„Þetta er líka saga dýranna“

Sjón er listamannsnafn Sigurjóns Birgis Sigurðssonar.
Sjón er listamannsnafn Sigurjóns Birgis Sigurðssonar. mbl.is/Árni Sæberg

Sýningar hefjast á morgun á kvikmyndinni Dýrið eftir leikstjórann Valdimar Jóhannesson sem skrifaði handritið einnig með rithöfundinum Sjón, þ.e. Sigurjóni Birgi Sigurðssyni. Dýrið var frumsýnt á kvikmyndahátíðinni í Cannes í sumar og hlaut þar verðlaun sem frumlegasta kvikmyndin en hún var sýnd í keppnisflokknum Un certain regard. Þykir það mikill heiður að komast í þann flokk og ekki síst þegar um fyrstu kvikmynd leikstjóra er að ræða, líkt og í tilfelli Valdimars. 

Hilmir Snær, Valdimar Jóhannsson, Noomi Rapace og Björn Hlynur Haraldsson …
Hilmir Snær, Valdimar Jóhannsson, Noomi Rapace og Björn Hlynur Haraldsson í Cannes í sumar þar sem Dýrið var frumsýnt. AFP

Blaðamaður sló á Zoom-þráðinn til Sjóns í tilefni af frumsýningu Dýrsins hér á landi en hann dvelur þessa dagana við skriftir í Sviss. Eitt af því sem Sjón er með á skrifborðinu er handrit að kvikmynd sem byggt er á Hamlet og mun sænska leikkonan Noomi Rapace leika Hamlet. Verður kynjahlutverkunum sumsé snúið við í útgáfu Sjóns og íransk-sænski leikstjórinn Ali Abbasi verður við stjórnvölinn. „Ég er þessa dagana að ljúka fyrstu gerð af handritinu og skila því af mér núna á sunnudaginn,“ segir Sjón og á þar við nýliðinn sunnudag því viðtalið fór fram 15. september. „Þetta er spennandi verkefni og frábært að fá aftur tækifæri til að vinna aftur með Noomi,“ segir hann um Hamlet en Rapace fer með eitt af þremur aðalhlutverkum Dýrsins en hin eru í höndum Hilmis Snæs Guðnasonar og Björns Hlyns Haraldssonar. 

Óvættur á jólanótt

Blaðamaður sá Dýrið á dögunum og hreifst af kvikmyndinni. Hún er þess eðlis að lítið sem ekkert má segja um það sem gerist í henni, svo hinu óvænta verði ekki spillt fyrir bíógestum. Til að forðast slík spilliefni er Sjón beðinn um að segja frá myndinni. „Það má einfaldlega segja fólki að þetta sé mynd sem gerist í afskekktum dal á Íslandi þar sem hjón búa, sauðfjárbændur, og þeim óafvitandi heimsækir einhvers konar óvættur eða óvætt fjárhúsin á jólanótt, eins og gjarnan gerist í íslenskum þjóðsögum. Á jólanótt sleppa öll hin yfirnáttúrulegu öfl laus, á meðan maðurinn dregur sig í hlé og tignar sinn guð þá heimsækja öflin skepnurnar,“ segir Sjón. „Afleiðingin af þessari heimsókn er fæðing sérkennilegrar veru, þegar kindurnar fara að bera um vorið. Þessi vera er sending, þau upplifa hana sem sendingu sem fyllir upp í tómarúm í þeirra lífi. Ég held að það sé allt í lagi að segja fólki að þau eru barnlaus og það er ástæða fyrir því. Þau ákveða að taka þessa litlu veru að sér og ala hana upp sem barnið á heimilinu og að sjálfsögðu fylgir svona sendingu ýmislegt og við sem áhorfendur vitum það alveg frá upphafi að þarna er ekki allt sem sýnist.“ Rapace og Hilmir Snær leika hjónin, Mariu og Ingvar og Björn Hlynur bróður Ingvars, Pétur, sem birtist óvænt dag einn. 

Sjón segir að þessi vitneskja áhorfandans um heimsóknina á jólanótt leggist undir allt sem síðar gerist og hið hversdagslega líf hjónanna með sínum bústörfum. „Við vitum að þarna kraumar eitthvað undir og að í þessu hrikalega landslagi sem umkringir þau búa öfl sem mögulega eru að fylgjast með framgangi mála á bænum.“

Stilla úr Dýrinu, bændurnir Ingvar og María með veruna sem …
Stilla úr Dýrinu, bændurnir Ingvar og María með veruna sem þau taka að sér.

