Ice Cold: „Við erum aldrei að feika neitt“

Dúettinn Ice Cold eða Ingi Bauer og Stefán Atli Rúnarsson.
Dúettinn Ice Cold eða Ingi Bauer og Stefán Atli Rúnarsson.

Stefán Atli Rúnarsson og Ingi Bauer skipa dúettinn Ice Cold sem nýtur mikilla vinsælda á Youtube. Þeir kynntust í menntaskóla og það sem sameinaði þá tvo var áhugi þeirra á myndbandagerð. Eftir að hafa verið með rás á Youtube varð alger sprenging þegar þeir fóru að spila Fortnite í beinni útsendingu á fimmtudagskvöldum. Þeir segja að það hafi ekki allir áhuga á íþróttum og tölvuleikjasamfélagið bjóði upp á marga möguleika. 

-Hver er sagan á bak við Ice Cold?

„Í maí 2010 gerðum við Ingi fyrstu stuttmyndina okkar saman. Það var stuttmynd með sprengingum, byssuskotum og hasar. Stuttmyndin heitir Eiturlyf drepa og tók þátt í stuttmyndakeppni sama ár. Í janúar 2011 fórum við að gera tónlistarmyndbönd fyrir fólk í Flensborg og settum það á Youtube síðu Ice Cold. Við gerðum líka nokkur grín lög og tónlistarmyndbönd. Á þeim tíma vorum við bæði að gera tónlistarmyndbönd fyrir aðra og stuttmyndir. Í einni stuttmynd sprengdum við t.d. IKEA og þemað hjá okkur var sprengingar og byssuskot, hasarmyndir og sketsar. Í mars 2017 bjuggum við til fyrsta vloggið okkar þar sem Ingi sýnir hvernig takturinn fyrir lagið NeiNei með Áttunni varð til. Eftir að það vlog fékk hátt í 20.000 áhorf og góðar undirtektir héldum við áfram að vlogga reglulega.
í dag erum við búnir að gera yfir 54 vlog. 

Í janúar 2018 byrjuðum við með beinar útsendingar frá tölvuleiknum Fortnite og höfum spilað leikinn öll fimmtudagskvöld síðan. Við höfum spilað Fortnite með Steinda Jr, Herra Hnetusmjör, Donnu Cruz, Króla, Sprite Zero Klan og Pétri Jóhanni svo eitthvað sé nefnt.“ 

-Hvar kynntust þið Ingi?

„Við Ingi kynntumst þegar við vorum saman í Flensborg í Hafnarfirði árið 2010. Það sem tengdi okkur var sameiginlegur áhugi á að búa til myndbönd, þetta var eiginlega ást við fyrstu sýn.“

-Hvenær fóruð þið að hala inn fylgjendum á Youtube?

„Fylgjendahópurinn okkar byrjaði að stækka um leið og við fórum að gera vlog reglulega og svo stuttu seinna ákváðum við að byrja að streyma í beinni tölvuleiknum Fortnite og þá varð algjör sprenging. Við köllum fylgjendahópinn okkar Bjöllugang, Herra Hnetusmjör kom með það nafn og það einhvernvegin hefur haldið síðan.“

-Var það Fortnite sem kallaði fram þessar vinsældir?

„Fortnite hefur örugglega hjálpað eitthvað, en þetta snýst mjög mikið um að uploada reglulega og leyfa áhorendum að taka þátt. Þegar við vorum að byrja með vloggin vorum við að leyfa fólki að taka þátt, með því að senda okkur myndbönd af sér segja „ég er með bjölluna“, en að vera með bjölluna þýðir að fólk fær senda tilkynningu í símann sinn þegar við búum til nýtt myndband. Þegar kemur að Fortnite vorum við mikið að leyfa áhorfendum að taka þátt með því að spila með okkur. Þessi tenging við áhorfendur hjálpar til við að búa til langtíma áhorfendur sem síðan segja vinum sínum frá síðunni og þannig verður þetta smá eins og snjóbolti og fleiri og fleiri frétta af síðunni okkar og byrja að horfa.“ 

-Hvaða lífsfyllingu gefur það að spila tölvuleiki í beinni útsendingu?

„Það sem mér finnst skemmtilegast við það er samfélagið og félagslegi þátturinn. Það eru ekki allir einstaklingar sem hafa áhuga á íþróttum og þeir finna sig kannski frekar í tölvuleikjum. Maður kynnist mikið af fólki í tölvuleikjasamfélaginu með samskonar áhugamál og svipuð markmið og maður sjálfur,“ segir Stefán og Ingi bætir við:

„Það er mjög gaman að byggja upp samfélag af fólki sem hefur áhuga á því sem maður er að gera og stillir inn í hvert einasta skipti. Einnig er frábært að geta talað við og spilað með áhorfendum okkar, með því kynnumst við þeim betur og þeir fá eiginlega að hanga með okkur eins og vinir. Ég held við séum með besta fylgjendahóp sem hægt er að finna,“ segir Ingi. 

Á dögunum gerði Ingi lag með fylgjendum Ice Cold. 

„Ég hafði verið með þessa hugmynd lengi í hausnum á mér. Eins og við töluðum um hér fyrir ofan þá höfum við reynt að leyfa fylgjendum okkar að taka mikinn þátt í öllu sem við gerum, svo þetta lá beinast við. Ég setti myndband á Instagramið okkar og sagði fólkinu að senda mér bara hvaða hljóð sem er. Það var virkilega gaman að heyra hvað fólk var með mismunandi hugmyndir. Eins og ég segi í myndbandinu sjálfu þá var þetta miklu erfiðara heldur en ég hélt, en þetta tókst að lokum. Ég hef verið að vinna með listamönnum eins og Herra Hnetusmjör, Séra Bjössa og fleirum sem eru virkilega hæfileikaríkir svo þetta var góð áskorun fyrir mig og skemmtilegt.“

Ice Cold gera fleira en spila tölvuleiki og búa til vlog. Þeir komu með hettupeysur á markað í vor sem seldust upp. 

„Ice Cold hettupeysurnar voru önnur leið fyrir okkur að leyfa fólki að taka þátt í því sem við erum að gera. Við vildum gera frekar fáar peysur og hafa gæðin betri. Þessar hettupeysur gengu það vel að í haust ætlum við að koma með nýjar flíkur sem munu einnig verða í takmörkuðu magni.“

-Hver er galdurinn við að ná athygli í gegnum Youtube?

„Vá ef ég bara vissi, nei djók. Það sem virkaði rosalega vel fyrir okkur var að setja út myndbönd reglulega. Margir Íslendingar á Youtube hætta eftir stuttan tíma því þeim finnst þetta ekki þess virði, en galdurinn er að halda sér gangandi og aldrei hætta. Við höfum verið á Youtube í 8 ár og bara síðustu 2 ár höfum við orðið svona virkilega stórir. Youtube, eða samfélagsmiðlar eru langhlaup, það er ekki nóg að pósta bara einu myndbandi og búast við milljón áhorfum. Það tekur tíma að byggja upp áhorfendur og það þarf að pósta reglulega.“ 

-Hvað þarf einstaklingurinn að hafa til að bera?

„Við höfum alltaf haft það að leiðarljósi að vera skemmtilegir og ekki „feika“ neitt. Myndböndin okkar erum bara við að vera við. Það eru alltof margir áhrifavaldar að reyna vera eitthvað annað en þeir eru í raun og veru, en það mun ekki geta haldið þér lengi á toppnum því fólk sér alltaf í gegnum það. Maður þarf auðvitað að hafa metnaðinn og áhugann, þú munt aldrei ná neinum árangri ef þú vilt bara verða frægur, þú þarft að hafa áhugann og mjög mikinn metnað. Þetta er algjört hark, en virkilega gaman.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Samræður við stjórnendur, foreldra og yfirboðara eru beinskeyttar og ákafar í dag. Alls kyns spennandi tækifæri til vaxtar eru fyrir hendi núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Ragnar Jónasson
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Moa Herngren
5
Jojo Moyes
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Samræður við stjórnendur, foreldra og yfirboðara eru beinskeyttar og ákafar í dag. Alls kyns spennandi tækifæri til vaxtar eru fyrir hendi núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Ragnar Jónasson
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Moa Herngren
5
Jojo Moyes