Mál íslensks spilafíkils fyrir MDE

Mál íslensks spilafíkils fyrir MDE

Mál Guðlaugs Jakobs Karlssonar, sem árið 2017 tapaði máli á hendur Happdrætti Háskóla Íslands, Íslandsspilum og innanríkisráðherra þar sem hann krafðist skaða- og miskabóta vegna spilafíknar sinnar, hefur nú fengið málsnúmer hjá Mannréttindadómstól Evrópu, MDE. Kæra Guðlaugs byggir á því að íslenska ríkið brjóti lög með því að leyfa rekstur spilakassa, en þeir hafi leitt hann til spilafíknar sem hefur valdið honum fjárhagslegu og andlegu tjóni.

Mál íslensks spilafíkils fyrir MDE

Rafrænt morfín eða saklaus spilamennska? | 24. nóvember 2019

Þeir koma fyrir sem saklausir og litríkir „söfnunarkassar“ eða „peningahappdrættisvélar“ …
Þeir koma fyrir sem saklausir og litríkir „söfnunarkassar“ eða „peningahappdrættisvélar“ segir í greinargerð með stefnu Guðlaugs. Árni Sæberg

Mál Guðlaugs Jakobs Karlssonar, sem árið 2017 tapaði máli á hendur Happdrætti Háskóla Íslands, Íslandsspilum og innanríkisráðherra þar sem hann krafðist skaða- og miskabóta vegna spilafíknar sinnar, hefur nú fengið málsnúmer hjá Mannréttindadómstól Evrópu, MDE. Kæra Guðlaugs byggir á því að íslenska ríkið brjóti lög með því að leyfa rekstur spilakassa, en þeir hafi leitt hann til spilafíknar sem hefur valdið honum fjárhagslegu og andlegu tjóni.

Mál Guðlaugs Jakobs Karlssonar, sem árið 2017 tapaði máli á hendur Happdrætti Háskóla Íslands, Íslandsspilum og innanríkisráðherra þar sem hann krafðist skaða- og miskabóta vegna spilafíknar sinnar, hefur nú fengið málsnúmer hjá Mannréttindadómstól Evrópu, MDE. Kæra Guðlaugs byggir á því að íslenska ríkið brjóti lög með því að leyfa rekstur spilakassa, en þeir hafi leitt hann til spilafíknar sem hefur valdið honum fjárhagslegu og andlegu tjóni.

Guðlaugur krefst 76.800.000 króna frá íslenska ríkinu í skaða- og miskabætur, auk málskostnaðar.

Þórður Sveinsson, lögmaður Guðlaugs, tjáir sig um málið fyrir hönd skjólstæðings síns. Hann segir að málið sé komið á dagskrá Mannréttindadómstólsins, en óvíst sé hvenær það verði tekið fyrir. Hann segir málið líklega einstakt á þessu dómstigi. „Mér skilst að einhver mál af þessu tagi hafi komið fyrir dómstóla á hinum Norðurlöndunum, en ég get ekki fullyrt um hvernig þau fóru,“ segir Þórður.

Varð spilafíkninni að bráð

Þórður H. Sveinsson er lögmaður Guðlaugs Jakobs Karlssonar.
Þórður H. Sveinsson er lögmaður Guðlaugs Jakobs Karlssonar.

Forsendur málsins eru að Guðlaugur telur leyfisveitingar til handa HHÍ og Íslandsspilum, sem eiga og reka spilakassa, vera í andstöðu við 183. grein almennra hegningarlaga um bann við fjárhættuspili. Hann hafi orðið spilafíkn að bráð snemma á lífsleiðinni vegna þess sem í skjölum málsins er kallað „ólögmæt opinber leyfi og innleiðing á spilakassastarfsemi hér á landi í þágu tiltekinna aðila á kostnað hans“. 

„Kærandi telur að brotið hafi verið á sér af hálfu íslenska ríkisins með útgáfu leyfa til starfrækslu og rekstri [sic] spilakassanna og lagasetningum þeirra vegna sem hafi leitt hann til spilafíknar og valdið honum miklu fjárhagslegu og andlegu tjóni. Því eigi hann skilyrðislausa bótakröfu á hendur íslenska ríkinu. Það sé beint orsakasamband milli þess að stunda fjárhættuspil, eins og rekstraraðilar spilakassa gera með því að bjóða fólki að eiga skipti við kassana, og þess mikla andlega og fjárhagslega tjóns sem kærandi hafi beðið,“ segir í greinargerð með stefnu Guðlaugs.

Koma fyrir sem saklausir og litríkir

Þar segir að spilakassarnir hafi svipt Guðlaug frelsinu. „Þeir koma fyrir sem saklausir og litríkir „söfnunarkassar“ eða „peningahappdrættisvélar“ líkt og Íslandsspil, HHÍ og íslenska ríkið af einlægu sakleysi kölluðu þessar miskunnarlausu vélar á Alþingi. Spilunin sviptir þig allri skynsemi, rökhugsun og sjálfsstjórn. Það er engin skynsemi í því að leyfa þessum vægðarlausu spilakössum að halda áfram að leggja líf fólks í rúst,“ segir í greinargerðinni.

Rauði kross Íslands, Landsbjörg, SÁÁ, Háskóli Íslands og íslenska ríkið hafi haft hag af „stjórnleysi og óviðráðanlegum löstum fólks sem hefur ánetjast því vægðarlausa skrímsli sem spilakassar eru“. Guðlaugur hafi ekki notið stjórnarskrárbundinna réttinda sinna hér á landi þar sem íslenska ríkið hafi gert út á spilafíkn hans, en hann segist hafa eytt tugum milljóna í spilakassana.

Fleiri mál hafa komið fyrir dómstóla

Mál Guðlaugs er ekki eina málið sem tengist spilafíkn sem Þórður hefur haft með höndum. Fyrir um 20 árum var hann lögmaður fyrrverandi eiginmanns konu með spilafíkn, en hann krafðist bóta frá ríkinu og Rauða krossinum vegna þess tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna fíknar fyrrverandi konu sinnar. Maðurinn fór fram á skaðabætur frá ríkinu og Rauða krossinum auk bóta fyrir ófjárhagslegt tjón sem fólst m.a. í brostnu hjónabandi, vanskilum og hruni á ævistarfi. Héraðsdómur vísaði málinu frá vegna skorts á sönnunum. 

Í október 2017 vísaði Héraðsdómur Reykjavíkur frá kröfu Guðlaugs um að leyfi Íslandsspila og HHÍ til reksturs spilakassa yrði afturkölluð og kröfu hans um skaða- og miskabætur var hafnað. Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu í október í fyrra, Guðlaugur sótti þá um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar, en því var hafnað. „Kærandi hefur því leitað allra leiða eftir íslenskum dómstólum til að fá réttláta niðurstöðu í sínu máli. Hann getur ekkert annað í dag en leitað til Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem Hæstiréttur Íslands hefur hafnað beiðni hans um áfrýjunarleyfi,“ segir í greinargerðinni. 

Kæra Guðlaugs byggir á því að íslenska ríkið brjóti lög …
Kæra Guðlaugs byggir á því að íslenska ríkið brjóti lög með því að leyfa rekstur spilakassa, en þeir hafi leitt hann til spilafíknar sem hefur valdið honum fjárhagslegu og andlegu tjóni. Kristinn Ingvarsson

Vekur ýmsar spurningar

Að mati Þórðar vekur það, að leyfa rekstur spilakassa, ýmsar spurningar. „Það er verið að leyfa spilakassa, sem eru skilgreindir sem harðasta form fjárhættuspila. En svo er fólk dæmt fyrir að bjóða öðru fólki upp á að spila rúllettu og póker upp á peninga.“

Næstu daga verður fjallað um spilafíkn frá ýmsum sjónarhornum á mbl.is þar sem m.a. verður rætt við spilafíkla, meðferðaraðila og sérfræðinga á þessu sviði.

mbl.is