árum áður.“

Hafa fengið frábærar móttökur

Murray segir að þau hafi prófað að spila saman og allt hafi smollið. „Við kunnum vel við hvert annað og eru á sömu blaðsíðunni tónlistarlega,“ segir Murray og bætir við að þau hafi sýnt saman 50 sinnum.

Einnig tókum við upp plötu sem komst í efsta sæti yfir klassískar plötur, sem er reyndar ekki merkilegt en maður getur samt montað sig af því.

Sýningin hefur hlotið frábærar viðtökur og segir meðal annars á vefsíðu Listahátíðar að hópurinn hafi verið klappaður upp sjö sinnum í Kennedy Center í Washington í Bandaríkjunum fyrr á árinu.

„Við höfum fengið frábærar móttökur alls staðar, þetta er mjög skemmtilegt og við höldum ótrauð áfram.

Mira Wang, Vanessa Perez, Bill Murray og Jan Vogler.
Mira Wang, Vanessa Perez, Bill Murray og Jan Vogler. Ljósmynd/Aðsend

Ekki þurr sýning heldur skemmtun

Vogler segir að áhorfendur geti átt von á skemmtun. „Þetta verður ekki þurr bókmenntalestur með tónlist í bakgrunni. Við ætlum að skemmta fólki en söngur Bills gerir sýninguna stórkostlega.“

Hópurinn stoppar stutt á landinu en þau halda beint til Skotlands eftir sýninguna á föstudagskvöld. Það er varla hægt að sleppa Murray úr símanum án þess að spyrja hvort hann muni fylgjast með máli málanna í sumar; heimsmeistaramótinu í knattspyrnu.

„Gangi ykkur vel í Rússlandi“

Hingað hringir blaðamaður í bílinn og vill spyrja mig um heimsmeistaramótið,“ segir Murray og undirritaður býst við því að hann muni í framhaldinu skella á en svo fer þó sem betur fer ekki.

„Ég er mjög ánægður með að Ísland komst á mótið en vinur minn sýndi mér forsíðuna á Time Magazine þar sem má sjá íslenskan víking á forsíðunni. Það verður örugglega tómlegt á landinu því allir ætla á leikinn!“ segir Murray.

„Gangi ykkur vel í Rússlandi,“ segir leikarinn þegar hann kveður.

mbl.is