Tónlist nær á aðra staði en orð

Hildur Gudnadottir á BAFTA verðlaunahátíðinni.
Hildur Gudnadottir á BAFTA verðlaunahátíðinni. AFP

„Þetta hefur verið brjálað,“ segir Hildur Guðnadóttir og hlær þegar spurt er út í ferðalagið síðustu vikur, frá einni verðlaunahátíðinni á aðra, þar sem tónlist hennar við kvikmyndina Joker og sjónvarpsþættina Chernobyl hefur verið tilnefnd til ýmissa verðlauna. Hildur hefur þegar hreppt tíu verðlaun fyrir þessi verkefni og er nú komin til Los Angeles þar sem þau allra þekktustu, Óskarsverðlaunin, verða afhent annað kvöld. Og sérfræðingar segja hana afar sigurstranglega fyrir tónlistina í Joker.

Þegar Hildur er spurð hvernig tilfinning það sé að hafa heila þjóð á eyju norður í Atlantshafi sem fylgist spennt með hverju hennar fótspori á þessu flandri segist hún hafa fundið mikð fyrir því og finnist fallegt að allir heima séu með sér í liði. „Það er yndislegt að finna hvað fólk heima er spennt og fylgist vel með. Ég finn fyrir allri þeirri jákvæðu orku sem fólk sendir mér og það er mjög þægilegt.“

Varðandi hamaganginn á þessari verðlaunaafhendingavertíð, þar sem hún hefur flogið stórborga á milli, ítrekar Hildur að það hafi verið mikið brjálæði. „Og þetta gerist allt svo hratt því Óskarinn er óvenju snemma í ár og enginn vill vera með sín verðlaun á eftir Óskarnum. Það hefur verið algjör rússibanareið að fara á milli staða og ná að mæta á allt.“

– Hefurðu þá nokuð náð að semja eða vinna að öðrum verkum?

„Þetta hefur eiginlega verið full vinna! Ég náði að semja svolítið áður en þetta byrjaði allt, eitt lítið kammerverk sem var frumflutt í þarsíðustu viku í New York og svo gerði ég eina innsetningu með Ólafi Elíassyni sem var opnuð í janúar. Ég hef bara getað tekið slík smærri verkefni að mér og hef lítið getað einbeitt mér. Það hefur verið frekar mikill hávaði!“

Tónlistin hafði áhrif á alla á settinu

– Jókerinn er svo sannarlega áhrifamikil kvikmynd, en líka umdeild. Er það rétt að þú hafir fengið handritið snemma í hendur og byrjað þá strax að semja tónlistina?

„Ég byrjaði já óvenju snemma í þessu verkefni,“ svarar Hildur. „Leikstjórinn, Todd Philips, er undir miklum áhrifum frá tónlist og hún skiptir hann miklu máli í kvikmyndaferlinu. Hann hafði samt aldrei unnið þetta náið með tónskáldi áður en var viss um að hann vildi fara aðra leið en venjulega. Hann spurði því hvort ég væri til í að vinna með sér strax þar sem hann var að ljúka við handritið, og hvort ég væri til í að semja tónlist út frá tilfinningum mínum við lestur á handritinu. Það var ótrúlega spennandi að vera hluti af fyrstu frumeiningunum að myndinni. Yfirleitt kemur tónlist frekar seint inn, svo það var frábært að fá að vera hluti af öllu ferlinu og hafa áhrif á tempóið í myndinni og uppbygginguna. Og hafa áhrif á tilfinningarnar í henni frá upphafi.“

Hildur Guðnadóttir með Golden Globe verðlaunin.
Hildur Guðnadóttir með Golden Globe verðlaunin. AFP

– Áhorfendur skynja að notkun á tónlistinni er ólík því sem gerist alla jafna. Tónlistin er í hjartslættinum.

„Algjörlega. Einn af kostunum við að vinna þetta svona er að hægt var að nota tónlistina strax við upptökurnar og hún gat þar haft áhrif á hreyfingar leikaranna, á stemninguna í því sem aðalleikarinn Joaquin Phoenix var að gera og á kvikmyndatökuna. Tónlistin hafði áhrif á alla á settinu og er djúpt inni í frumeindunum.“

– Leikstjórinn hefur lýst því fallega hvað gerðist þegar hann spilaði tónlistina fyrir Phoenix við upptökur á sannkallaðri lykilsenu inni á baðherbergi þar sem hann dansar þegar Jókerinn er að brjótast fram í karakternum.

„Já, Joaquin bregst þar á mjög fallegan hátt við tilfinningunni í tónlistinni. Það er svo fallegt við tónlist hvernig hún getur náð á aðra staði en orð, hún fer undir húðina. Það er fallegt að sjá hann í stað þess að nota díalóg bregðast líkamlega við því sem tónlistin kallar fram. Við hefðum aldrei getað farið þessa leið ef við hefðum byrjað á að tala um hvað við vildum gera, það er algjör frumorka sem fór þarna af stað.“

Tónlistarsköpun mjög viðkvæmt ferli

 Kvikmyndin Joker fjallar um það hvernig ein alræmdasta persóna sagnanna um Batman varð til. Horfði Hildur á aðrar kvikmyndir þar sem persónan kemur við sögu?

„Ég reyndi að pæla sem minnst í öðrum útgáfum af Jókernum,“ segir hún. „Hann er svo rosalega sterkur karakter að ég vildi verða fyrir sem minnstum áhrifum frá öðrum túlkunum. Við erum að segja upprunasögu Jókersins, vinkil sem ekki hefur komið fram áður, og þegar maður tekst á við sögulegan karakter sem marir hafa skoðanir á þá er sköpunarlega mesta frelsið að finna í því að hugsa ekkert um það sem hefur verið gert áður. Við að semja tónlist er maður viðkvæmur fyrir því að verða ómeðvitað fyrir áhrifum, það sem maður hlustar á getur ósjálfrátt lekið inn í verk sem maður skapar. Tónlistarsköpun er mjög viðkvæmt ferli og það þarf að fara mjög varlega að því. Ég reyndi því meðvitað að bregðast bara við því sem ég las út úr handritinu.

Þegar maður les bók býr maður til heiminn í huganum, stjórnar þar tempói og hvernig karakterar bregðast við; við að semja tónlistina reyndi ég reyndi bara að tengja inn á það svæði í huganum. Þegar ég fann nóturnar hans [Jókersins] var eins og ég væri slegin eldingu! Það var svo rosalega sterk og mikil tenging – það var eins og ég væri slegin utan undir. Þetta er það sem hann vill segja. Og það var ótrúlega heppilegt að Todd var alveg sammála mér,“ segir Hildur og hlær.

Var frekar mikil vinna

– Hildur er menntaður margreyndur sellóleikari og sellóið er í stóru hlutverki í Joker. Samdi hún á sellóið?

„Nei, ég reyni að hafa vinnuferlið breytilegt. En eitt af fáu sem Todd sagði við mig í upphafi var að hann væri spenntur fyrir því að hafa sellóið í aðalhlutverki. Annars var hann forvitinn að heyra hvað ég kæmi með.“

– Tónlist kvikmyndarinar er mikið á lágu nótunum, með dimmum hljóðfærum, sellóinu og til að mynda drunum úr hinum nýja íslenska dórófón. Þetta neðra svið tónaflóðsins fær tilfinningasviðið líka til að víbra.

„Algjörlega. Það er svo magískt svæði,“ segir Hildur og bætir við að þegar hún byrjaði að lesa handritið hafi sér þótt rödd aðalpersónunnar liggja á því dimma tónsviði. En hvað tók þetta ferli með tónlistina við kvikmynina langan tíma?

„Þetta var hátt í eitt og hálft ár, frá byrjun til enda. Þegar maður kemur svona snemma inn í ferlið, löngu áður en byrjað er á tökum, þá er það skuldbinding til langs tíma. Það tekur rosalegan tíma að gera svona bíómynd. Ætli ég hafi ekki verið hvað lengst af öllum listamönnunum að vinna að þessu.“

Og samtímis vann Hildur að tónlistinni og hljóðheiminum fyrir sjónvarpsþættina Chernobyl.

„Þegar maður vinnur að kvikmynd í svona langan tíma hefur maður rýmri tíma frá degi til dags til að gera annað líka. En þetta var frekar mikil vinna í þó nokkra mánuði! Og það náðist …“

Hildur Guðnadóttir tekur á móti Grammy-verðlaunum fyrir tónlist sína í …
Hildur Guðnadóttir tekur á móti Grammy-verðlaunum fyrir tónlist sína í Chernobyl. AFP

Ekki snefill af öfund

– Þegar horft er á lista yfir tilnefnd og verðlaunuð kvikmyndatónskáld á síðustu árum koma sömu nöfnin fyrir aftur og aftur, þar á meðal nöfnin sem keppa nú við Hildi um Óskarinn. Það er sagt erfitt að komast inn í þann karlaklúbb — en er Hildur ekki komin inn í hann núna?

„Jú, mér sýnist það,“ svarar hún glaðlega. „Ég hef fundið alveg rosalega mikinn stuðning, áhuga og jákvæðni í minn garð. Ótrúlega mikinn, sérstaklega þetta síðasta ár, og það er mjög fallegt hvað bransinn hefur tekið mér opnum örmum. Ég sé ekki betur en ég sé velkomin.“

Hildur tekur undir að þetta sé mikill karlaheimur. „Staða kvenna í þesum geira innan kvikmyndaheimsins er hreinlega súrrealísk,“ segir hún. „Konur eru svona eitt til fjögur prósent tónskáldanna sem sömdu fyrir fimm hundruð til þúsund helstu bíómyndir sem gerðar hafa verið. Þær eru ótrúlega fáar. Það er sérstaklega flókið við þessar stóru Hollywood-myndir hvað pressan er mikil, og rosalegt stress sem fylgir þessum heimi. Stúdíóin eru frekar rög við að taka áhættu með tónskáldin. Tónlistin er sá þáttur sem er hægt að breyta hvað mest á síðustu metrunum svo tónskáldin eru undir rosalegu álagi áður en lokaútkoma myndanna verður ljós. Stúdóin hafa því viljað taka mjög öruggar ákvarðanir og velja tónskáld sem þau eru viss um að ráði við verkin. Ég held að þess vegna sjáum við sömu nöfnin aftur og aftur. En ég finn fyrir mikilli breytingu núna, maður þarf bara að komast með annan fótinn inn til að sanna að maður geti ráðið við þetta – og á síðustu árum hafa stúdíóin séð að ég ræð við þetta. Þar af leiðandi hafa þau gefið mér tækifæri á stærri og stærri verkefnum, sem er frábært, og þar af leiðandi vona ég að þau læri í leiðinni að það væri mikilvægt að hleypa nýju fólki inn í geirann.

Fólk hefur langað til að heyra eitthvað nýtt, og mögulega frá báðum kynjum!“

– Þú segir að það sé viðkvæmt ferli að semja tónlist, en vinnur þú engu að síður vel undir pressu?

„Já. Ég er frekar stóísk að eðlisfari og það þarf frekar mikið til að koma mér úr jafnvægi. Ég vinn frekar vel undir pressu, já. Það hentar mér ágætlega.“

– Einn viðmælandi minn gladdist yfir velgengni þinni og talaði um að nútímatónlistin væri gegnum þig svolítið að ráðast inn í formúlutónlist Draumaverksmiðjunnar. Er eitthvað til í því?

„Já, algjörlega. Það sem ég hef fundið á mínu ferðalagi hér í Hollywood er að fólk er rosalega spennt fyrir því að heyra eitthvað nýtt. Kynnast nýjum aðferðum og heyra ný hljóð, nýja nálgun, og ég hef bara fundið fyrir mikilli jákvæðni og stuðningi. Og sérstaklega frá tónskáldunum í eldri kantinum. Í gær sat ég með hinum tónskáldunum sem eru tilnefndir – Alexandre Desplat, Randy Newman og Thomas Newman – mönnum sem hafa skapað kvikmyndatónlistarformið eins og það er í dag og ég hef fundið mikinn stuðning frá þeim. Þeir eru svo spennir fyrir mína hönd að það er alveg dásamlegt! Þeir eru líka áhugasamir, til dæmis fyrir því hvernig ég vann fyrir Chernobyl-þættina, og fyrir hljóðfærunum sem ég hef notað. Það virðist ekki vera snefill af öfund, samkeppni eða nokkrum illvilja. Það er dásamlegt að kynnast þessu samfélagi hér og hvað þetta er gott fólk sem vill vel.“

Hildur Gudnadottir við tilnefninguna til Óskarsverðlauna.
Hildur Gudnadottir við tilnefninguna til Óskarsverðlauna. AFP

Ekki að festa sig í kvikmyndatónlist

– Er handritahrúgan hjá umboðsmaninum ekki að hækka? Berast ekki mörg tilboð um verkefni?

„Jú, það eru bara mjög mikil læti alls staðar!“ segir Hildur og hlær. „Og í tilboðunum líka. En ég ætla ekkert að taka þátt í þeim hávaða, ég er frekar róleg. Það var svo mikil vinna allt síðasta ár og ég kafa svo djúpt í öll verkefni sem ég tek að mér; ég get ekki farið hálfa leið með neitt sem ég geri. Ég verð því að velja vel það sem ég geri. Ég verð að halda áhuganum, forvitninni og sköpunargleðinni í hámarki, annars finnst mér ekki borga sig að standa í þessu.“

– Er þá enginn samningur undirritaður?

„Nei. Fyrst þarf ég smá tíma til að fara að heyra hugsanirnar aftur. Ég hef ekkert lesið og ekki tekið neina fundi. Ég vil finna tíma til að vinna nýja plötu, ein með sjálfri mér. Því þótt kvikmyndatónlist hafi tekið mikinn tíma hjá mér síðustu árin þá er það bara eitt af sviðunum sem ég hef farið inn á; ég hef alltaf þurft að spila á tónleikum, gera innsetningar og margt annað líka á sama tíma, það breytist ekkert. Ég ætla ekkert að festa mig í kvikmyndatónlist eingöngu,“ segir Hildur.

Hildur kát með BAFTA-verðlaunin.
Hildur kát með BAFTA-verðlaunin. AFP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson