Hefur fundið sinn hljóm

Jade Bird er ung og hress tónlistarkona á uppleið.
Jade Bird er ung og hress tónlistarkona á uppleið.

Enska tónlistarkonan Jade Bird, fullu nafni Jade Elizabeth Bird, kemur fram á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves í nóvember. Bird er aðeins tvítug en hefur þegar hlotið mikla athygli og lof fyrir lög sín beggja vegna Atlantshafsins, enda mikil hæfileikakona.

Tímaritið Rolling Stone hefur nefnt hana sem einn þeirra kántrítónlistarmanna sem fólk ætti að þekkja til og í byrjun þessa árs komst hún á lista yfir tónlistarmenn sem kepptust um þá vegsemd breska ríkisútvarpsins, BBC, að teljast „hljómur ársins“, Sound of 2018 eins og það heitir, en þann heiður hlýtur tónlistarmaður eða hljómsveit sem þykir hafa skarað fram úr að undanförnu og vera líkleg eða líklegur til frekari afreka á árinu.

Bird hefur samið lög og texta allt frá 12 ára aldri, syngur eins og engill (eins og heyra má á YouTube og víðar) og spilar bæði á píanó og gítar. Tónlistarstíll hennar hefur verið kenndur við „Americana“, þjóðlaga- og kántrítónlistina bandarísku en þó með enskri nálgun. Í fyrra sendi hún frá sér stuttskífu, Something American, Eitthvað amerískt, og náði lagið „Cathedral“ hvað mestum vinsældum af þeim sem á henni voru og verður án efa leikið á Airwaves.

Fylgin sér

Blaðamaður ræddi við hina glaðlyndu Bird í síma á dögunum og bað hana fyrst að segja frá sjálfri sér. Hver er Jade Bird? „Jade Bird er tvítug kona frá Bretlandi sem leikur tónlist með gítargrunni. Ég á erfitt með að flokka tónlistina en ég er fylgin mér og sem bæði lög og texta sjálf,“ svarar Bird glettin.

–Þú ert bara tvítug en hófst ferilinn fyrir þremur árum, ekki satt?

„Það mætti segja það en fyrir mér var útgáfan á EP-plötunni eiginlega upphafið, allt sem kom á undan henni var eiginlega upphitun. Ég hef haldið tónleika frá því ég var 14 ára þannig að ég er búin að stunda þetta í dágóðan tíma,“ svarar Bird.

Eftir að Something American kom út fóru hjólin að snúast og með útgáfu lagsins „Lottery“ snemma á þessu ári komst hún fyrir alvöru í sviðsljósið og lék m.a. í spjallþætti Jimmy Fallon. Bird segist hafa haft á tilfinningunni að lagið myndi njóta vinsælda og þá m.a. í Bandaríkjunum. Hún segir líka frábært að hafa verið tilnefnd í fyrrnefndri könnun BBC, Sound of 2018.

Amerísk áhrif

–Ég hélt að þú værir bandarísk þegar ég hlustaði fyrst á lögin þín og titillinn á plötunni, Something American, benti líka til þess. Svo komst ég að því að þú værir bresk.

„Já, ég veit, ég er undir miklum áhrifum þaðan og fannst því þessi titill, Something American, við hæfi. Ég er mjög hrifin af bandarískum hreimum og sérstaklega hrifin af bandarískri tónlist. Núna myndi ég þó segja að tónlistin mín væri orðin minna tengd ákveðinni tegund tónlistar eða upprunalandi, mér hefur tekist að finna minn hljóm,“ segir Bird.

–Þú myndir þá ekki lýsa henni sem Americana-tónlist?

„Nei, ekki lengur, eins skrítið og það nú er. Nú legg ég meiri áherslu á lifandi flutning hljómsveitar þegar ég tek upp,“ svarar Bird og bendir á að Crosby, Stills & Nash og Joni Mitchell hafi verið með sama fyrirkomulag og því minni tónlist hennar ef til vill á tónlist þeirra. „Tónlistin er bara það sem hún er og hún er ég og ég er ekki að reyna að vera önnur en ég sjálf.“

Á persónulegum nótum

Á vef bandarísku útvarpsstöðvarinnar National Public Radio segir að Bird sé lunkin í því að skrifa lagatexta um þær stundir í lífinu sem hún vilji gjarnan gleyma. Bird er spurð að því hvaða stundir eða atburðir þetta séu og hún nefnir sem dæmi hjónaskilnaði í hennar nánustu fjölskyldu. „Allir upplifa einhvers konar sársauka og lögin mín hafa tilhneigingu til að vera mjög persónuleg, með óbeinum hætti,“ segir Bird og að hún eigi til að komast í tilfinningalegt uppnám við flutning sumra þeirra á tónleikum.

–Þú fluttir oft með foreldrum þínum þegar þú varst barn, ekki satt?

„Jú, pabbi minn starfar í hernum þannig að við vorum mikið á flakki þar til ég var sjö ára. Þá fluttum við mamma til ömmu minnar í Wales og þegar ég var 16 ára flutti ég svo til London,“ svarar Bird en hún hefur einnig búið í Þýskalandi og Bandaríkjunum.

–Heldurðu að þetta hafi haft áhrif á listsköpun þína, að búa í þessum ólíku löndum?

„Já, hvað fólk varðar. Ég hef upplifað margt á skömmum tíma, kynnst mörgum og ég held að það hafi verið meiri innblástur en landslag, til dæmis. Ég hef aldrei verið innblásin af umhverfi mínu sem slíku nema þegar ég var í Woodstock að taka upp tónlist, sá staður veitti mér innblástur og það var algjörlega nýtt fyrir mér,“ svarar Bird en hún tók Something American upp í Woodstock og Catskill-fjöllum í Palenville í Bandaríkjunum.

Alltaf á ferðinni

Bird býr núna í London en segist ferðast mikið vegna tónleikahalds og í sumar mun hún einkum koma fram á tónlistarhátíðum. „Í september held ég í tónleikaferð um Bandaríkin og Bretland, þetta verða mikil ferðalög,“ segir hún, létt í bragði.

Spurð að því hvort hún hafi átt von á þessu annríki fyrir ári segir hún nei; hún hafi alls ekki átt von á því. „Ég legg eins hart að mér og ég get svo ég geti haldið tónleika sem allra lengst. Og það er brjálað að gera núna,“ segir hún sposk.

Bird hóf að reyna fyrir sér sem tónlistarmaður á táningsaldri og kom m.a. fram á krám í Wales á svokölluðum „open mic“-kvöldum en þá er hvaða tónlistarmanni sem er frjálst að troða upp. Hún segir þessi kvöld oft hafa verið erfið því gestirnir vildu frekar heyra gamla „pöbbasmelli“ á borð við „Wonderwall“ með Oasis en lögin hennar. Blaðamaður tekur undir að það sé vissulega erfiður áheyrendahópur og heldur smekklaus. „En ég lét mig hafa það og gerði það sem ég gat!“ segir Bird þá, létt í bragði.

Betri og þroskaðri

Bird hefur gefið út eina stuttskífu, sem fyrr segir og breiðskífa er væntanleg, Getting Rowdy. „Hún kemur í lok þessa árs eða byrjun þess næsta,“ segir Bird um plötuna og að búið sé að semja öll lög og texta fyrir hana. „Ég þarf bara að ganga úr skugga um að hún sé eins vönduð og kostur er, það gefst ekki annað tækifæri til að gefa út sína fyrstu breiðskífu.“

Hún er spurð að því hvort tónlist hennar hafi tekið einhverjum breytingum frá stuttskífunni og hún þarf ekki að hugsa sig um: „Tónlistin er orðin betri og þroskaðri. Við gerðum lag á meðan við vorum í Bandaríkjunum nú síðast og það er besta lag sem ég hef gert. Tónsmíðarnar eru orðnar betri hjá mér og mér hefur líka farið fram í því að koma þeim á plötu. Ég er farin að finna betur minn hljóm og rödd og það er það mikilvægasta af öllu,“ segir Bird og greinilegt að hana skortir ekki sjálfstraust.

Plötufyrirtækið Glassnote gefur plötuna út, líkt og stuttskífuna, sjálfstætt fyrirtæki sem Bird ber afar vel söguna. „Þeir hafa veitt mér mikinn innblástur,“ segir hún um hæstráðendur þar á bæ en fyrirtækið gefur m.a. út plötur Mumford and Sons og Childish Gambino. „Þeir eru með frábæran hóp listamanna,“ segir Bird og spurð að því hvernig tilfinning það hafi verið að landa samningi við svo vandað fyrirtæki, segir hún það hafa verið draumi líkast en vissulega líka áskorun.

Bush áhrifamikil

–Ég sá myndband af þér að flytja lag Kate Bush, „Running Up That Hill“. Heldurðu að þú munir flytja það á Íslandi?

„Kannski, ég veit það ekki af því ég veit ekki enn hvort ég verð með eða get verið með píanó á tónleikunum,“ svarar Bird. Píanóið sé nauðsynlegt í því lagi.

En hefur Bush veitt henni mikinn innblástur? „Hún hefur gert það hin síðustu ár, ég hef verið að hlusta betur á plötur á borð við Hounds of Love og The Big Sky sem mér finnst alveg stórkostlegar,“ segir Bird.

Hún er að lokum spurð að því hvað sé framundan hjá henni í sumar. „Sumarið fer allt í að koma fram á hátíðum og taka upp plötuna. Ég vona að platan verði tilbúin bráðum svo við getum farið að skipuleggja hvenær eigi að gefa hana út og fleira tilheyrandi,“ segir Bird og bætir við að hún ætli líka að semja fleiri lög og texta þegar tími gefst til.

–Það er mikið að gera hjá þér?

„Já, og það er bara gott!“ svarar Bird hin hressasta, enda sól og sumar í London og framtíðin björt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Samræður við stjórnendur, foreldra og yfirboðara eru beinskeyttar og ákafar í dag. Alls kyns spennandi tækifæri til vaxtar eru fyrir hendi núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Ragnar Jónasson
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Moa Herngren
5
Jojo Moyes
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Samræður við stjórnendur, foreldra og yfirboðara eru beinskeyttar og ákafar í dag. Alls kyns spennandi tækifæri til vaxtar eru fyrir hendi núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Ragnar Jónasson
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Moa Herngren
5
Jojo Moyes