Stormasamt ár konungfjölskyldunnar

Harry Bretprins, Meghan hertogaynja, Karl Bretaprins, Katrín hertogaynja og Karl …
Harry Bretprins, Meghan hertogaynja, Karl Bretaprins, Katrín hertogaynja og Karl Bretaprins á síðasta viðburði Harry og Meghan í mars. AFP

Árið 2020 hefur verið einstaklega eftirminnilegt vegna kórónuveirunnar. Hjá konungsfjölskyldunni var veiran bara dropi í stormasamt haf en hafði þó kannski þau áhrif að minna var fjallað og spjallað um skandala ársins hjá konungsfjölskyldunni. 

Í byrjun janúar tilkynntu Harry Bretaprins og eiginkona hans Meghan hertogaynja af Sussex að þau ætluðu sér að stíga til hliðar, hætta að sinna störfum fyrir konungsfjölskylduna og verða fjárhagslega sjálfstæð. Tilkynningin kom eins og þruma úr heiðskíru lofti enda virtist sem þau hefðu ekki borið þetta undir eldri meðlimi fjölskyldunnar áður en þau gáfu út tilkynninguna. 

Í kjölfarið boðaði höfuð fjölskyldunnar, Elísabet II Englandsdrottning, til fundar, og gaf síðar út tilkynningu um að þau myndu láta af störfum sem meðlimir konungsfjölskyldunnar.

Stuttu síðar héldu Harry og Meghan til Kanada ásamt syni sínum Archie hvar þau dvöldu fram í mars þegar þau hjónin komu í sína síðustu ferð til Bretlands. Um það leyti var kórónuveiran búin að koma sér rækilega fyrir í flestum heimsálfum og einangruðu fjölskyldurnar sig hver í sínum kastalanum fyrir sig. 

Það kom þó ekki í veg fyrir það að ríkisarftakinn Karl Bretaprins greindist með kórónuveiruna hinn 25. mars. Eiginkona hans Kamilla hertogaynja smitaðist ekki og náði Karl sér fljótt og örugglega af veirunni. Um svipað leyti veiktist Vilhjálmur Bretaprins en þeim fréttum var haldið leyndum fyrir almenningi og aðeins greint frá því síðla um haustið. Gaf Vilhjálmur þá skýringu að hann hefði ekki viljað valda óþarfa áhyggjum hjá bresku þjóðinni.

Karl veiktist af kórónuveirunni.
Karl veiktist af kórónuveirunni. AFP

Gleði og sorg í borg englanna

Harry Bretaprins og Meghan hertogaynja festu í sumar kaup á húsi í Montecito, úthverfi í Los Angeles í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Þar hafa þau búið sér heimili í grennd við heimili móður Meghan. Flutningunum fylgdi þó ekki bara gleði en Meghan greindi frá því í pistli í New York Times á þakkargjörðardegi Bandaríkjamanna að hún hefði misst fóstur um sumarið.

Þá skrifuðu þau hjónin undir stóra samninga við streymisveiturnar Netflix og Spotify. Samningurinn við Netflix felur í sér framleiðslu á fjölbreyttu efni, allt frá heimildarmyndum yfir í leikna þætti. Nú í desember var svo greint frá samningi þeirra við Spotify sem felur í sér framleiðslu hlaðvarpsþátta. Stór skref í átt að loforði þeirra um að verða fjárhagslega sjálfstæð. 

Hertoginn og hertogaynjan af Sussex, Harry og Meghan fluttu til …
Hertoginn og hertogaynjan af Sussex, Harry og Meghan fluttu til Los Angeles. AFP

Brúðkaup og barn hjá systrum

Í lok síðasta árs tilkynnti Beatrice prinsessa, dóttir Andrésar Bretaprins, að hún væri trúlofuð og leit því allt út fyrir að konunglegt brúðkaup yrði á dagskrá árið 2020. Eftir að hafa aflýst vorbrúðkaupi gekk hún að eiga Edoardo Mapelli Mozzi í júlí í leynibrúðkaupi. Þar með braut hún blað í sögu konungsfjölskyldunnar og varð fyrsta stjúpmóðirin en Mapelli Mozzi á soninn Woolfie úr fyrra sambandi. 

Systir hennar Eugenie prinsessa og eiginmaður hennar Jack Brooksbank tilkynntu svo í lok september að þau ættu von á sínu fyrsta barni á næsta ári. 

Beatrice prinsessa og Eduardo Mapelli Mozzi gengu í það heilaga. …
Beatrice prinsessa og Eduardo Mapelli Mozzi gengu í það heilaga. Elísabet og Filippus voru viðstödd en Beatrice klæddist gömlum kjól af ömmu sinni. AFP

Krúnan veldur usla

Fjórða sería af The Crown, eða Krúnunni, kom út á streymisveitunni Netflix í nóvember. Í seríunni var samband Karls Bretaprins og Díönu prinsessu í forgrunni. Meðlimir konungsfjölskyldunnar hafa ekkert tjáð sig um þættina enda eru þau sögð ekki hafa horft á þættina. Þættirnir sýndu Karl Bretaprins ekki í fallegu ljósi og var dregið fram hversu mikil áhrif samband hans og Kamillu Parker Bowles, síðar Kamillu hertogaynju, hafði á hjónaband Karls og Díönu.

Andrés Bretaprins hefur fengið að vera í friði að mestu …
Andrés Bretaprins hefur fengið að vera í friði að mestu leyti þetta árið. AFP

Það er ljóst á athugasemdum á samfélagsmiðlum hvernig þættirnir fóru í heimsbyggðina en í hvert skipti sem Karl og Kamilla birta efni á miðlum sínum hafa þau fengið holskeflu af svívirðingum yfir sig. 

Hafa athugasemdirnar farið svo fyrir brjóstið á ríkisarfanum að þau lokuðu fyrir að almenningur gæti skrifað athugasemdir við færslur þeirra á Twitter. 

Fjallað var ítarlega um Díönu prinsessu í The Crown og …
Fjallað var ítarlega um Díönu prinsessu í The Crown og hjónaband hennar og Karls Bretaprins. AFP

Hvorki hósti né stuna frá Andrési

Á síðasta ári ollu fréttir af tengslum Andrésar Bretaprins við barnaníðinginn Jeffrey Epstein uppnámi. Þótt stöku frétt um málið hafi ratað upp á yfirborðið á þessu ári hefur málið fallið í skuggann af öðrum fréttum af hinni konunglegu fjölskyldu. 

Viðtal BBC við prinsinn í lok síðasta árs þótti koma einstaklega illa út og ákváðu drottningin og Karl Bretaprins í kjölfarið að hann myndi segja sig frá opinberum skyldum. Áður en veiran fór að láta á sér kræla höfðu stofnanir í Bretlandi óskað eftir því að þurfa ekki að flagga á afmælisdegi Andrésar og fengu það í gegn. Þá varð ekkert af opinberu brúðkaupi dóttur hans, Beatrice, svo Andrés gat auðveldlega farið huldu höfði og látið lítið á sér bera á þessu ári. 

Úr The Crown.
Úr The Crown. Ljósmynd/Netflix

Leyndarhyggja fyrirmyndarfjölskyldunnar

Í kjölfar útgöngu Harrys og Meghan úr konungsfjölskyldunni hafa Vilhjálmur og Katrín þurft að axla meiri ábyrgð og vinna meira. Fréttir bárust af því um mitt árið að Katrín væri orðin mjög þreytt á allri vinnunni. Konungshöllin tók þó fyrir þann fréttaflutning og sagði hana ekki orðna of þreytta.

Vilhjálmur smitaðist af veirunni á svipuðum tíma og faðir hans Karl Bretaprins. Veikindum prinsins var haldið leyndum þar til í haust þegar kvisaðist út að hann hefði smitast. Leyndarhyggja fjölskyldunnar, sem hefur sýnt gott fordæmi í sóttvörnum allt árið, fór í taugarnar á breskum almenningi sem gagnrýndi fjölskylduna. 

Fyrirmyndarfjölskyldan. Hertogahjónin af Cambridge þau Vilhjálmur og Katrín með börn …
Fyrirmyndarfjölskyldan. Hertogahjónin af Cambridge þau Vilhjálmur og Katrín með börn sín Georg, Lúðvík og Karlottu á jólakorti ársins 2020. AFP

Fjölskyldunni hefur almennt tekist vel að vera til fyrirmyndar í faraldrinum og fór meðal annars í lestarferðalag um landið þar sem sóttvarnareglur voru í hávegum hafðar. En svo bregðast krosstré sem önnur tré og nokkrum vikum seinna var fjölskyldan harðlega gagnrýnd þegar þau komu saman í garðinum við Sandringham ásamt Játvarði Bretaprinsi, eiginkonu hans Sophie og börnum þeirra. Þá töldu fjölskyldunar tvær níu manns en sex manna samkomutakmörk voru í gildi í Bretlandi þá. Þetta feilspor flaug hátt í bresku pressunni.

Aukaávarp og tæknivæðing

Elísabet Englandsdrottning ávarpaði þjóð sína fyrir páskana en var þetta í fyrsta skipti síðan 1940 sem hún ávarpaði þjóð sína í beinni útsendingu. Þar hvatti hún þjóð sína til dáða og sagðist vita að þau kæmust í gegn um þetta saman. 

Tæknivæðing drottningarinnar hefur farið mikinn á síðustu mánuðum. Í upphafi faraldursins frestaði hún öllum viðburðum og hélt frá Buckinghamhöll til Windsor þar sem þau Filippus voru í einangrun. Með tíð og tíma hefur þó tekist að tæknivæða hina 94 ára gömlu drottningu og bárust fregnir af því að hún væri farin að taka við myndsímtölum. 

Í haust hefur hún svo hitt fjöldann allan af fólki í gegnum skjáinn. Þá tekur starfsfólk hennar á móti gestum í Buckinghamhöll en drottningin situr við skjáinn í Windsor og spjallar.

Elísabet Englandsdrottning ávarpaði þjóð sína í beinni útsendingu í vor.
Elísabet Englandsdrottning ávarpaði þjóð sína í beinni útsendingu í vor. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Samræður við stjórnendur, foreldra og yfirboðara eru beinskeyttar og ákafar í dag. Alls kyns spennandi tækifæri til vaxtar eru fyrir hendi núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Ragnar Jónasson
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Moa Herngren
5
Jojo Moyes
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Samræður við stjórnendur, foreldra og yfirboðara eru beinskeyttar og ákafar í dag. Alls kyns spennandi tækifæri til vaxtar eru fyrir hendi núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Ragnar Jónasson
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Moa Herngren
5
Jojo Moyes