Móðurást og hófleg dagdrykkja

Mads Mikkelsen sturtar í sig freyðivíni í dönsku kvikmyndinni Druk.
Mads Mikkelsen sturtar í sig freyðivíni í dönsku kvikmyndinni Druk.

Nú liggur fyrir hvaða kvikmyndir verða sýndir í dagskrárflokkinum Fyrir opnu hafi á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, sem hefst 24. september. Þeirra á meðal eru nýjustu verk leikstjóranna Thomas Vinterberg og Magnus von Horn og segir í tilkynningu frá RIFF að kvikmyndirnar í þessum flokki séu meistaraverk sem hafi vakið athygli, verið tilnefnd og unnið til verðlauna á stærstu kvikmyndahátíðum Evrópu. Margar kvikmyndanna séu einnig á dagskrá stóru hausthátíðanna í Feneyjum og Toronto.
„Í ár hefur þessi flokkur líklega aldrei verið eins spennandi, gamanmyndir í bland við drama,“ segir í tilkynningunni og kvikmyndir sem snerti á öllum hliðum mannlífsins, til að mynda mynd um tilraun lífsþreyttra félaga við að auka lífshamingjuna með hóflegri dagdrykkju, kvikmynd um forræðisbaráttu móður fyrir börnum sínum og kvikmynd um grátbroslega leit að ást og skuggahliðum samfélagsmiðla.


Átta kvikmyndir


Kvikmyndirnar sem sýndar verða eru eftirfarandi:
Sviti/Sweat
Nýjasta kvikmynd sænska leikstjórans Magnus von Horn en kvikmynd hans The Here After keppti í Vitranaflokki RIFF árið 2015 og hefur verið sýnd á fjölda kvikmyndahátíða og seld til ótal landa. Myndin gefur innsýn í líf áhrifavaldsins Sylwia Zajac sem hefur öðlast mikla frægð og frama á samfélagsmiðlum en er þó í raun ein í heiminum. Hér má sjá stiklu:



Annan umgang/Another Round
Nýjasta kvikmynd danska leikstjórans Thomas Vinterberg sem var frumsýnd í Cannes og sýnd í Toronto í vikunni. Mads Mikkelsen er í aðalhlutverki og segir myndin af nokkrum lífsþreyttum kennurum sem ákveða að sannreyna þá kenningu að það bæti lífið og auki sköpunargáfuna að vera alltaf svolítið í glasi. Tilraunin byrjar ágætlega en fljótlega fer að halla undan fæti.


Hirðingjaland/Nomadland
Kvikmynd með bandarísku leikkonunni Frances McDormand í aðalhlutverki, í leikstjórn Chloé Zhao. Hún var frumsýnd samtímis á kvikmyndahátíðunum í Feneyjum og Torontó. Segir af konu á sjötugsaldri sem hefur misst allt sitt í fjármálakreppunni og heldur í ferðalag um ameríska vestrið þar sem hún dregur fram lífið í sendiferðabíl sem nútímahirðingi.

Frances McDormand í Nomadland.
Frances McDormand í Nomadland.



Dvalarstaður/Charter
Í tilkynningu segir að gagnrýnendur hafi kallað þessa mynd eina bestu mynd ársins en hún var frumsýnd á Sundance-kvikmyndahátíðinni fyrr á árinu. Í þessari kvikmynd Amöndu Kernell er fjallað um takmarkalausa móðurást en eitt aðalhlutverkanna er í höndum Sverris Guðnasonar og hlaut myndin Europa Cinemas Label-verðlaunin sem besta evrópska kvikmyndin árið 2016. Hér má sjá stiklu úr Charter: 

Við erum hér/Here we are
Mynd sem frumsýnd var á Cannes-kvikmyndahátíðinni á þessu ári, í leikstjórn Nir Bergman. Hér segir af Aharon sem hefur helgað líf sitt því að annast einhverfan son sinn, Uri. Líf þeirra er í þægilegri rútínu en komið er að því að Uri flytji að heiman og fari að lifa eigin lífi. Spurningin er hvorum reynist það erfiðara, föður eða syni.


Köttur í veggnum/Cat in the Wall
Köttur í veggnum var frumsýnd á Locarno-hátíðinni í Sviss og er í leikstjórn Vesela Kazakova og Mina Mileva. Þær Mini og Vensela hafa valdið nokkru fjaðrafoki í heimalandi sínu Búlgaríu með heimildarmyndum sem komið hafa illa við kaunin á háttsettum mönnum þar í landi, segir í tilkynningu RIFF, enda fjalli þær um valdatafl og skuggalega fortíð nafntogaðra stjórnmálamanna. Í myndinni segir af búlgarskri fjölskyldu í London sem lendir í miklum erjum við nágranna sína vegna villikattar sem fjölskyldan hefur tekið að sér. Skáldaður farsi með alvarlegum undirtón, segir um myndina. Hér má sjá stiklu:

Við stjórnvölinn/A L’abordage
Gamanmynd eftir Guillaume Brac sem var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Berlín síðasta vetur þar sem hún hlaut FIPRESCI-verðlaun alþjóðlegra samtaka kvikmyndagagnrýnenda. Í henni segir af Félix nokkrum sem ákveður að elta sálufélaga sinn yfir þvert Frakkland en í kjölfarið fer af stað grátbrosleg atburðarás þar sem margt fer úr skorðum. Gamanmynd um samskipti og ástir unga fólksins. 


Fröken Marx/Miss Marx
Kvikmynd í leikstjórn Súsönnu Nicchiarelli sem er meðal þeirra sem kepptu til aðalverðlauna Kvikmyndahátíðarinnar í Feneyjum sem lauk um helgina. Hér segir af hinni frjálslegu og ástríðufullu Eleanor Marx, yngstu dóttur Karl Marx, sem var í hópi þeirra forystukvenna sem fyrst leiddu saman feminisma og sósíalisma og barðist fyrir auknum réttindum kvenna og verkafólks. Hér má sjá stiklu úr kvikmyndinni:

Myndirnar á RIFF verða sýndar í Bíó Paradís, Norræna húsinu og á netinu í gegnum www.riff.is. Hátíðin verður sett 24. september og hefst miðasala nú í vikunni.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson