Neil Young vill af Spotify vegna Rogans

Tónlistarmaðurinn Neil Young og Joe Rogan.
Tónlistarmaðurinn Neil Young og Joe Rogan. AFP

Tónlistarmaðurinn Neil Young hefur farið fram á það við streymisveituna Spotify að tónlist hans verði fjarlægð af veitunni. Ástæðan eru misvísandi upplýsingar um bóluefni sem hlaðvarpsstjórnandinn Joe Rogan hefur sett fram í hlaðvarpsþætti sínum á Spotify. 

„Þeir geta haft Rogan eða Young. Ekki bæði,“ skrifaði Young í bréfi sínu til fyrirtækisins sem gefur út plötur hans. 

Rogan hefur verið gagnrýndur fyrir að sett fram misvísandi upplýsingar um bólusetningar í þáttunum sínum og sett fram staðreyndir um bóluefni sem hafa nú þegar verið hraknar. Þá hefur hann einnig lofsamað ormalyfið Ivermectin, sem helst er gefið hestum. 

Spotify, sem keypti réttinn að hlaðvarpi Rogans fyrir 100 milljónir bandaríkjadala árið 2020, hefur ekki brugðist við kröfu Young. 

Young birti bréfið opinberlega á vefsíðu sinni, en það var seinna tekið út. „Ég vil að þið látið Spotify vita strax Í DAG að það eina sem ég vill er að tónlistin mín fari út af þeirra veitu,“ skrifaði tónlistamaðurinn. 

„Ég er að gera þetta því Spotify er að dreifa staðreyndavillum og röngum upplýsingum um bóluefni, og geta mögulega stofnað lífi fólks í hættu sem trúir þessum röngu upplýsingum. Vinsamlegast grípið til aðgerða strax í dag og látið mig vita hvernig verður tekið á þessu,“ skrifaði Young. 

Hann sagði að um 11 milljónir hlustuðu á hvern þátt Rogans og að Spotify beri skylda til að axla ábyrgð á dreifingu rangra upplýsinga á veitu þeirra. 

Young er ekki sá fyrsti til að vekja athygli og hafa áhyggjur af þeim upplýsingum sem Rogan setur fram í hlaðvarpi sínu. Í desember skrifuðu 270 læknar, vísindamenn og heilbrigðisstarfsmenn undir opið bréf til Spotify þar sem farið var fram á að fyrirtækið axlaði ábyrgð. 

Spotify hefur í gegnum árin tekið út efni sem þykir hættulegt eða dreifa hættulegum boðskap. Þá tók streymisveitan ekki inn nokkra þætti sem Rogan hafði gert áður en samningurinn var í höfn. Þar á meðal voru viðtöl við öfgahægri menn. Þá hefur streymisveitan einnig tekið út tónlist með hljómsveitum sem tengjast nýnasistum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Láttu þér ekki til hugar koma að grasið sé grænna handan hornsins. Fylgdu sannfæringu þinni fyrst og fremst og allt fellur í ljúfa löð.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Láttu þér ekki til hugar koma að grasið sé grænna handan hornsins. Fylgdu sannfæringu þinni fyrst og fremst og allt fellur í ljúfa löð.