Skyggnst inn á heimili Jimi Hendrix

Fimmtíu ár eru í dag liðin síðan gítargoðsögnin Jimi Hendrix lést langt fyrir aldur fram, aðeins 27 ára.

Hann sló í gegn sem tónlistarmaður í Bretlandi á sjöunda áratugnum með færni sinni á gítarinn og lagasmíðum á borð við Hey Joe, Purple Haze og eigin útgáfu af lagi Bobs Dylans, All Along the Watchtower.

Íbúðin hans við Brook-stræti 23 í Mayfair-hverfinu í London er núna safn. Þar bjó hann á árunum 1968 til 1969. 

Hann leit á íbúðina sem sitt fyrsta „alvöru heimili“, að sögn Christians Lloyds, fræðimanns við Queens-háskólann í Kingston í Kanada, sem er sérfræðingur í Hendrix. Rúmum tveimur öldum áður bjó annar tónlistarsnillingur í Brook-stræti 25, eða næsta húsi við Hendrix, Þjóðverjinn Handel. Platti til minningar um Handel var staðsettur á milli húsanna tveggja og fyrir vikið taldi Hendrix að þýska tónskáldið hefði búið í sama húsi og hann. Eitt sinn taldi Hendrix sig meira að segja hafa séð vofu Handels í spegli.

Hendrix á sviði í Stokkhólmi árið 1967.
Hendrix á sviði í Stokkhólmi árið 1967. AFP

Enginn vildi hýsa stjörnuna

Hendrix bjó í íbúðinni með þáverandi kærustu sinni, Kathy Etchingham, sem segir að erfitt hafi verið að finna íbúð fyrir stjörnuna.

„Ég hitti einn eða tvo fasteignasala og reyndi að fá íbúð í öðrum fjölbýlishúsum í Mayfair en um leið og þeir heyrðu að hún væri fyrir Jimi Hendrix var svarið nei,“ sagði hún við Channel 4 árið 2016. „Þeir vildu ekki einhvern eins og hann í þessum fjölbýlishúsum.“

Etchingham gjörbreytti þessari litlu íbúð, tók grátt teppið í burtu og keypti húsögn frá húsgagnaverslun Johns Lewis sem var staðsett skammt undan við Oxford-stræti. Fyrir fjórum árum síðan var haft samband við hana þegar íbúðinni var breytt í safn og hún beðin um að endurinnrétta allt eins og það var á sínum tíma, m.a. með persneskum mottum sem tónlistarmaðurinn safnaði.

Svefnherbergi Hendrix eins og það leit út á sínum tíma.
Svefnherbergi Hendrix eins og það leit út á sínum tíma. AFP

Hendrix naut sín vel í Brook-stræti og passaði íbúðin fullkomlega fyrir tónlistariðkun hans. Hann gat spilað daginn út og daginn inn, án þess að vera truflaður af nágrönnum sínum, þar sem aðeins verslanir og skrifstofur voru í nærliggjandi húsnæði. Lifði hann sannkölluðu bóhemlífi.

„Þessi staður var gott athvarf fyrir Hendrix. Þið getið rétt ímyndað ykkur hversu frægur hann var orðinn árið 1968,“ sagði Sean Doherty safnvörður.

Fyrsti gítarinn sem Hendrix spilaði á í Bretlandi er til …
Fyrsti gítarinn sem Hendrix spilaði á í Bretlandi er til sýnis í safninu. AFP

Yfirgaf Bandaríkin og breytti um nafn

Hendrix flutti til London í september 1966, 23 ára að aldri, algjörlega óþekktur eftir óhamingjusama æsku og stuttan tíma í hernum. Á leiðinni frá Bandaríkjunum hét hann því að skapa sér nafn í tónlistarbransanum og breytti nafni sínu úr Jimmy James í Jimi Hendrix.

Þegar hann og Etchingham hættu saman fór hann aftur til Bandaríkjanna til að taka upp tónlist. Bað hann umboðsmanninn sinn um að selja eða losa sig við allar sínar eigur. Ári síðar, eða 18. september 1970, fannst Hendrix látinn á hóteli í vesturhluta London. Hann hafði kafnað í eigin ælu eftir að hafa innbyrt kokteil af svefntöflum og rauðvíni.

Fimmtíu árum síðar lifir tónlist hans góðu lífi og Brook-stræti er orðinn vinsæll ferðamannastaður. „Margir ganga hingað inn og segjast finna fyrir anda Jimi Hendrix, sem er alveg frábært,“ sagði Doherty.  

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson