Það tónskáld sem stendur mér næst

„Við að spila Bach afhjúpast allt, það er það persónulegasta …
„Við að spila Bach afhjúpast allt, það er það persónulegasta sem maður getur gert. Þegar fólk spilar Bach þá má heyra hvernig það hugsar um tónlist. Þess vegna heyrist svo oft lélegur Bach, því fólk er misgott í því að hugsa tónlist. Svo er það fingravinnan, til að pólifónían virki og gangi upp, sé tandurhrein, þá þarf meiri nákvæmni en í nokkurri annarri tónlist, varla einu sinni í verkum Mozarts. Fyrir mér er það eilífðarverkefni að takast á við Bach. Og þótt mér þyki vænt um Bach-diskinn sem ég gerði fyrir sjö árum, þá er hann allt öðruvísi en sá nýi, ég hugsa tónlistina allt öðruvísi í dag,“ segir Víkingur Heiðar Ólafsson. mbl.is/Einar Falur

„Fyrir utan að Johann Sebastian Bach sé mesta tónskáld allra tíma, þá er hann það tónskáld sem stendur mér næst og ég hef pælt mest í. Eftir að hafa gert diskinn með etýðum Philips Glass þá varð Bach að vera næstur,“ segir Víkingur Heiðar Ólafsson þegar hann er spurður að því hvers vegna hann hafi kosið að leika verk eftir þýska meistarann á nýja einleiksdiskinum sem Deutsche Grammophon gefur út í dag, föstudaginn 7. september. 

Eftir að hafa verið einleikari í 23. píanókosert Mozarts með norrænni ungmennahljómsveit í Hörpu á dögunum – í konserti sem hann lærði fyrir tónleikaröð með sveitinni, og eftir annasamt tónleikahald víða um lönd í sumar náði Víkingur að staldra við í nokkra daga á heimili sínu hér á landi áður en næsta törn hæfist; með fjölda tónleika sem tengjast útgáfu disksins auk annarra verkefna sem einleikari með hljómsveitum og í kammertónlist. „Ég fæ svo jólafrí,“ segir hann brosandi þar sem við ræðum saman á heimili hans hér á landi en þau Halla Oddný Magnúsdóttir eiginkona hans halda einnig heimili í Berlín.

Þegar við ræðum verkefni hans undanfarið og það sem er síðan framundan segist Víkingur vera hamingjusamur yfir því að hafa komist klakklaust gegnum verkefni ársins hingað til. Á meðal þeirra má nefnda að hann lærði og flutti á tónleikum með NHK-sinfóníuhljómsveitinni í Tókýó píanókonsert eftir Mendelssohn undir stjórn Vladimirs Ashkenazy, sem Víkingur metur mikils, hann lærði fyrrnefndan konsert eftir Mozart og píanókonsert eftir John Adams.

„Það er rosalegur konsert sem ég flutti með Þjóðarhljómsveit Eistlands og það var mikið mál að læra hann því ég lék á fimm tónleikum víða í Evrópu í vikunum á undan og á eftir, með ólíkum efnisskrám. Þetta ár hefur verið svolítið helgað syndum fortíðar, tónleikum sem ég sagði já við fyrir um tveimur árum þegar dagatalið leit bara frekar vel út og allt virtist eiga að vera auðvelt. Öll tónleikaboðin virtust ómótstæðileg og svo var allt í einu komið að hverjum tónleikunum á fætur öðrum, og þar á meðal með verkum sem ég þurfti að læra...

Það hefur allt gengið vel en satt best að segja fannst mér ekki útséð um það meðan ég var í storminum miðjum.“

Hætta á að brenna yfir

Vorið og sumarið voru því miklir annatímar hjá Víkingi, eins og heyra má, og inn í það blönduðust upptökurnar á nýja diskinum.

„Ég hljóðritaði diskinn í apríl en á svipuðum tíma lék ég Brahms-konsert í Finnlandi og prógramm í Wigmore Hall með sellóleikara – sem ég þurfti líka að læra. Ég fór því fram úr mér í loforðum fyrir tveimur árum en næsti vetur verður ótrúlega skemmtilegur og allt öðruvísi. Það erfiðasta sem maður gerir er að læra og flytja síðan ný verk, maður er iðulega alveg búinn eftir fyrsta flutninginn og þá er ekki auðvelt að þurfa að vakna eldsnemma daginn eftir og byrja strax að undirbúa það sem maður á að leika fjórum dögum seinna í annarri borg og með annarri hljómsveit. Það er miklu auðveldara að takast aftur og aftur á við sömu verkin; maður getur ekki leyft sér lengi törn eins og þá sem ég hef verið í undanfarið, þá er hreinlega hætta á því að brenna yfir. En, þetta hefur gengið upp...“

Þegar ég spyr Víking um fjölda konserta sem hann hefur lært og hefur á takteinum segir hann þá vera um fjörutíu talsins. Það tekur langan tíma að læra hvern og einn, segir hann, ef tónlistarmaðurinn ætlar virkilega að geta tekið þá sínum tökum.

„Fyrir nokkrum árum lék ég mér að því að læra þrjá konserta á tónleikatímabili en þá var ég ekki að leika á nándar nærri jafn mörgum tónleikum og nú. Eitt er að geta lært nýjan konsert á mánuði en annað að gera það á sama tíma og maður ferðast í viku hverri og er sífellt að hugsa um nýjar efniskrár fyrir ólíka tónleika. Núna breyti ég um verklag og læri enga nýja konserta í vetur, spila bara verk sem ég kann.“ Hann hugsar sig um og bætir svo við að tímabilið þar á eftir, 2019 til 20, muni hann reyndar leika þrjá splunkunýja konserta og þurfi að fara að undirbúa það, verk eftir John Adams, Bretann Thomas Adès og ungt finnskt tónskáld, Sauli Zinovjev. „Það verða allt tónleikar með frábærum hljómsveitum og ég verð að vera góður strákur og byrja að undirbúa brjálæðislega skemmtilegt tímabil 2019-20.“

Mikilvægt að þora að segja nei

„Ég held það megi kalla mig fullkomnunarsinna og ég er harður við sjálfan mig en mér líður best þegar ég fæ að vinna að afmarkaðri verkefnum yfir lengri tíma, þá er ég hvað hamingjusamastur, eins og þegar ég get spilað sama Beethoven-konsertinn með fjórum eða fimm hljómsveitum í röð, í stað þess að spila hann bara einu sinni og stökkva svo í Brahms eða eitthvað allt annað. Ég hafði í sjálfu sér ekki val um að gera neitt annað, fyrr en kannski núna að ég er kominn á þann stað að geta komist upp með það að ráða meiru um það hvað ég leik. Það getur tekið ótrúlega langan tíma að komast í þá stöðu,“ segir Víkingur og það gætir óþolinmæði í röddinni.

– En þú ert kominn í hana núna.

„Já. Tónlistarbransinn er fullur af fólki sem hefur ákveðna listræna sýn sem er ekki endilega sama og mín. Og það vill heyra mig leika ákveðin verk og ef það er með góðum hljómsveitum er það vissulega gaman, eins og með Mendelssohn-verkið sem ég lærði til að leika með NHK-hljómsveitinni í Tókýó. Þegar ég hafði flutt það var mér boðið að koma aftur og spila þá það sem mig langar að spila. Þannig er það oft.“

Víkingur bætir við að það sé mikilvægt að þora að segja nei og þá líka við stóru hljómsveitirnar ef það sé ekki tími til að læra ný verk sómasamlega fyrir þær.

„Maður á aldrei að læra verk nema maður hafi fullkomna trú á því! Það eru nógu margir sem geta spilað á píanó og margir spila nánast hvað sem er. Hins vegar eru þeir líklega teljandi á fingrum beggja handa sem algjörlega fylgja sínum eigin hugmyndum og löngunum. Ef Berlínarfílharmónían kæmi og byði manni að spila Rhapsody in Blue þá segðu langflestir já. En ég myndi hafna því. Því þótt um sé að ræða eina bestu hljómsveit í heimi þá er það ekki þess virði ef maður trúir ekki á verkið. Maður þarf bæði aga og styrk.“ 

Mikil hjarðhegðun í listum

Margir hljóðfæraleikarar helga feril sinn að mörgu leyti flutningi verka frá afmörkuðum tímabilum, tilteknum stefnum eða tónskáldum. Það orð fer hinsvegar af Víkingi Heiðari að hann takist á við óvenju fjölbreytilegar efnisskrár.

„Já, ég hef áhuga á fjölbreytilegri tónlist, dái að spila Bach en hef líka gaman af nýrri tónlist. Ég vil að það sé ekki auðvelt að skilgreina mig, eins og suma sem spila bara Vínarklassík eða bara Rachmaninoff og Prokofiev. Aðrir hafa unnið Chopin-keppnina og orðið þrælar Chopins allt sitt líf. En það er ákveðin skilgreiningarárátta í þessum bransa, vilji til að koma manni á bás.

Ef ég hefði ákveðið að gera ekki þennan Bach-disk núna fyrir Deutsche Grammophon og hefði þess í stað tekið upp meiri Glass eða jafnvel John Adams, þá hefði það haft mikil áhrif á þá tónlist sem mér hefði verið boðið að spila í framhaldinu – ég hefði verið skilgreindur sem flytjandi tónlistar frá seinni hluta 20. aldar eða þeirrar 21. Í músík eins og öðrum listgreinum er mikil hjarðhegðun og allir hoppa á sama vagninn og flokka allt og alla með sem auðveldustum hætti. Það getur haft mjög góð áhrif fyrir þá sem ná í gegn en er ósanngjarnt fyrir hina sem eru ekki jafn heppnir að vera á réttum stað á réttum tíma.“

Hver verður að finna sinn Bach

„Eftir Glass-diskinn vildu margir að ég héldi áfram á sömu braut. Hann naut velgengni, bæði hvað varðar móttökur gagnrýnenda og sölu. Fyrstu plötu ungra listamanna hjá stórum útgáfufyrirtækjum fylgir alltaf áhætta svo margir sögðu að ég ætti að halda áfram með það sama.“

– Var pressað á þig innan Deutsche Grammophon?

„Þegar það gekk svona vel þá vildi sú maskína meira af sama. Ég sagði strax ákveðið nei. Svo fórum við í Bach-pælingarnar og ég þurfti ekki að hafa mikið fyrir því að sannfæra þá. Upphaflega buðu þeir mér útgáfusamning eftir að hafa heyrt mig spila Goldberg-tilbrigðin í Berlín, það var rótin að þessu, efnið sem fyrst var ætlunin að gefa út. En eftir að hafa gert þessa Bach-plötu hafa þeir gefið mér lausan tauminn, nú fæ ég að ráða.“

– Finnurðu það?

„Já, ég sagði þeim hvað ég ætlaði að gera næst og þeir sögðu frábært! Þegar þeir spurðu hvaða diskur kæmi þar á eftir og ég svaraði, þá voru þeir líka ánægðir með svarið.“

Víkingur tókst á við Bach strax á sinni annarri hljómplötu árið 2011, tefldi verkum hans á móti öðrum eftir Chopin. Hefur Bach verið hans maður frá unga aldri?

„Ég tengdi ekki alltaf við hann en það var um 13 til 14 ára aldur sem það í tónlist hans sem hafði virkað frekar abstrakt á mig varð sensúalt,“ svarar hann. „Á einhverjum tímapunkti nær tónlist Bachs til manns og ég held að næstum hver sem er geti náð þeirri tengingu; það kemur að því að hann gengur beint inn í mann. Kannski er það vegna þess hvað hann er úniversal í hugsun, þetta eru ekki tilfinningar, gleði eða harmur einstaklings, heldur eitthvað stærra og kosmískara. Tónlistin er svo vel mótuð og abstrakt að tilfinningarnar í tónlistinni verða ennþá stærri en ella.

Ég heillaðist fyrst þegar ég fékk í hendur upptökur með Edwin Fischer frá því um 1930, mjög rómantískar útgáfur af prelúdíum og fúgum, rosalega fallegar. Ég myndi ekki spila eins og hann, hver verður að finna sinn Bach en þetta er mjög falleg túlkun. Og við að hlusta á Fischer áttaði ég mig á því hvað þetta er mikill skáldskapur. Mér finnst að oft sé gert of mikið úr stærðfræðinni hjá Bach, hvað verkin séu vísindaleg og fullkomin, og til eru menn sem hafa skrifað heilu doðrantana um talnafræði að baki músíkinni, rétt eins og hann hafi verið brjálaður vísindamaður sem reiknaði þetta allt úr. Auðvitað var hann það ekki. Ástæða þess að við erum enn að spila þessa tónlist er ljóðræna innihaldið. Það hafa verið til önnur tónskáld sem skrifa fullkomna strúktúra en við nennum samt ekki að hlusta á verkin.“

Gould hefur haft áhrif

Víkingur bætir við að hann hafi farið gegnum nokkra fasa í hlustun á aðra píanóleikara túlka Bach. „Á tímabili var Dinu Lipatti aðalmaðurinn, tær og klassískur. Svo var það Rosalyn Tureck, með hægum tempóum og gagnsærri fjölröddun en ég hafði áður heyrt. Þá kom Richter eins og rússneskur skriðdreki, yfirleitt frekar reiður þegar hann spilaði Bach en orkan geggjuð, og Martha Argelich með sinn djassaða Bach. Svo var það auðvitað Glenn Gould sem hafði mest áhrif á mig. Maður vill ekki alltaf viðurkenna áhrif hans, hann er svo yfirþyrmandi að það er nánast eins og maður sé þá að gefa höggstað á sér; sumir vilja ekki viðurkenna sína áhrifavalda en ég hef ákveðið að gangast við honum.“ Víkingur glottir.

„Gould hefur vissulega haft áhrif á mig með því hvernig hann nálgast fjölröddun, pólifóníu, og fær allar raddirnar í þessum tónvef til að vera eins og leikara sem takast á, eru í fullkomnu lýðræði. Oft er ég mjög ósammála Gould í túlkuninni en á öðrum stundum rosalega samála – hugmyndafræði hans er sterk og heillandi. Að mínu mati er Bach það erfiðasta sem er hægt að spila á hljómborð, mér finnst auðveldara að spila Chopin eða Rachmaninoff; það er ekki hægt að fela sig tæknilega á bakvið neitt. Í dag heyrirðu ekki oft góðan Bach leikinn á píanó. Mér finnst þetta líka vera tónlist sem verður einn af kennurum manns. Þegar ég var orðinn 24 ára og búinn með sex ára píanónám í Juilliand leitaði ég til Bachs til að vera kennari minn; þegar ég þurfti að hlusta bara á innri sannfæringu þá varð hann mikilvægur kennari. Við að spila Bach afhjúpast allt, það er það persónulegasta sem maður getur gert. Þegar fólk spilar Bach þá má heyra hvernig það hugsar um tónlist. Þess vegna heyrist svo oft lélegur Bach, því fólk er misgott í því að hugsa tónlist,“ segir hann og brosir nánast afsakandi. „Svo er það fingravinnan, til að pólifónían virki og gangi upp, sé tandurhrein, þá þarf meiri nákvæmni en í nokkurri annarri tónlist, varla einu sinni í verkum Mozarts. Fyrir mér er það eilífðarverkefni að takast á við Bach. Og þótt mér þyki vænt um Bach-diskinn sem ég gerði fyrir sjö árum, þá er hann allt öðruvísi en sá nýi, ég hugsa tónlistina allt öðruvísi í dag.“

– Mér finnst merkilegt hvað nálgun þín er ólík á nýja diskinum!

„Mér finnst gaman að þú skulir segja það. Bach er eins og dagbókin manns; upptaka af verkum Bachs er mynd af flytjandanum á þeirri stundu. Jafnvægið verður að vera hárrétt, þessi rosalegi agi og rytmi verður að vera til staðar á móti frelsinu. Það er ekkert gaman að Bach sem er bara mótorískur, eins og einhver maskína, en að sama skapi er erfitt að hlusta á Bach-túlkun sem er mjög óöguð og hlutföllin vantar í...“

Víkingur Heiðar Ólafsson við flygilinn í Hörpu. Hann fagnar útgáfu …
Víkingur Heiðar Ólafsson við flygilinn í Hörpu. Hann fagnar útgáfu nýja einleiksdisks síns með tónleikum í Eldborg Hörpu laugardaginn 13. október. mbl.is/Kristinn Magnússon

Beethoven meiri einræðisherra

– Þú talar um Glenn Gould sem áhrifavald og nálgun hans við Bach hefur vissulega notið gríðarlegra vinsælda á síðustu áratugum, þótt hún sé ekki öllum að skapi. En nær hann ekki að benda á einhvern kjarna í tónlistinni?

„Mér finnst hann hafa opnað Bach með tvennskonar hætti,“ svarar Víkingur. „Hann kom með meira lýðræði inn í tónlist hans, málaði fjölröddunina sterkari litum en aðrir, og var á sama tíma óhræddur viðað gera sitthvað sem flestir töldu ekki mega. Hann tók svo afgerandi afstöðu í túlkun, með tempóum, dýnamík, öllu. Oft með engum pedal. Gould var alltaf eins og hliðartónskáld við Bach þegar hann lék verkin hans, og í raun þarf maður að verða það. Það eru engar leiðbeiningar fyrir flytjandann, engin dýnamík skilgreind, pedall var ekki til á hljómborðum þá, það eru engin tempó með nótunum og þessi músík er svo sterk og abstrakt að hún getur gengið upp í ótal myndum. Já, þegar maður túlkar Bach verður maður eiginlega eins og aðstoðartónskáld hans og það getur verið skemmtilegt ef maður hefur í sér að njóta þess að taka slíka afstöðu... Það er allt annað að spila Beethoven, hann er ekki eins hrifinn af lýðræðinu. Hann er meiri einræðisherra.“

Nóg af flugeldasýningum

– Hvernig komstu að þeirri niðurstöðu að hljóðrita einmitt þessi 35 númer sem eru á diskinum?

„Það tók mig marga mánuði,“ svarar Víkingur. „Þessi diskur er eins og kompósisjón í 35 hlutum. Ég hugsaði endalaust um það hvaða verk ég ætti að hljóðrita, hvers vegna og í hvaða röð þau ættu að vera. Innra tempóið á diskinum skiptir mig miklu máli.“

– Viltu hafa þar skýra heild, línu?

„Já. Það er oft leiðinlegt hvernig diskar með klassískri tónlist eru settir saman, á þeim eru kannski þrjú verk sem flytjandinn hefur verið að leika á tónleikum og dettur ekki annað í hug en að setja þau alveg eins á diskinn – kannski er það ein Schumann-sónata, önnur eftir Beethoven og loks smáverk eftir Ravel – en áheyrandinn upplifir það ekki sem áhugaverða heild.

Ég vil að diskurinn sé eins og saga, eins og áhugaverð heild þar sem áheyrandinn ferðast áfram í hraða, áferð og já, í frásögn. Þetta eru margar samtengdar smásögur. Mig langaði að sýna Bach sem meistara smásagnaformsins í tónlist. Við hugsum oft um svo stór verk þegar hugurinn leitar til Bachs, um Matteusarpassíuna, H-moll messuna, Jólaóratóríuna, Goldberg-tilbrigðin...en mig langaði að draga fram meistaraverk sem mörgum sést yfir. Á diskinum eru líka önnur fræg en ég held að ég geti til að mynda fullyrt að um áttatíu prósent þeirra sem heyra diskinn í fyrsta skipti hafi ekki heyrt upphafsverkið, Prelúdíu og fúgu í G-dúr, BWV 902. Sem er samt stórkostlegt verk. Byrjunin á diskinum er sérstök með því, það er nóg af flugeldasýningum á honum en mig langaði til að byrja á auðmjúkum nótum. Þá er gegnumgangandi á diskinum sá þráður að Bach sé spegill kynslóðanna, með umritunum ólíkra manna á verkum hans. Ég leik til dæmis umritun Rachmaninoffs á fiðluverki sem hann gerir nýtt verk úr, bætir við fullt af röddum og djassar það upp en heldur þó Bach-röddinni út í gegn. Svo er þarna falleg umritun Alexanders Siloti, sem var kennari Rachmaninoffs, á prelúdíu í h-moll sem er eins og stúdía í því hversu mikil orgellitbrigði má fá út úr flygli. Þá er á diskinum fræg og falleg umritun eftir Busoni en líka önnur eftir Wilhelm Kempff sem er eins fríkaður Bach og maður heyrir, frumlegur og framtíðarlegur. Það er feikilega krefjandi að leika það verk.“ 

Ýmislegt að finna í gullkistunni

– Svo umritaðir þú eitt verkið sjálfur, aríu úr „Widerstehe doch der Sünde“ BWV 54.

„Mér fannst að þar sem ég væri auk þess að leika beint verk eftir nótum Bachs að skoða önnur í umritunum sem spegil fyrir kynslóðir annarra, þá ætti ég líka að koma með fulltrúa minnar kynslóðar – og stysta leiðin var að gera það bara sjálfur! Ég valdi aríu úr uppáhaldskantötunni minni, ég hef lengi heyrt fyrir mér að hún myndi virka vel á flygil. Verkið er frumflutt á diskinum, ég hef ekki enn leikið það opinberlega en mun eflaust gera það oft í vetur.

Strax á eftir eftir umritun minni á diskinum kemur „Aria Variata í a-moll“ BWV 989 og svo tíu snilldar tilbrigði við hana. Mér finnst það vera algjört meistaraverk sem ég vona að eigi eftir að fara víða með tilkomu þessa disks. Þetta verk hefur verið kallað „litlu Goldberg-tilbrigðin“ og arían er eins falleg og allt það fallagsta sem Bach samdi; ég ákvað að loka hringnum eftir varíasjónirnar með því að leika aríuna aftur en það hefur ekki tíðkast. Það er annað dæmi um hjarðhegðun í listum, flestir vilja gera allt eins. Ég spyr mig líka hvers vegna allir spili alltaf sömu fimm prósentin af tónverkum Bachs þegar allt hitt er líka til. Síðan ég lauk námi hef ég verið að spila mig í gegnum allt það sem liggur eftir þetta stórkostlega tónskáld og í þeirri gullkistu finnur maður ýmislegt; það er enn hægt að fara í safn tónverka eins frægasta tónskálds sögunnar og finna verk sem hafa nánast ekkert verið spiluð, og þá stundum hörmulega. En hvernig sem á það er litið er tónlist Bachs bara stórkostleg,“ segir Víkingur Heiðar að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson