Merkingin liggur hjá lesandanum

„Ég hagaði mér þannig eins og nýríkt fífl sem flytur …
„Ég hagaði mér þannig eins og nýríkt fífl sem flytur inn í hús í Þingholtunum og byrjar á því að rífa allar innréttingar út, en húsið er þarna ennþá,“ segir Guðni Elísson um skrif skáldsögunnar Ljósgildrunnar, en með húsinu vísar hann til strúktúrs bókarinnar sem byggir á bók sem hann vann á árunum 2003 til 2006 sem fjalla átti um íslenska bankahrunið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mig langaði að fara aðra leið að því að minna á póstmódernísku hugmyndina um textaleika skáldverksins með því að láta textana sem persónurnar í Ljósgildrunni lesa lita vitund þeirra og ég leik mér með margvísleg textatengsl. Lesandinn þarf samt alls ekki að þekkja allar þessar vísanir til að skilja eða njóta bókarinnar, enda reyndi ég að skrifa hana þannig að hún væri skemmtileg aflestrar,“ segir Guðni Elísson um skáldsöguna Ljósgildruna sem hann hefur sent frá sér og í gær var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fagurbókmennta.

Blaðamaður getur hiklaust tekið undir með Guðna um skemmtanagildið, því þó bókin sé mikil að umfangi er hún alls ekki þung aflestrar. Ljósgildran telur 232 þúsund orð sem fylla sléttar 800 blaðsíður. Hún inniheldur margar ólíkar tegundir texta, m.a. prósa, ljóð og skáldsagnabrot, auk þess sem hún rúmar fjölda textavísana í heimsbókmenntirnar. Má í því samhengi nefna höfunda og verk á borð við Njálu, Laxness, Shakespeare, Biblíuna, Dante, Ovid, Tolstoj, Jane Austen, James Joyce og Tsjernísjevskí.

Vísanirnar birtast ýmist sem beinar textatilvitnanir eða skírskotun til atburða, persóna og aðstæðna úr bókmenntunum. Á sama hátt vinnur Guðni með ólíkar bókmenntagreinar á borð við hrollvekjuna, epíska söguljóðið, fantasíuna og satíruna, sem býður eðli málsins samkvæmt upp á margvíslegar túlkanir. Í þessu margradda verki fléttast saman tveir heimar þar sem segir frá „harmrænum ástum hjónanna Jakobs og Láru um leið og íslensku stjórnmála- og menningarlífi er lýst á gráglettinn og afhjúpandi hátt,“ eins og segir í kynningartexta Lesstofunnar sem gefur bókina út.

Ætlaði að skrifa bók um íslenska bankahrunið

Er það rétt skilið að bókin eigi sér um 20 ára aðdraganda?
„Fyrsta myndin sem varð til í höfðinu á mér sem tengist þessari bók varð til á haustmánuðum 2000. Þá sá ég mann koma inn um hóteldyr á Þingvöllum þakinn snjó og ég vissi að þetta var aðkomumaður sem hafði í hyggju að kaupa þetta hótel,“ segir Guðni og rifjar upp að á þessum tíma hafi nýfrjálshyggjan verið í mikilli uppsveiflu um allan heim. „Ég fór að hugsa um spennuna milli hins þjóðlega og alþjóðlega. Hvernig erlendir markaðir eru hægt og rólega að taka yfir og slá eign sinni á jafnvel hluti sem aldrei höfðu verið til sölu áður. Nokkrum vikum seinna kom upp mynd sem ég sótti í Flateyjarbók og gerist á kamrinum í byggingu sem tengd er valdi í huga þjóðarinnar. Ég sá þessar tvær myndir og hugsaði: Þarna er eitthvað sem mig langar að flétta saman,“ segir Guðni og rifjar upp að á árunum 2003 til 2006 hafi hann unnið að bók sem átti að fjalla um íslenska bankahrunið.

Hagaði mér eins og nýríkt fífl

„Mér fannst svo skrýtið að allir væru að tala upp bankastarfsemi á Íslandi. Það ríkti blind vissa þegar rætt var um þekkingu Íslendinga í bankamálum. Ef maður hefði átt að trúa þeirri frásögn hefði maður nánast þurft að leita yfirnáttúrulegra skýringa á þessari sérgáfu,“ segir Guðni og rifjar upp að hann hafi vegna anna lagt skrifin til hliðar vorið 2006 og þurft að horfast í augu við það eftir hrunið að skáldsagan væri ónýt. „Fyrir hvatningu frá eiginkonu minni [Öldu Björk Valdimarsdóttur] tók ég aftur upp þráðinn í ársbyrjun 2016. Fljótlega fleygði ég þeim 200 til 300 síðum sem ég var búinn að skrifa,“ segir Guðni og bendir á að aðeins tvö brot úr upphaflegu bókinni hafi ratað inn í Ljósgildruna.


„Strúktúrinn var samt til staðar sem og persónugalleríið í þeim skilningi að ég sameinaði persónur og breytti hlutverkum þeirra. Ég hagaði mér þannig eins og nýríkt fífl sem flytur inn í hús í Þingholtunum og byrjar á því að rífa allar innréttingar út, en húsið er þarna ennþá. En þó ég hafi teiknað strúktúrinn nokkuð nákvæmlega upp áður en ég byrjaði að skrifa, lét ég það þó aldrei trufla mig,“ segir Guðni og nefnir sem dæmi senuna af dauða Láru. „Sú sena hafði verið skýr í höfðina á mér í 14 ár, en þegar ég loksins skrifaði hana varð útkoman allt öðruvísi,“ segir Guðni og tekur fram að þó bókin sé 800 blaðsíður hafi hann, út af strúktúrnum, þurft að passa allan vaðal.

Myndmálið eins og meinvarp

„Það sem virðast vera útúrdúrar í sögunni eru það aldrei, heldur eru þetta leiðir til að spyrja spurninga og draga fram ákveðin viðfangsefni. Þannig er myndmálið í sögunni nánast eins og meinvarp. Lesendur geta fundið hjarta eða uppsprettu ákveðinnar myndar í sögunni, en sjá hana síðan endurspeglast á 20 til 30 stöðum í bókinni,“ segir Guðni og bendir á að skynjun lesenda á myndunum breytist sökum þessa í öðrum lestri. „Ég segi stundum að ég noti smjörklípuaðferð til að skrifa söguna. Með því á ég við að ég er stöðugt að benda lesandanum á tiltekna hluti í textanum á meðan ég læði aðalatriðinu í gegn framhjá. Lesandi í annarri umferð tekur frekar eftir þessu, því hann veit hverju hann á von á. Það eru lúpur í frásögninni þar sem ég bind saman viðfangsefnin. Bókin gengur þannig í endalausa hringi og speglast eftir ýmsum leiðum, jafnt í beinum lýsingum, persónugalleríinu og sjálfum strúktúrnum.“

„Það sem reyndist mér erfiðast í skrifunum var veðrið, því ég asnaðist til að hafa það umhleypingasamt,“ segir Guðni kíminn og tekur fram að veðrið hafi engu að síður táknræna merkingu í bókinni. Bendir hann á að sökum þess að framvindan hoppi töluvert fram og til baka í tíma hafi farið mikil vinna í að samræma veðurfarið milli kafla til að framvindan væri rétt. „Ég þurfi því alltaf að vita á hvaða degi hlutirnir í sögunni voru að gerast og á hvaða klukkutíma.“

„Ég get þó sagt að hugmyndin um ljósið er í …
„Ég get þó sagt að hugmyndin um ljósið er í einhverjum skilningi orðsins tengd því hvernig tilgangsríkustu hlutir geta afvegaleitt okkur,“ segir Guðni Elísson þegar hann er spurður um notkun sína á ljósi og myrkri í skáldsögu sinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vonin er móðir heimskunnar

Þú vinnur mikið með ljós og skugga í bókinni, en snýrð engu að síður upp á hefðbundnar viðtökur. Hvað getur þú sagt mér um það?
„Ég sný hlutunum á haus. Samkvæmt hefðinni er ljósið uppspretta lífsins. Ljósvæðing heimsins tengist framfaratrúnni og trúnni á það að við getum alltaf haldið settu striki. Í Ljósgildrunni er birtan flóknari og getur stundum verið óþægileg, hættuleg og jafnvel falið í sér dauða,“ segir Guðni og bendir á að bókin sjálf svari því á um 15 mismunandi vegu hvað ljósgildran sé þótt túlkunarmöguleikarnir séu fleiri. „Þeir kaflar bókarinnar þar sem birtan er mest eiga það allir sameiginlegt að snúast um þrána eftir því að stöðva tímann og þrána um að hefja sig yfir forgengileikann, sem er bundinn inn í þjóðsönginn okkar þar sem hver dagur er þúsund ár,“ segir Guðni og bendir á að þrír lykilkaflar bókarinnar um ljósið séu nákvæmlega 1.000 orð.

„Í þeim skilningi er esoterísk talnafræði í sögunni, bæði þar og víða annars staðar,“ segir Guðni og tekur fram að hann vilji í raun ekki svara spurningunni um ljósið og ljósgildruna of skýrt í viðtalinu. „Ég get þó sagt að hugmyndin um ljósið er í einhverjum skilningi orðsins tengd því hvernig tilgangsríkustu hlutir geta afvegaleitt okkur,“ segir Guðni og vísar þar til pólska orðatiltækisins: Vonin er móðir heimskunnar.

Kynjastríðið er líka kynslóðastríð

Einhver gæti spurt hvar gæskan sé í bók þinni?
„Bókin er full af gæsku, hlýju og mannleika en söguvitundin staldrar aldrei við það vegna þess að vitund sögupersónanna er svo sködduð eða brotin, að hún staldrar ekki við hið góða. Jakob er t.d. svo uppfullur af eigin sorg að hann tekur ekki eftir því að föt dóttur hans koma hrein heim af leikskólanum. Þarna er hópur af fólki sem veit hvað er í gangi og passar upp á Lilju, dóttur hans, þegjandi og hljóðalaust. Svo mætti nefna konuna í næsta húsi við hann og Láru, eða bara forleggjarann hans sem sýnir honum mikla hlýju. Aðrar persónur reyna að standa í hárinu á skáldinu H.M.S. Hermanni þegar hann spýr sínu eitri. Svona mætti lengi telja.“

Það vekur athygli í bókinni hversu áberandi karlpersónur verksins eru á kostnað kvennanna sem hafa lægri rödd í samanburðinum. Hver var hugsun þín sem höfundur þegar kemur að birtingarmynd kynjanna?
„Kynjastríðið sem í sögunni birtist er líka kynslóðastríð í þeim skilningi að kraftmiklu konurnar sem sjást í sögunni eru venjulega einni kynslóð yngri en karlarnir. Það er því ný kynslóð að koma inn,“ segir Guðni sem í bókinni veltir fyrir sér kynslóðaníðingaspurningunni en athygli vekur að heilt yfir sinnir eldri kynslóðin ekki börnum sínum.

„Spurningin um það á hvaða hátt við erum að sinna afkomendum okkar nær síðan út fyrir fjölskyldusamhengið og verður bæði samfélagsleg og pólitísk,“ segir Guðni og viðurkennir að hann leyfi sér að predika þegar kemur að neyslukrítík. „Ég geri það þó írónískt til að draga úr. Þegar ég fjalla um mjög heilagar kýr, ef ég get notað slíkt orðalag um loftslagsmálum og femínisma, þá reyni ég að birta það gegnum þá karla sem óttast þessi viðfangsefni mest.“

Engin vill vera Evridís

Kapítóla forsetafrú og Lára, eiginkona Jakobs, eru þær tvær konur af eldri kynslóðinni sem fá mest vægi í bókinni. „Lesandinn ætti að spyrja sig á hvaða hátt þær tvær eru ímyndir og upphafnar konur í huga forsetans og Jakobs. Hættan við upphafnar konur er að þær eru ekki raunverulegar heldur verða formbundnar og óhreyfanlegar táknmyndir fyrir þrá. Lára deyr áður en hún fær rödd,“ segir Guðni og bendir á að hann lýsi Láru með augum Jakobs.
„En ég varð að gera það þannig að það birtist misræmi þannig að lesandinn fari að velta fyrir sér af hverju hún dragi sig í hlé, af hverju hún hverfi inn í eigin heim og af hverju þau hjónin tala svona lítið saman,“ segir Guðni og bendir á að hann sé með þessu að reyna að bakka út úr hinni sjúku þrá.

„Jakob heimtar huggun af konunni sem er að fara að missa allt. Þannig þarf hún að axla byrðina á dauða sínum áður en að því kemur í reynd. Hann er ekki til staðar og það sést í eftirleiknum,“ segir Guðni og tekur fram að það hafi verið honum áskorun að gefa þrívíða mynd af Láru gegnum augu mannsins hennar sem sér allt út frá sinni tvívíðu þörf. „Jakob er alltaf að yfirfæra ótta sinn yfir á Láru,“ segir Guðni og tekur fram að honum hafi þótt áhugavert að skoða hvernig karlar lýsa konum. „Skáldin drepa með orðum og tungumálið er stundum þöggunartæki,“ segir Guðni og vísar í því samhengi í Nóbelsverðlaunaskáldið Louise Glück sem bent hefur á að allir vilji vera Orfeifur en enginn vilji vera Evridís en goðsagan um þau er miðlæg í skáldverkinu.

„Ástæða þess að mér finnst gaman að nota íróníuna er …
„Ástæða þess að mér finnst gaman að nota íróníuna er að í raun liggur merkingin hjá lesandanum. Einfaldasta skýringin á íróníu er að þú segir eitt en meinar annað. Í óræða bilinu á milli merkingarinnar og textans sjálfs þarf túlkun lesandans að fara fram,“ segir Guðni Elísson höfundur Ljósgildrunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hetjan stígur niður til heljar

Ljósgildran er mikil raunsæissaga, en á sama tíma notar þú fantasíuna með markvissum hætti. Hvers vegna?
„Þetta er góð spurning. Hið fantasíska gerir manni kleift að raunveruleikavæða hið táknræna. Þannig getur þú persónugert ákveðnar tilfinningar og kenndir,“ segir Guðni og bendir á að við séum enn vön þessu frásagnarformi í afþreyingarmenningunni. „Þetta er til dæmis mjög algengt í Disney-teiknimyndum. Þar eru tilfinningar iðulega allegóríseraðar, samanber það hvernig reiði verður rauður lítill karl. Í leiðinni er þetta leið hjá mér til að segja ákveðna sögu markvissar, dýpka ákveðin minni og þematískar tengingar sem væri alveg hægt að lýsa út frá raunsæisforsendum, en það yrði allt öðruvísi meðhöndlað. Stundum tengi ég svo fantasíuna leiðslunni eins og hún birtist í leiðslubókmenntum,“ segir Guðni og víkur í því samhengi að því hvernig skoða megi lokahluta Valhallar-veislukaflans.

„Þú getur túlkað hann á mörgum plönum. Þú getur séð hann sem bókstaflegan. Þú getur líka séð hann sem speglum vitundar H.M.S. Hermanns sem er eins og rotþró. Þetta gæti líka verið umræðusviðið, enda er búið að undirbyggja þessa senu lengi á undan. Loks er hægt að lesa senuna sem táknræna frásögn, en eins og allar hetjur fornaldar stígur hetjan niður til heljar. Þannig stígur H.M.S. Hermann á táknrænan hátt niður í gjána á Þingvöllum, en hann stígur líka niður í pyttinn í Valhöll til að sækja ákveðin verðmæti. Þarna er meinvarp sem splundrast í allar áttir og hefur frásagnarlegt gildi sem aðferð til að fá lesandann til að stoppa og fá hann til að velta fyrir sér hvað sé raunverulega í gangi.“ 

Afstaðan til persóna breytist í lestrinum

Þú notar íróníu markvisst sem frásagnaraðferð. Hvers vegna?
„Ein leið til að skoða bókina er að skoða hana sem rómans í gamla klassíska skilningi orðsins og sem menippíska satíru. Þannig má segja að þetta séu tvær skáldsögur sem fléttast saman eins og ying og yang. Strúktúr sögunnar er mótaður af þessari frásagnarbyggingu. Í einhverjum skilningi ryðst menippíska satíran, þ.e. írónían, inn í heim sakleysisins, sem er samt próblematískt sakleysi því þar ræður annar karl ríkjum. Írónían í sögu Láru og Jakobs er því flóknari en í menippísku samfélagssatírunni.

Ástæða þess að mér finnst gaman að nota íróníuna er að í raun liggur merkingin hjá lesandanum. Einfaldasta skýringin á íróníu er að þú segir eitt en meinar annað. Í óræða bilinu á milli merkingarinnar og textans sjálfs þarf túlkun lesandans að fara fram. Lesandinn þarf að spyrja sig hvort sagan standi með tilteknum persónum, hver sé afstaða lesandans gagnvart persónum og til söguvitundarinnar. Þetta verður miklu erfiðara þegar söguvitundin er fljótandi eins og reyndin er í Ljósgildrunni. Lesandinn þarf sífellt að vera að endurstilla sig þegar hoppað er á milli huga. Afstaðan til persónanna á líka að breytast eftir því sem lesandinn fær fleiri upplýsingar.“

Sögur sem stýringartæki

Í ákveðnum skilningi má segja að undir lok bókar þinnar ruglir þú í lesandanum með þeim afleiðingum að maður þarf að endurmeta fyrri lestur og langar helst að byrja strax aftur á bókinni til að fá dýpri skilning. Meðal þess sem lesandinn þarf að skoða er hvað sé raunverulegt og hvað skáldskapur. Eða hvað?
„Spurningin um tengsl skáldskapar og veruleika er eitt af grunnverkefnum sögunnar og er eitt af þeim viðfangsefnum sem ég vinn með í bókinni. Í einhverjum skilningi orðsins fjallar Ljósgildran í grunninn um frásagnir. Hvernig við í raun færum allt í einhvers konar tilgangsríkar formgerðir, líka frásagnir af dauða. Myndirnar sem við notum eru mótaðar af þessu,“ segir Guðni og bendir á að allar sögurnar sem sagðar eru í bókinni hafi markmið.

„Allar sögurnar í Ljósgildrunni eru stýringartæki, leiðir til að hafa áhrif og leiðir að sveigja lesandann að vilja sínum – og á það jafnt við um sögurnar sem söguhöfundurinn segir lesandanum og þær sögur sem persónurnar segja sjálfar,“ segir Guðni og bendir á að þeir lesendur sem lesi bókina aftur láti eðli málsins samkvæmt ekki sveigja sig jafn auðveldlega.

„Við endurtekinn lestur fer lesandinn að sjá smjörklípurnar betur auk þess sem afstaðan til persónanna breytist,“ segir Guðni og bendir á að margar frásagnir í bókinni þjóni því hlutverki að binda fólk sama, að tengja mennskjur og samfélagshópa „En sumar sögur eru líka þess eðlis að þær einangra eða splundra tengslum,“ segir Guðni og bendir sem dæmi á að Jakob noti sögur til að réttlæta vanrækslu sína gagnvart sínum nánustu.

Var verðlaunaljóðinu stolið?

„Melódrama er mikilvægt element í sögunni og ég skoða hvernig melódrama getur hamlað mannlegum samskiptum. Þannig verður harmur forsætisráðherrans vegna fráfalls móður sinnar melódramatískur, þó hann sé líka raunverulegur. En þessi bakgrunnur skýrir líka hvers vegna forsætisráðherrann handvelur Jakob sem verðlaunahafa nýju bókmenntaverðlaunanna sem kynnt eru til sögunnar í bókinni. Valið á sér sálfræðilegar ástæður þar sem Jakob er að syrgja móður og forsætisráðherrann missti mömmu.

Valið hefur því ekkert endilega neitt með gæði verðlaunaljóðsins að gera,“ segir Guðni og tekur fram að það sem honum finnist mest spennandi við að vinna með textabrot í bók sinni sé að ekkert þeirra standi eitt og sér. „Það er enginn texti sem stendur óháður einhverju öðru. Það er alltaf merkingarleg athöfn í öllum textum þar sem þeir hafa allir tilgang. Tilgangurinn liggur ekki bara í því sem segir í textanum heldur í áhrifunum,“ segir Guðni og nefnir barnasöguna um Sissu sippustelpu.

„Les Jakob söguna fyrir dóttur sína eða ekki? Hægt og rólega verður lesandinn óviss um það hvort þessi saga hafi raunverulega verið til eða ekki eða hvort hún sé hluti af einhverri sturlun Jakobs,“ segir Guðni og tekur fram að hann hafi með sjálfum sér svarað öllum þeim spurningum sem bókin veltir upp án þess að þeim sé öllum svarað í verkinu. „Ég hef t.d. svarað því fyrir sjálfum mér hvort Jakob hafi í reynd stolið verðlaunaljóðinu af konu sinni heitinni.“


Hefur þú með Ljósgildrunni sagt skilið við allar persónur verksins?
„Nei, H.M.S. Hermann á sennilega eftir að snúa aftur í annarri bók síðar, þó ekki þeirri næstu sem ég skrifa, því hún verður ástarsaga og fyllri af hlýju og manngæsku en þessi fjandi og algjörlega laus við íróníu,“ segir Guðni.


Styttri útgáfa viðtalsins birtist fyrst í sérstöku bókablaði Morgunblaðsins sem út kom föstudaginn 3. desember.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson