„Einstaklega spennandi tími“

Sofie Hermansen Eriksdatter, verkefnastjóri bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, kom fyrst til Íslands …
Sofie Hermansen Eriksdatter, verkefnastjóri bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, kom fyrst til Íslands þegar hún var 16 ára og lét sig strax dreyma um að koma aftur. Frá árinu 2011 hefur hún komið árlega til Íslands til að ganga á fjöll og í fyrra fékk hún loks draumastarfið hjá Norræna húsinu. mbl.is/Hari

„Ég ákvað fljótlega eftir að ég tók við starfinu að mig langaði til að fjölga íslenskum höfundum hér í húsinu,“ segir Sofie Hermansen Eriksdatter, verkefnastjóri bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Í því skyni skipulagði Sofie í samvinnu við Susanne Elgum bókavörð Höfundakvöld Norræna hússins sem hóf göngu sína um miðjan síðasta mánuð. „Fyrsti gesturinn var Auður Ava Ólafsdóttir, sem var okkur mikil ánægja,“ segir Sofie, en Auður hlaut sem kunnugt er Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2018 fyrir skáldsöguna Ör. „Hingað mættu 250 manns til að hlusta á samtalið við hana auk þess sem 700 fylgdust með í beinu streymi á netinu,“ segir Sofie sem stýrði umræðum og gerir það einnig á næsta höfundakvöldi sem verður í kvöld kl. 19.30 þar sem finnska skáldkonan Rosa Liksom kemur fram, en hún var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2013 fyrir skáldsöguna Klefi nr. 6 sem komið hefur út í íslenskri þýðingu. 

Auður Ava Ólafsdóttir var fyrsti gestur á Höfundakvöldi Norræna hússins …
Auður Ava Ólafsdóttir var fyrsti gestur á Höfundakvöldi Norræna hússins sem hóf göngu sína þetta misserið um miðjan síðasta mánuð. Auður hlaut sem kunnugt er Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs í fyrra fyrir skáldsöguna Ör.

Sama ár var einnig tilnefndur sænski höfundurinn Johannes Anyuru fyrir bókina En storm kom från paradiset, en hann verður gestur 6. mars. „Íslenskar raddir fá síðan að hljóma á lokakvöldi vorsins 10. apríl þegar Haukur Ingvarsson, Ásta Fanney Sigurðardóttir, Fríða Ísberg og Jón Örn Loðmfjörð ræða við Eirík Örn Norðdahl ljóðskáld um ,,rödd Íslands“ og ljóðagerð,“ segir Sofie og bendir á að valið á íslensku ljóðskáldunum haldist í hendur við að hópurinn hafi nýverið tekið þátt í ljóðahátíðinni Audiatur í Bergen.

Finnska skáldkonan Rosa Liksom verður gestur á Höfundakvöldi Norræna hússins …
Finnska skáldkonan Rosa Liksom verður gestur á Höfundakvöldi Norræna hússins í kvöld kl. 19.30. Hún var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2013 fyrir skáldsöguna Klefi nr. 6 sem komið hefur út í íslenskri þýðingu.

Hreifst af Íslandi 16 ára

Sofie tók við stöðu verkefnastjóra í apríl í fyrra af Sigurði Ólafssyni, en skrifstofa Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs hefur verið í Norræna húsinu frá 2014. „Þetta hefur verið einstaklega spennandi tími og samtímis afar krefjandi. Þegar mér bauðst starfið um miðjan mars í fyrra var ég beðin að flytja eins fljótt og auðið væri til Íslands þar sem Sigurður tók við nýju starfi 1. maí. Það var augljóst að starfið væri svo krefjandi að enginn annar en hann hefði getað sett mig nægilega inn í öll mál, m.t.t. ólíkra verkefna sem tilheyra hverjum árstíma, og allt það tengslanet sem starfið krefst og nær til fjölda landa jafnt innan sem utan Norðurlandanna. Á þeim tíma var ég bundin í fjórum störfum í Danmörku,“ segir Sofie og rifjar upp að hún hafi verið að kenna bókmenntir í háskóla, lýðháskóla og í kvöldskóla. „Ég var lausráðin á öllum stöðum sem þýddi að ég gat losað mig fremur hratt og var komin til Íslands um miðjan apríl. Við Sigurður náðum því að starfa saman í tíu daga og á þeim tíma setti hann mig inn í allt sem viðkemur starfinu. Ég grínast stundum með það að þetta hafi verið líkt og að fá inngjöf beint í æð.“

Spurð um bakgrunn sinn segist Sofie hafa lokið námi frá Ritlistarakademíunni í Bergen eftir að hún lauk cand. mag. í fagurfræði og menningu frá Háskólanum í Árósum. „Hluta þess náms tók ég sem skiptinemi hérlendis við Háskóla Íslands veturinn 2012-13 þar sem ég tók námskeið í bókmenntafræði, listfræði og náttúruvísindum á íslensku. Lokaverkefni mitt fjallaði um náttúrulýsingar í íslenskum listaverkum, hvort heldur er innsetningum, ljósmyndum eða bókmenntatextum,“ segir Sofie og rifjar upp að hún hafi fyrst heimsótt Ísland með fjölskyldu sinni árið 2002. „Þá var ég aðeins 16 ára gömul og hreifst strax af landinu. Á áttunda áratug síðustu aldar starfaði mamma mín í síld á Siglufirði og eignaðist góðar vinkonur sem við gistum hjá í þessari hringferð okkar um landið, en ferðin tengdist einnig störfum mömmu sem er listakona og keramíker. Einnig gistum við á Skorrastað og hjá vinum frænda míns sem vann um tíma á bóndabæ í Vatnsdal,“ segir Sofie og rifjar upp að þessi ferð hafi haft mikil áhrif á hana og hún fljótlega einsett sér að koma aftur.

Eykur sýnileika bókanna

„Leið mín lá ekki til Íslands fyrr en 2011. Þá kom ég ein og lauk ferðinni með því að ganga Laugaveginn og endaði í Þórsmörk. Ég hef árlega síðan lagt leið mína í Þórsmörk ýmist ein eða í hópi vina auk þess að ganga á fjöll víðs vegar um landið,“ segir Sofie og skiptir úr dönsku í íslensku þegar hún tekur fram að sér hafi þótt mikilvægt að þekkja þannig bæði land, þjóð og tungu þegar hún sótti um starfið sem hún nú gegnir. „Ég á auðvelt með að læra tungumál og finnst alls ekki erfitt að bera íslenskuna fram eða lesa hana. Helsta áskorunin felst í málfræðinni,“ segir Sofie, sem sótt hefur nokkur tungumálanámskeið hérlendis.

Að sögn Sofie þurfti hún ekki að hugsa sig lengi um þegar starf verkefnastjóra bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs var auglýst. „Mig langaði til að búa aftur á Íslandi. Ég hafði lengi látið mig dreyma um að vinna við Norræna húsið í Reykjavík eða við Háskóla Íslands. Mér finnst ég því hafa verið einstaklega lánsöm að fá draumastarfið,“ segir Sofie sem ráðin var til fjögurra ára.

Sofie hefur á umliðnum árum sjálf skrifað ljóð sem hafa birst í úrvalsbókum útgefnum á vegum m.a. Signaler og Cappelen Damm. Í fyrra gaf Forlaget Silkefyret út ljóðabók hennar Under gulvet gror der planter sem Maria Molbech myndskreytti. „Ein af ástæðum þess að ég sótti um starfið hér var að mér fannst spennandi að vera í nánum og góðum tengslum við aðra rithöfunda á öllum Norðurlöndunum.“

Sofie hefur í samvinnu við starfsfólk bókasafns Norræna hússins unnið að því að gera þær bækur sem unnið hafa Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs sýnilegri á bókasafninu. „Þegar við fórum að skoða bókakost safnsins kom í ljós að það átti þegar næstum öll vinningsritin frá því stofnað var til verðlaunanna. Það var því einboðið að bæta við þeim titlum sem upp á vantaði og auka sýnileika þeirra,“ segir Sofie, en bækurnar mæta gestum um leið og þeir koma inn á bókasafnið. „Þetta virkar auðvitað eins og sýning, en eins og sjá má er rækilega auglýst að allar bækurnar eru til láns,“ segir Sofie og bendir á að skrifstofa Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs hýsi bæði elstu og yngstu verðlaun Norðurlandaráðs, því Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt 1962, en Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt 2013.

Þess ber að geta að tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2019 verða upplýstar 21. febrúar og til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2019 2. apríl. Verðlaunin sjálf verða afhent á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í október.

Lengi útgáfu af viðtalinu við Sofie má lesa í Morgunblaðinu í dag, miðvikudag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Samræður við stjórnendur, foreldra og yfirboðara eru beinskeyttar og ákafar í dag. Alls kyns spennandi tækifæri til vaxtar eru fyrir hendi núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Ragnar Jónasson
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Moa Herngren
5
Jojo Moyes
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Samræður við stjórnendur, foreldra og yfirboðara eru beinskeyttar og ákafar í dag. Alls kyns spennandi tækifæri til vaxtar eru fyrir hendi núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Ragnar Jónasson
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Moa Herngren
5
Jojo Moyes