Erfiði er auðvelt ef það er gaman

Þrátt fyrir ungan aldur er hinn 18 ára gamli Már Gunnarsson ekki aðeins einn fremsti sundmaður Íslendinga, þar sem hann slær hvert Íslandsmetið á fætur öðru í lauginni, heldur er hann í ströngu tónlistarnámi þar sem hann er núna að vinna að útgáfu sinnar fyrstu plötu. Már er einn þeirra fjögurra íslensku íþróttamanna sem „stefna að hinu ómögulega“ með því að komast á ólympíumót fatlaðra í Tókýó í Japan árið 2020, en Morgunblaðið og mbl.is munu fylgja þessum íþróttamönnum eftir næstu árin fram að keppni. Már og hinir íþróttamennirnir eru nýbyrjuð í herferð með Íþróttasambandi fatlaðra og Toyota sem ber yfirskriftina „Start your impossible“, en Már á möguleika á að komast á ólympíumót fatlaðra eftir tvö ár.
Blaðamaður ekur sem leið liggur suður með sjó, til að hitta Má sem býr í Keflavík ásamt foreldrum sínum og systkinum. Heimilið hefur listrænt yfirbragð enda móðir hans Lína Rut Wilberg listakona. Faðir hans, Gunnar Már Másson flugmaður, hefur lagt flugið á hilluna og ferðast um allt með Má.

„Pabbi sér um að „pikka“ í höfuðið á mér með priki þegar ég nálgast bakkann svo ég klessi ekki á hann. Það verður að vera einhver á sitthvorum bakkanum með prik,“ segir Már en hann er með eins prósents sjón. Már fæddist með aðeins betri sjón, 7-8 prósent, en hún hefur minnkað með aldrinum. Orsökin er sjúkdómur í augnbotnum, leber congenital amaurosis, LCA.
Gunnar býður upp á kaffi og við tyllum okkur í bárujárnshúsi í einum fallegasta bæjarhluta Keflavíkur.

„Ég hef búið nokkuð víða en hefur held ég hvergi liðið jafn-vel. Ég fæddist í Reykjavík og við bjuggum svo meðal annars í Lúxemborg í sex ár en hér í Keflavík hef ég búið frá 12 ára aldri. Fyrir utan að það er frábært að vera nálægt flugvellinum þar sem ég ferðast mikið út af sundmótum þá er frábært sundlið hérna, góð laug, tónlistarskólinn mjög góður og góður andi í bæjarfélaginu.“

Már Gunnarsson.
Már Gunnarsson. Árni SæbergMá langaði alltaf til að æfa íþróttir. Hann hafði gaman af fótbolta og segir glettnislega að hann hafi fljótlega áttað sig á því þegar hann var að leika sér með boltann úti í garði að það væri betra að vita hvert hann væri að skjóta til að geta lagt boltann fyrir sig.
„Þegar við fluttum heim frá Lúxemborg fór ég beint í að æfa sund og fann strax að það hentaði mínum karakter og líkama vel. Í sundi þarf mikla einbeitingu og þar sem ég hef hana og er mikill markmiðamaður fann ég að það að geta stefnt að einhverju var frábært. Fyrir utan Ólympíuleikana 2020 stefni ég núna á að komast á heimsmeistaramótið í Malasíu á næsta ári og komast þar í úrslit í hverri grein.“ Nýjustu met Más eru frá Evrópumóti fatlaðra í Dublin í ágúst en þar setti hann alls sex Íslandsmet.

Bóka- og tungumálamaður

Sundæfingarnar eru stífar, níu æfingar á viku, en í kringum æfingarnar smíðar hann aðra dagskrá; tónlistaræfingarnar, en Már er nemi í tónlistarskólanum í bænum og píanónámi hjá Þóri Baldurssyni. Ný plata Más, Söngur fuglsins, verður jafnframt útskriftarverkefni hans frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja.
„Ég er mjög ánægður með að FS tók vel í að útskriftarverkefni mitt yrði ekki hefðbundin ritgerð, enda gagnast það mér lítið fyrir það nám sem ég ætla í; skapandi nám í tónlistarháskóla erlendis. Enda er svo margt sem lærist í því ferli að skipuleggja plötuútgáfu og útgáfutónleika, bæði skapandi hliðin og svo allt sem tengist viðskiptahlutanum og skipulagi.“
Á plötunni eru 14 lög. Már sér um lagasmíðarnar og vinur hans í Lúxemborg, Tómas Eyjólfsson, er textahöfundur. Auk þess sem Már syngur sjálfur mikið á plötunni syngja systir hans, Ísold Vilborg, Salka Sól, Villi Naglbítur og Ívar Daníelsson. Einnig syngur ein þekktasta söngkona Póllands, Natalia Prybysz, á plötunni. Útgáfutónleikar verða bæði í Reykjavík og Keflavík.

Hið óvenjulega er að öll vinnan fer fram í Póllandi en á síðasta ári keppti Már í alþjóðlegri söngvakeppni í Kraká á vegum Lionsklúbbsins fyrir blinda og sjónskerta. Már lenti þar í þriðja sæti og öðlaðist dýrmæt tónlistarsambönd þar ytra í kjölfarið, meðal annars við einn þekktasta útsetjara Póllands, Hadrian Tabecki, sem núna stjórnar upptökum og útsetur plötu Más. Söngur annarra söngvara plötunnar var tekinn upp í Keflavík og sendur út. Már fór aftur til Póllands í sumar og spilaði á stórri útihátíð í Kraká. Þess má geta að hann tók einnig þátt í góðgerðartónleikum á vegum einnar þekktustu leikkonu Pólverja, hinnar margverðlaunuðu Önnu Dymnu. Hún var svo ánægð með söng hans að hún óskaði eftir því að Már kæmi að ári og spilaði aftur.

Már sló sex Íslandsmet í Dublin í sumar.
Már sló sex Íslandsmet í Dublin í sumar.

Hvernig gengur að finna tíma til að sinna þessu öllu, sundinu, tónlistarskólanum og menntaskólanum? Ertu framkvæmdaglaður?

„Þetta er meira en 100 prósent vinna en ég er á þeirri skoðun að ef maður hefur gaman af því sem maður gerir þá sé allt í lagi að vera önnum kafinn. Um leið og ég kom heim af síðasta móti fór ég að undirbúa tónleika fyrir Ljósanótt þar sem ég spila með átta drengjum við smábátahöfnina 31. ágúst kl. 19.30. Eins og Georg Bjarnfreðarson myndi segja þá er ég bæði „doer og thinker“, segir Már og hlær. „Hafi maður gaman af því sem maður gerir þá verður erfiðið ósjálfrátt auðvelt.“

Hlustar ekki á tónlist

Blaðamaður fær einkatónleika þegar Már sest við píanóið og spilar og syngur. Röddinni er erfitt að lýsa á prenti en þvílík rödd, þvílík lög er það sem fer um hugann, þarna er augljóslega á ferð framtíðarstjarna. Tónlist Más er afar fjölbreytt, popp og rokk í grunninn en inn í það slæðist alls konar, allt frá þungarokki upp í létt og kósí lög, instrúmental tónlist og á nýju plötunni er meira að segja þungt þjóðlegt víkingalag sem kallast Vigdís og er tileinkað fyrrverandi forseta landsins.

Ertu alæta á tónlist sjálfur?
„Ég hlusta nánast ekkert á tónlist! Ég hlusta aðallega á bækur, algjör lestrarhestur, er núna að hlusta á Game of Thrones.“
Faðir Más skýtur inn í þar sem hann ber fram karamellur að Már sé mikill tungumálamaður, afar góður í íslensku, sem heyrist vel á orðfærinu, hann kann frönsku, lúxemborgísku, þýsku og dönsku. Áhugamálin eru heldur alls ekki upptalin því Már veit nákvæmlega allt um flugsögu Íslendinga. Sem barn flugmanns ólst hann upp við að fara í flugskýli og skoða flugvélar og blaðamaður reynir að reka hann á gat, það er einfaldlega ekki hægt. Hann kann öll ártöl og staðreyndir um hver flaug fyrst hvaða flugvél og hvert og hann veit meira að segja í hvaða röð íslensk flugfélög hafa verið stofnuð og farið á hausinn! Og ekki er lítið að vita þar.

Már var í þriðja sæti í söngvakeppni í Póllandi á …
Már var í þriðja sæti í söngvakeppni í Póllandi á síðasta ári og uppskar dýrmæt tengsl þar ytra.

„Hljóðheimurinn hefur auðvitað komið inn hjá mér í stað sjónarinnar og ég þarf auðvitað að reiða mig á það í mínum ferðum og það gengur vel. Nú er reyndar svolítil hætta af rafbílum sem lítið heyrist í og ég varð næstum fyrir einum um daginn. Að vera blindur sundmaður þýðir líka að það er ákveðinn galli að ég hef aldrei séð neinn synda bringusund, flugsund eða baksund en þjálfararnir útskýra þetta fyrir mér og sýna mér hreyfingarnar á bakkanum með því að grípa í hendur og fætur. Þannig finn ég hvernig þetta er gert. Sundið hefur gert mikið fyrir mig andlega og líkamlega og frábært fólk sem ég hef kynnst.“
Már segir að þegar kemur að sjóninni líti hann þó alls ekki á sig sem fatlaðan einstakling. „Ég vil helst henda öllum þessum orðum út úr kerfinu, að vera blindur, fatlaður, heyrnarlaus, samkynhneigður, gagnkynhneigður, svartur, hvítur, fjólublár… nei það er víst ekki til, en við erum öll bara fólk að takast á við lífið eins og það er og það er best að einblína á það. Vissulega er ég sá Már sem ég er meðal annars vegna þess að sjón mín hefur verið slæm. En allt sem ég hef gert hefur gert mig að þeim persónuleika sem ég er, tónlistin, sundið, að búa erlendis. Maður hefur lent í ýmsu en það hefur styrkt mig.“

Umslagið á væntanlegri plötu Más, Söngur fuglsins.
Umslagið á væntanlegri plötu Más, Söngur fuglsins.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert svo sjálfstæður að stundum manstu ekki eftir því að biðja um hjálp. Reyndu að minna þig á forgengileika hlutanna.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert svo sjálfstæður að stundum manstu ekki eftir því að biðja um hjálp. Reyndu að minna þig á forgengileika hlutanna.