„Frábær hreyfing sem reynir á alla vöðvahópa líkamans“

Hreyfiferðir | 8. janúar 2020

„Frábær hreyfing sem reynir á alla vöðvahópa líkamans“

Auður Kristín Ebenezersdóttir er á leið til Ítalíu þar sem hún og Óskar Jakobsson verða með skíðagöngunámskeið. Hún segir að allir geti orðið góðir á gönguskíðum og það að iðka íþróttina geri fólki gott.

„Frábær hreyfing sem reynir á alla vöðvahópa líkamans“

Hreyfiferðir | 8. janúar 2020

Auður Kristín Ebenezersdóttir er á leið til Ítalíu þar sem hún og Óskar Jakobsson verða með skíðagöngunámskeið. Hún segir að allir geti orðið góðir á gönguskíðum og það að iðka íþróttina geri fólki gott.

Auður Kristín Ebenezersdóttir er á leið til Ítalíu þar sem hún og Óskar Jakobsson verða með skíðagöngunámskeið. Hún segir að allir geti orðið góðir á gönguskíðum og það að iðka íþróttina geri fólki gott.

Auður mælir með því að fólk fari á gönguskíðanámskeið, horfi á kennslumyndbönd og æfi sig á jafnsléttu til að byrja með. Hún bendir líka á að það sé nauðsynlegt að teygja vel eftir æfingar og þá sérstaklega á náranum. 

„Við Óskar Jakobsson höfum síðastliðin fjögur ár verið í samstarfi og verið með skíðagöngunámskeið í Bláfjöllum. Síðustu þrjá vetur höfum við einnig verið með námskeið í Tékklandi í samstarfi við ferðaskrifstofu en í ár ákváðum við að breyta til og fara til Ítalíu. Ástæðan er meðal annars sú að við ákváðum að tengja ferðina í ár við skíðagöngukeppnir sem haldnar eru í Dólomítafjöllunum sitthvoru megin við landamæri Austurríkis og Ítalíu. Þær eru haldnar með viku millibili, 19. janúar og 26. janúar. Í vikunni á milli ætlum við að vera með skíðakennslu á Ítalíu. Þar munum við kenna fólki að ganga með hefðbundnum stíl. Framfarir eru miklar þegar fólk getur einbeitt sér bara að gönguskíðunum. Í ferðum sem þessum myndast líka góð tengsl og fólk eignast vini og félaga sem hafa skíðagönguna að áhugamáli. Góð stemming hefur einkennt ferðirnar,“ segir Auður. 

Hún segir að gönguskíði séu frábær íþrótt að svo mörgu leyti eins og til dæmis að bjóða upp á útiveru í fallegu landslagi. 

„Þetta er frábær hreyfing sem reynir á alla vöðvahópa líkamans, styrkir úthald og jafnvægi. Skíðaganga er af mörgum talin ein erfiðasta keppnisíþrótt sem þú getur stundað,“ segir hún. 

Kemst fólk í toppform með því að stunda skíðagöngu?

„Varðandi að komast í toppform þá er það ekki spurning í þessari íþrótt skapar æfingin meistarann og mjög auðvelt að komast í gott form. Það eru margir hlauparar sem nota gönguskíðin til að halda sér í góðu formi yfir veturinn og styrkja efri hluta líkamans og miðjusvæðið, bak og kvið í leiðinni.“

Auður byrjaði að stunda gönguskíði þegar hún var 11 ára. 

„Þá var ég að æfa svigskíði en svo var haldin boðgöngukeppni í skólanum og ég var ein af þeim sem var valin að keppa fyrir bekkinn minn. Þá sá ég að ég yrði að læra hvernig ætti að gera þetta og bað pabba að kenna mér en hann fór á Ólympíuleika á sínum tíma og kunni þetta mjög vel. Þannig kviknaði áhuginn og ég fór að mæta á æfingar.“

Hvernig er best að vera klædd/ur á gönguskíðum?

„Það er hægt að nota almennan útivistarfatnað í skíðagöngu og gott að vera í 2-3 lögum þar sem innsta lagið er með ullarblöndu. Það er best að vera í mörgum þunnum lögum og geta frekar fækkað fötum en að vera klæddur í eina þykka úlpu og skíðabuxur. Maður er fljótur að hitna um leið og maður byrjar að ganga. Mikilvægt að vera með húfu og skíðagönguhanska en þeir eru með góðu gripi og því betra að halda utan um stafinn. Sokkar eiga að vera milliþunnir eða þunnir og úr ull.“

Þegar Auður er spurð út í frí segir hún að skíðafrí sé eitt besta frí sem hún getur hugsað sér. 

„Maður er algjörlega endurnærður á sál og líkama eftir skíðafrí. Það jafnast ekkert á við vera í góðum félagsskap, vera úti í alls konar veðrum og  reyna vel á sig. Eftir það er frábært að fá góðan mat og fara í heitan pott eða gufu.“

mbl.is