Manneskjan er ekki ein

„Við staðsetjum manneskjuna þannig í sögunni að hún er ekki ein,“ bendir Sjón á. „Fyrstu persónurnar sem við kynnumst í sögunni eru kindurnar og hrútarnir þannig að þau eru aldrei ein. Þau eru tvær persónur í þessari sögu og það, á vissan hátt, gefur okkur tilfinningu fyrir því að þau séu einmitt ekki hin alvalda manneskja á þessum stað.“

–Svo kemur ein manneskja þarna til viðbótar sem verður ákveðið hreyfiafl og nú þori ég varla að segja meira …

„Einmitt og þegar þau hafa gengist þessum nýja veruleika á hönd, sem fylgir því verkefni að taka að sér þetta afkvæmi, er sett spurningamerki við hvað er að gerast. Það er spurning hvað það stenst og hvaða úthald er í þeirri athugasemd sem gerð er við það sem er að eiga sér stað á bænum,“ svarar Sjón. 

Dýrið vakti blaðamann til umhugsunar um ýmislegt tengt manninum og náttúrunni, rétt manneskjunnar til að ganga á náttúruna og móðureðlið. Það borgar sig ekki að storka örlögunum, eins og allir vita, og einnig má finna vangaveltur um hamingjuna, svo fátt eitt sé nefnt. 

Sjón kinkar kolli yfir þessum hugleiðingum blaðamanns og er spurður að því hvort þeir Valdimar hafi haft einhverja eina merkingu eða boðskap í huga við handritsskrifin.

„Nei, við áttuðum okkur snemma á því að þetta væri saga sem myndi flytja með sér mjög margt og eins og með þjóðsöguna og dæmisöguna áttuðum við okkur á því að það yrði hægt að lesa allt mögulegt í þetta,“ svarar Sjón. „Þannig að við fórum í það verkefni að láta þetta ganga upp og þegar Valdi kom til mín, haustið 2010 held ég, og kynnti þessa hugmynd fyrir mér og spurði hvort ég vildi koma að þessu verkefni með honum sem handritshöfundur, þá sá ég strax að þetta væri gríðarlega mikil áskorun. Að skapa trúverðugan veruleika úr þessu efni og finna leið í frásögninni sem gerði það að verkum að áhorfandinn dregst inn í þetta og hættir að sjá þessar sérkennilegu aðstæður. Ég held að okkur hafi tekist það einfaldlega með því að kynna til sögunnar tvær manneskjur sem við höfum áhuga á að fylgjast með og vera með í þeirra lífi. Þannig að þegar þetta kemur inn í þeirra veruleika erum við orðin, á vissan hátt, tilfinningalega bundin þessum tveimur manneskjum sem þó virðast vera algerlega ófærar um að tjá tilfinningar sínar. Við lesum okkur inn í þau þannig að þegar þau fara að takast á við þetta erum við með þeim í þessu.“

Hér má sjá stutta stiklu fyrir Dýrið:

Í heimi málleysingjanna

–Mér fannst myndatakan mjög sérstök og áhrifarík, mikið um að dýr horfi í linsuna, stundum óttaslegin, jafnvel að vara okkur við … 

„Dýrin eru öll stödd í sömu sögu en við erum allan tímann að minna á að manneskjan er ekki ein þarna, þetta er líka saga dýranna. Það eru þarna dýr eins og kötturinn og hundurinn sem eru vitni að því sem er að gerast. Myndatakan í þessari mynd er stórkostleg, leikstjórnin er stórkostleg og leikararnir eru ótrúlegir. Það sem þau gera fyrir okkur með nærveru sinni og með því að skapa þessa innri frásögn, mér finnst það alveg makalaust. En af því við byrjum í heimi málleysingjanna, í heimi dýranna, þá byrjum við líka að lesa fólkið í þögn sinni og augnaráði og andardrætti,“ svarar Sjón. 

Hann segist þakklátur Valdimari fyrir að leita til hans eftir samstarfi við handritsskrifin og telur kvikmyndina vel heppnaða. „Ég verð að segja að þegar ég sá myndina fyrst klökknaði ég vegna þess að það sem okkur langaði til að tækist þegar við byrjuðum, fyrir 11 árum, var þarna á tjaldinu. Það tókst.“ 

Sjón segist fyrst hafa séð myndina með fámennum hópi þeirra sem komu að gerð hennar og síðar á frumsýningu í Cannes fyrir fullum sal af áhorfendum sem hafi verið mikil upplifun og ánægjuleg. „Þegar við sátum með áhorfendum í salnum vorum við minnt á það að þetta er engin venjuleg mynd,“ segir Sjón kíminn, „og margt sem við höfðum alveg gleymt að gæti til dæmis orðið fyndið vorum við sannarlega minnt á. Það var gaman að fylgjast með því hvað fólk var þakklátt þegar það fékk að hlæja, kíma eða kumra yfir einhverju. Það hefði auðvitað drepið myndina ef hún hefði verið bara alvarleg,“ segir Sjón og hlær við. Höfundar myndarinnar viðurkenni að hún sé skrítin. 

Með marga bolta á lofti

–Þú ert þekktur rithöfundur, virtur og verðlaunaður en hvernig gengur þér að halda jafnvægi í þessu öllu, nú ertu farinn að gera æ meira af því að skrifa kvikmyndahandrit?

„Ég náttúrlega hef alveg jafnt og þétt í gegnum allan minn feril sem höfundur bóka, hvort sem það eru ljóðabækur eða skáldsögur, unnið samhliða í samstarfsverkefnum. Ég hef samið óperusöngtexta, söngtexta fyrir tónlistarmenn, starfað aðeins í leikhúsi og svona þannig að þetta hefur alltaf verið með þannig og mikið í mínum grunni sem skapandi maður að vinna með fólki og læra eitthvað af því. Þannig að þegar þessi tækifæri fóru að gefast núna til að vinna í kvikmyndum þá tók ég því fagnandi enda líka í grunninn kvikmyndaaðdáandi,“ svarar Sjón en hann hefur ásamt þeim Sigurjóni Kjartanssyni og Hugleiki Dagssyni valið kvikmyndir til sýninga á Svörtum sunnudögum í Bíó Paradís í níu ár. Og þeir eru enn að. 

Sjón segir bíóferðir hafa verið stóran hluta af hans menningarlega uppeldi á unglingsárum og sjá hvers konar kvikmyndir. „Ég varð mjög snemma opinn fyrir því að fara á það sem hægt er að kalla listrænar eða erfiðar kvikmyndir en á sama tíma er auðvitað mikið blómaskeið í kvikmyndalistinni þegar ég er unglingur, ég er fæddur ’62 þannig að svona ’75 fór ég að fara á allt mögulegt, smygla mér inn á myndir bannaðar innan 16,“ segir Sjón. „Síðan fór ég að sækja sýningar hjá Fjalakettinum þegar ég byrjaði í fjölbraut þannig að bíómyndir hafa alltaf verið með mér sem einn af stóru áhrifavöldunum og stóru ástunum í mínu menningarlífi.“

Sjón segir því tækifærið sem hann hafi fengið nú, að vinna í þessu listformi með frábærum leikstjórum á borð við Valdimar, Abbasi og Robert Eggers, mikla veislu fyrir hann. Eggers skrifaði handrit með sjón að kvikmyndinni The Northman sem skartar heimskunnum leikurum á borð við Alexander Skarsgård, Nicole Kidman, Willem Dafoe, Ethan Hawke og Claes Bang og í henni leika einnig Björk Guðmundsdóttir, Ingvar E. Sigurðsson og heljarmennið Hafþór Júlíus Björnsson. Sú mynd verður frumsýnd á næsta ári. 

Litið er vitað um The Northman en í henni leika …
Litið er vitað um The Northman en í henni leika margar kvikmyndastjörnur, m.a. Nicole Kidman sem hér sést. AFP

Vinnuferlið svipað þó fjármagnið sé það ekki

Sjón segir handritsferlið alltaf svipað, hvort heldur unnið er að Hollywood-mynd eins og The Northman eða ódýrri, íslenskri kvikmynd á borð við Dýrið. Hið skapandi ferli sé á endanum hið sama og samvinnan svipaðs eðlis. „Maður er alltaf bara augliti til auglitis við samstarfsfélagann í því að skapa heiminn og söguna og persónurnar,“ segir Sjón. „Það sem skiptir máli er að ná sögunni réttri og vera í augnhæð við samstarfsaðilann,“ bætir hann við. 

–Þú getur leyft þér hvað sem er í skáldsögu en þarna ertu alltaf bundinn því hvað er hægt að gera. 

„Já, já. Í skáldsögu getur maður alltaf látið himnana opnast og látið herskarana koma siglandi úr skýjunum, hvort sem það eru guðlegar verur eða geimverur,“ svarar Sjón kíminn. Hann segir að í tilfelli Dýrsins hafi þeir Valdimar vitað að snúið yrði að vinna gervin, hanna veruna og láta það allt saman virka. Þeir hafi líka verið meðvitaðir um að fjármagn væri af skornum skammti og því legið yfir gömlum kvikmyndum þar sem nærvera einhvers konar furðuveru eða skrímslis var sköpuð með öðrum brögðum, t.d. hljóðmynd eða skuggum. „The Thing, upphaflega myndin, er algjör kennslubók í því hvernig maður gerir þetta og við reyndum að halda það út eins og við gátum en fyrir okkar sögu varð veran að sjást og það tókst,“ segir Sjón. 

Hvað The Northman varðar hefur mikil leynd hvílt yfir efni hennar og takmarkaðar upplýsingar veittar. Sjón brosir þegar hann segir blaðamanni að hann megi mjög lítið segja um myndina. „Fólk veit í rauninni ekkert nema það litla sem dreifingaraðilinn sendi frá sér fyrir nokkrum mánuðum. Þetta er mynd um norrænan prins sem leitar hefnda fyrir föður sinn og sést ekki fyrir í þeim leiðangri.“

Furða samofin veruleika

Sjón er spurður að því hvort hann sjái tengingar milli skáldsagna sinna og kvikmyndahandrita og segist hann þá vita af hverju hann hafi verið beðinn um að skrifa handrit yfirleitt. „Það eru ákveðnir þættir í skáldsögunum sem kvikmyndaleikstjórarnir telja að ég geti komið með inn í söguna og inn í heimssmíðarnar,“ svarar Sjón og að honum hafi tekist ágætlega, í mörgu af því sem hann hafi skrifað, að gera einhvers konar furðu algjörlega samofna veruleika sögunnar eða persónunnar. „Ég held að Robert hafi til dæmis talað við mig af því hann las Rökkurbýsnir fyrir mörgum árum og það er ákveðið sjónarhorn á tilveruna þar sem honum fannst spennandi að vinna með í The Northman. Það er að heimur goðsögunnar, heimur þess sem við teljum yfirnáttúruleg fyrirbæri eða ímynduð fyrirbæri, er veruleiki fólksins sem lifir á tilteknum tíma.“ 

–Þessir leikstjórar finna kannski líka fyrir því að þú áttir þig á tíðarandanum sem þú ert að skrifa söguna inn í …

„Já, svo er ég náttúrlega líka vanur að vinna með períódur og það er eitt verkefni sem var að fá styrk úr Kvikmyndasjóðnum heima- ég held að það hafi verið tilkynnt fyrir þrem eða fjórum dögum - sem ég er að vinna með Vesturporti. Það er handrit sem nefnist Klara miðill og gerist á stríðsárunum í Reykjavík,“ svarar Sjón. Í Klöru miðli segi af ástandinu í Reykjavík eftir að Bretar hernámu landið og Reykjavík. Klara miðill er frægasti miðill Reykjavíkur og setja sumir spurningamerki við hversu trúverðug hún er, segir Sjón. 

Sjón tók við Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs í Borgarleikhúsinu árið 2005 en …
Sjón tók við Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs í Borgarleikhúsinu árið 2005 en þau hlaut hann fyrir skáldsöguna Skugga-Baldur. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Þrjár bækur í einu

–Að lokum, ertu líka að skrifa bók, ofan á þetta allt saman?

„Já, ég er svo heppinn að ég er yfirleitt að skrifa þrjár skáldsögur í einu,“ segir Sjón og hlær við. Oftast sé hann með þrjú verkefni í vinnslu og að mjaka þeim áfram, prófa sig áfram með frásagnaraðferð og stíl. „Yfirleitt eru þetta líka sögur sem krefjast mikillar heimildavinnu og rannsóknar og svo gerist það nú yfirleitt að það er eitthvert eitt púsl sem fellur á réttan stað og þá veit ég að það verður næsta bók.“

–Ertu þá með stóra korktöflu með miðum þar sem fram kemur hvað er búið að gerast í hverri bók?

„Ég er með stóra korktöflu í höfðinu á mér,“ svarar Sjón að bragði og hlær við. mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er mikil neikvæðni í loftinu í dag og líklegt að hún hafi áhrif á þig eins og aðra. Láttu það ekki buga þig þótt verkefni þitt sé erfiðara en þú bjóst við.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er mikil neikvæðni í loftinu í dag og líklegt að hún hafi áhrif á þig eins og aðra. Láttu það ekki buga þig þótt verkefni þitt sé erfiðara en þú bjóst við.