Ingvar er hæfilega bjartsýnn

Ingvar E. Sigurðsson keppir við ekki minni menn en Antonio …
Ingvar E. Sigurðsson keppir við ekki minni menn en Antonio Banderas og Alexander Scheer um Evrópsku kvikmyndaverðlaunin. Ásdís Ásgeirsdóttir

Ingvar E. Sigurðsson er tilnefndur sem besti evrópski leikarinn fyrir leik sinn í kvikmynd Hlyns Pálmasonar, Hvítur, hvítur dagur, á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum (EFA) sem verða afhent í kvöld í Berlín. Samkeppnin er hörð í þeim flokki líkt og flestum öðrum því aðrir tilnefndir eru Antonio Banderas fyrir Dolor y gloría eftir Pedro Almodovar, Jean Dujardin fyrir J'accuse eftir Roman Polanski, Pierfrancesco Favino fyrir Il traditore, Levan Gelbakhiani fyrir And then we danced eftir Levan Akin og Alexander Scheer fyrir Gundermann. 

Blaðamaður náði tali af Ingvari í opnunarhófi EFA í gærkvöldi þar sem margt var um manninn og Ingvar umsetinn, eins og við mátti búast. Hann gaf sér þó tíma í örstutt viðtal áður en ræðuhöld hófust og var fyrst spurður að því hvernig hann kynni við sig í svona hátíðarhavaríi. 

„Ég hef aldrei kunnað við mig í svona hátíðarhavaríi og er lengi að venjast því en þetta verður alltaf skárra og skárra, maður slakar alltaf aðeins meira á þegar maður er orðinn vanur þessu,“ svarar leikarinn geðþekki sem orðinn er býsna sjóaður þegar kemur að kvikmyndahátíðum og -verðlaunum og hlaut m.a. verðlaun í Cannes í vor fyrir leik sinn í kvikmynd Hlyns. 

Stólar á atkvæði frá Skandinavíu

Ingvar hefur verið tilnefndur áður til EFA-verðlauna, árið 2000 fyrir eftirminnilegan leik sinn í Englum alheimsins eftir leikstjórann Friðrik Þór Friðriksson. En hvernig líst honum á samkeppnina að þessu sinni, 19 árum síðar? „Mér líst bara vel á þessa drengi, þetta eru menn á öllum aldri, einn kornungur frá Georgíu og svo er annar þarna, Alexander Scheer, búinn að vera lengi í bransanum, þýskur og frægur. Svo er það Antonio Banderas frá Spáni, einn frá Ítalíu og einn frá Frakklandi. Þetta eru stórþjóðir og þeir hafa kannski allir fjölda fólks á bak við sig í akademíunni. Ég er frá litla Íslandi og stóla bara á atkvæði frá t.d. Skandinavíu,“ segir Ingvar sposkur. 

Ingvar segist hæfilega bjartsýnn á að hljóta verðlaunin, ekki vonlaus. „Ég er búinn að ferðast svo mikið með myndina og auðvitað fylgjast eitthvað með krítík og hef heyrt hvað fólk tekur vel í hana um allan heim.“

Ingvar segir EFA uppskeruhátíð kvikmyndagerðarmanna í Evrópu og bendir á að í álfunni séu mjög mörg lönd. Það sé því býsna góður árangur hjá okkur Íslendingum að fá tilnefningu í einhverjum flokki, líkt og gerst hefur bæði í ár og í fyrra þegar Halldóra Geirharðsdóttir var tilnefnd. Það sé í raun afrek í ljósi þess hversu margar kvikmyndir séu framleiddar í Evrópu á ári hverju. 

Viðburður sem skiptir máli 

„Það er mikil spenna hérna hjá skipuleggjendum þessarar hátíðar að koma heim til Íslands,“ segir Ingvar þegar talið berst að hátíðinni sem haldin verður í Reykjavík eftir ár. „Og það skiptir máli fyrir okkur Íslendinga sem kvikmyndaþjóð og þjóð á meðal þjóða í menningarlífi að fá svona viðburð til okkar.“

Blaðamaður bendir á að það sé varla óvænt lengur að íslensk kvikmynd sópi að sér verðlaunum líkt og Hvítur, hvítur dagur virðist ætla að gera en nokkur eru þegar komin í hús. Ingvar tekur undir þetta en segir þó alltaf hæðir og lægðir í greininni. „Núna erum við búin að vera í hæð í dálítínn tíma og virðumst vera frekar rísandi ennþá en svo kemur auðvitað að því að við sígum aftur. En það er bara eðlilegt.“

Verkefni bíða

-Hvað ætlarðu að gera ef þú færð verðlaunin? Kaupa dýrustu kampavínsflöskuna á hótelinu?

„Nei, nei, ég fer bara heim morguninn eftir,“ svarar Ingvar. „Ég fer bara að sinna næstu verkefnum, verð að gera eitthvað í þeim.“

Hver næstu verkefni eru vill Ingvar ekki segja að svo stöddu en staðfestir þó að um kvikmynd sé að ræða. „Þetta gerist alltaf svo hratt, verið að undirbúa ýmislegt sem má ekki tala um og síðan gerast hlutirnir einhvern veginn allt í einu og á meðan má maður ekki segja neitt.“

Hér má kynna sér tilnefningar til verðlaunanna og fleira sem að þeim snýr. Fyrir neðan má svo sjá myndband Euronews um þær kvikmyndir sem tilnefndar eru sem besta evrópska myndin í ár. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson