Björk gekk á Kilimanjaro og kom endurbætt til baka

Fjallganga | 11. nóvember 2023

Björk gekk á Kilimanjaro og kom endurbætt til baka

Björk Eiðsdóttir, fjölmiðlafulltrúi Björgólfs Thors Björgólfssonar, fór á dögunum í eftirminnilega ferð til Kilimanjaro í Afríku ásamt vinkonum sínum. Hún segir að þetta hafi verið góð leið til þess að gefa sjálfri sér tíma fyrir sig eftir að hafa eignast fjórða barnið eftir fertugt. Eftir að hún kom heim finnst henni hún geta allt – eða svona næstum því.

Björk gekk á Kilimanjaro og kom endurbætt til baka

Fjallganga | 11. nóvember 2023

Björk Eiðsdóttir á toppi Kilimanjaro í Afríku.
Björk Eiðsdóttir á toppi Kilimanjaro í Afríku.

Björk Eiðsdóttir, fjölmiðlafulltrúi Björgólfs Thors Björgólfssonar, fór á dögunum í eftirminnilega ferð til Kilimanjaro í Afríku ásamt vinkonum sínum. Hún segir að þetta hafi verið góð leið til þess að gefa sjálfri sér tíma fyrir sig eftir að hafa eignast fjórða barnið eftir fertugt. Eftir að hún kom heim finnst henni hún geta allt – eða svona næstum því.

Björk Eiðsdóttir, fjölmiðlafulltrúi Björgólfs Thors Björgólfssonar, fór á dögunum í eftirminnilega ferð til Kilimanjaro í Afríku ásamt vinkonum sínum. Hún segir að þetta hafi verið góð leið til þess að gefa sjálfri sér tíma fyrir sig eftir að hafa eignast fjórða barnið eftir fertugt. Eftir að hún kom heim finnst henni hún geta allt – eða svona næstum því.

„Ég og Anna Linda Magnúsdóttir vinkona mín ákváðum að setja saman hóp kvenna til að fara á Kilimanjaro eftir að hafa fylgst með manninum hennar og bróður mínum sigra þennan hæsta tind Afríku. Þetta fannst okkur hljóma mikil en viðráðanleg áskorun fyrir konur af okkar kaliberi,“ segir Björk og bætir við:

„Þeir fóru árið 2021, hvor í sína ferðina reyndar, og eftir að hafa heyrt þá og samferðakonur þeirra – annar fór með móður sinni og hinn með konunni sinni – lýsa þessari mögnuðu reynslu vorum við harðákveðnar í að þetta þyrftum við að gera,“ segir Björk.

Björk Eiðsdóttir og Anna Linda Magnúsdóttir á toppnum. Þær skipulögðu …
Björk Eiðsdóttir og Anna Linda Magnúsdóttir á toppnum. Þær skipulögðu ferðina í sameiningu.

Hvernig undirbjóstu þig fyrir ferðina?

„Ég var ákveðin í að nýta þetta markmið sem gulrót til að koma mér af stað í alvöruhreyfingu eftir að hafa eignast mitt fjórða barn eftir fertugt. Ferðin var ákveðin með tæplega eins og hálfs árs fyrirvara og ég setti mér það markmið að fara í 100 fjallgöngur áður en að henni kæmi. Þetta persónulega markmið mitt hélt mér við efnið og voru göngurnar mislangar en hvort sem það var Fimmvörðuháls, Leggjabrjótur eða Úlfarsfell eða eitthvað þar á milli þá taldist hver ganga sem ein. Úlfarsfell var reyndar mjög vinsælt enda hæfilega stutt ganga í útjaðri borgarinnar og lítið mál að skella sér fyrir eða eftir vinnu. Í lokin var ég þó farin að fara tvær ferðir í hvert sinn enda á fullu að safna fjallgöngum. Ég kom mér ekki bara í gott gönguform heldur græddi ég fleira, því allar vinkonur mínar voru orðnar meðvitaðar um markmið mitt og reyndu því sjaldnar að hitta mig á kaffihúsi eða í „happy hour“ og buðust frekar til að fara með mér í göngu. Það er alveg hreint einstakur trúnó sem maður nær á fjallgöngu og þannig er þá búið að næra bæði líkama og sál,“ segir Björk.

Agnes, Anna Ragnhildur, Halla, Brynhildur, Björk, Vala og Sigurbjörg eru …
Agnes, Anna Ragnhildur, Halla, Brynhildur, Björk, Vala og Sigurbjörg eru í efri röð en Hildur, Agnes, Anna Linda og Kolla fararstjóri í þeirri neðri. Fremstur er Keddy Nathanael, einn fararstjóranna og eigandi Landside.

Gott spark í rassinn

Þegar Björk er spurð hvernig hreyfingu hennar hafi verið háttað í gegnum tíðina segir hún að það hafi verið upp og ofan hversu ofarlega hún var á listanum.

„Í gegnum tíðina hefur það verið rokkandi hversu ofarlega á forgangslistanum ég sjálf lendi eða raða mér. Þetta er að ég held sameiginleg reynsla margra mæðra, aldur barna, álag í vinnu, heimili og svo framvegis hefur oft áhrif. Árið 2012 ákvað ég fyrir hönd vinkvennahóps að við skyldum ganga á Hvannadalshnúk eftir að hafa fram að því í mesta lagi farið á Esjuna og tvisvar Fimmvörðuhálsinn.

Það var göfugt markmið og varð til þess að við gengum á allar mögulegar hækkanir á suðvesturhorninu. Þegar svo kom að því að toppa hæsta tind landsins var okkur snúið við vegna veðurs þegar aðeins 150 metrar voru eftir. Það var því ekki annað að gera en að reyna aftur við Hnúkinn árið eftir og þá náðum við að toppa. Svo ég er búin að haka í það box og þarf bara alls ekkert að fara þangað upp aftur. Ég hef sem sagt átt fína spretti í göngum og svo fengið tímabundin æði fyrir crossfit, tabata, ketilbjöllum og bara nefndu það. Núna skipti ég vikunni upp í hot yoga, spinning og svo göngur. Lykillinn fyrir mig er fjölbreytni – annars fer mér bara að leiðast og þá geri ég ekki neitt.“

Það tók á að labba á þetta stóra og mikla …
Það tók á að labba á þetta stóra og mikla fjall og rykið var svo mikið á köflum eins og sést á þessari mynd.

Kolla hitti þær í Afríku

Björk og vinkonur hennar boðuðu til fundar hjá Fjallafélaginu í byrjun sumars 2022 til að skipuleggja Afríkuferðina.

„Hámarksfjöldi var 20 konur og var strax eftir fundinn kominn biðlisti. Þegar svo kom að ferðinni rúmu ári síðar hafði okkur fækkað niður í 10. Það má því segja að við höfum hríðfallið þegar nær markmiðinu leið.

Það gerist nefnilega ansi margt á svona löngum undirbúningstíma, einhverjar treystu sér ekki líkamlega, kostnaðurinn sat í öðrum eða plön breyttust og svo varð ein barnshafandi en náði reyndar að eiga barnið það vel áður en við fórum af stað að hún var aftur farin að íhuga að skella sér með. En eftir á þá var 10 fullkomin tala og þótt við hefðum sannarlega viljað hafa allar þær frábæru konur sem voru í upphaflega hópnum með okkur, þá vorum við eftir á sammála um að þannig hefðum við hreinlega verið of margar. Það er nefnilega ekkert grín að halda utan um hóp mál- og lífsglaðra íslenskra kvenna í Tansaníu!

Vala Garðarsdóttir, Kolbrún Björnsdóttir og Björk Eiðsdóttir.
Vala Garðarsdóttir, Kolbrún Björnsdóttir og Björk Eiðsdóttir.

Kolbrún Björnsdóttir, Kolla, frá Fjallafélaginu hitti okkur í Tansaníu og fylgdi okkur alla leið á toppinn ásamt frábærum hópi heimamanna á vegum ferðafélagsins Landside. Það er ekki nauðsyn að vera með íslenskan fararstjóra og margir fara bara beint í gegnum félög úti en ég held ég tali fyrir hönd hópsins þegar ég segi að það var mikið öryggi í því að vera með Kollu með okkur á fjallinu og ekki síður í undirbúningnum. Ótal spurningar komu upp og gott að geta fengið pepp frá reynsluboltanum Kollu sem var að fara í sjötta sinn á Kilimanjaro og undirbjó okkur hvert kvöld vel fyrir næsta dag. Við vissum því alltaf sirka á hverju við máttum eiga von, hvort sem það var eitthvað til að hlakka til eða ekki, það auðveldaði ferðina mikið enda óvissan oft kvíðvænleg.“

Á undirbúningstímanum, efaðist þú aldrei um að þetta væri rétt?

„Nei í raun ekki, en við sem erum með lítil börn fórum auðvitað í gegnum smá tilfinningarússíbana yfir því að vera að fara í svona verkefni, svona langt í burtu, í svona langan tíma, en aldrei þannig að við myndum hætta við.“

Það var sérstök upplifun að gista í tjaldi á þessum …
Það var sérstök upplifun að gista í tjaldi á þessum fjarlægu slóðum.

Þurfti að læra að ganga hægt

Hvernig var svo gangan sjálf?

„Við vorum vel undirbúnar og því reyndist gangan sjálf okkur í raun aldrei erfið en það var ýmislegt annað sem reyndi á. Til að byrja með þurftum við að læra að ganga hægt en til að koma í veg fyrir hæðarveiki er mikilvægt að fara hægt yfir og gefa uppleiðinni góðan tíma. Það reyndi aðeins á að heimamenn að kenna ákveðnum og orkumiklum íslenskum konum að hjakka í fyrsta gír þegar stillingin hefur alltaf verið á fjórða.

Dag hvern þurfti aðeins að rifja þetta upp þegar óþolinmóðar konur með háleit markmið reyndu nánast að keyra fremsta leiðsögumanninn niður. En svo var mesta furða hversu vel það vandist að ganga hægt, enda ekki við neitt að keppa nema sjálfan sig. Þegar á gönguna leið áttaði maður sig betur og betur á núvitundinni sem er fólgin í því að hugsa ekki um neitt flóknara en að stíga næsta skref, gera það nógu hægt og muna að drekka vatn og nærast, enda þetta allt gríðarmikilvægt til þess að ná settu markmiði en þurfa ekki frá að hverfa vegna einkenna hæðarveiki sem fella fjölmarga göngumenn á Kilimanjaro á hverjum degi. Allar þessar konur sem vanar eru að halda fjölmörgum boltum á lofti hvern dag áttuðu sig á því þegar sest var niður á kvöldin að áhyggjur tengdar vinnu eða fjölskyldu höfðu bara ekki náð inn á radarinn allan daginn,“ segir Björk.

Vala Garðardsóttir og Björk Eiðsdóttir voru mjög rykugar en hér …
Vala Garðardsóttir og Björk Eiðsdóttir voru mjög rykugar en hér voru þær búnar að hlaupa niður af fjallinu.

Hvernig var ferðin uppbyggð?

„Eftir þrjár flugferðir frá Keflavík til Arusha í Tansaníu lentum við snemma dags og tók Kolla á móti okkur ásamt hluta fararstjóranna sem fóru með okkur alla leið og byrjaði hópurinn á að baða sig í heitri uppsprettu og ná aðeins úr sér flugþreytunni. Heimamenn tóku vel á móti okkur og var tónninn strax sleginn, dansað og sungið við hvert tækifæri og eftirvæntingin fyrir göngunni, sem hófst daginn eftir, byggðist upp. Við gættum þess að njóta síðustu næturinnar í rúmi og fórum snemma að sofa eftir extra langa sturtu, vitandi að sú næsta yrði ekki fyrr en að viku liðinni.

Gangan sjálf tók sjö daga og gistum við tvær og tvær saman í litlum kúlutjöldum. Alls fylgdu okkur 40 heimamenn sem þekktu fjallið vel enda þaulvanir og við fundum strax að við vorum í öruggum höndum. Burðarmenn báru töskur frá okkur sem innihéldu hámark 15 kíló og aðrir báru svefntjöld, matartjöld, mat, ferðaklósett og svo framvegis. Sjálfar vorum við bara með bakpoka með um sjö kílóum, aðeins því nauðsynlegasta fyrir gönguna hvern dag.

Það er ekki annað hægt en að upplifa sig í ansi mikilli forréttindastöðu og erfitt að kvarta yfir þreytu þegar komið er í búðir á kvöldin og fyrstu menn voru komnir á undan, búnir að tjalda, koma töskunum okkar fyrir í tjöldunum og byrjaðir að elda kvöldmat. Á þriðja degi þegar þyrlast hafði upp ansi mikið ryk í þurrkum dagana á undan var tekið á móti okkur með skóburstun og þá átti ég hreinlega erfitt með að fara ekki að skæla. Að fá skóburstun þreytt og skítug í rúmlega þrjú þúsund metra hæð er bara ekki eitthvað sem maður sá fyrir sér!

Það var alltaf notalegt að setjast saman í matartjaldið á kvöldin en það er mér hulin ráðgáta hvernig okkar mönnum tókst að töfra fram dýrindis máltíðir á hverju kvöldi. Sjálf er ég grænmetisæta og það reyndist þeim engin hindrun og eftir að við toppuðum var okkur fagnað með dýrindis köku sem þeir höfðu bakað – þó að sjálfsögðu enginn sé bakarofninn! Einhverjar fengu í magann á þessari viku og lystarleysi gerði svo sannarlega vart við sig en allar voru meðvitaðar um að lykillinn að velgengni í svona áskorun er að nærast vel svo það þýddi ekkert annað en að hugsa til orða móður sinnar: „Klára matinn sinn!“

Nábýlið í tjaldbúðunum var mikið og hljóðeinangrun kúlutjalda er eins og við vitum ekki upp á marga fiska. Svefninn gat því verið ansi slitróttur og lítill enda næturnar kaldar og eins og gengur og gerist er fólk mishljóðlátt í svefni auk þess sem hæðarveikilyfin sem við allar tókum virka þvagræsandi, svo það gat verið kvíðavaldandi að ræs væri hvern morgun klukkan sex. En þá var aldeilis kærkomið að vera vaktar við kaffibolla í „rúmið“ af skælbrosandi og uppábúnum kokkunum dag hvern,“ segir Björk.

Það rigndi bara hálfan dag í ferðinni og náttúran var …
Það rigndi bara hálfan dag í ferðinni og náttúran var því frekar þurr.

Rigndi bara í hálfan dag

„Ganga hvers dags var fimm til sjö tímar og landslagið allt frá regnskógi í upphafi að hrjóstrugra landslagi og vorum við einstaklega heppnar með veður og útsýni í þessari ferð, í raun rigndi aðeins í hálfan dag.

Þegar gengið er síðasta spölinn, á toppinn, er lagt af stað á miðnætti, kvöldmatur er tekinn snemma og svo er hvílst inni í tjöldum fram að göngu. Sjálf náði ég ekki að sofna og viðurkenni að það var svolítið kvíðvænlegt að vita að fram undan væri ganga í um 12 klukkustundir, alla nóttina, ósofin. En það reyndist ekki eins erfitt og ég hafði óttast. Félagsskapurinn var framúrskarandi og ég fór líka vel út úr hæðinni, mér leið vel, sem skiptir auðvitað öllu máli. Um klukkan fjögur sáum við sólina rísa og það er algjörlega ógleymanlegt augnablik þegar leiðsögumennirnir okkar og burðarmenn hylltu sólina með því að brjótast út í söng og dansi eins og þeim einum er lagið. Þetta augnablik rifja ég enn upp aftur og aftur í huga mér, já og sýni öllum sem ég hitti myndbandið.

Við sólarupprásina voru um fjórar klukkustundir eftir í topp Kilimanjaro, alla 5.895 metrana. Þangað, að markmiðinu stóra, færðumst við hægt en örugglega og flestum leið vel þótt andardrátturinn yrði vissulegra þyngri. Þegar við svo heyrðum tvisvar í þyrlu vissum við að verið væri að sækja veikt fólk og þegar nær dró sáum við örmagna fólk leitt eða borið niður, það var vissulega svolítið óhuggulegt og því voru það sérlega þakklátar og glaðar konur sem dönsuðu á toppnum rúmlega átta um morguninn. Það var ekki dansað hratt né lengi en það var dansað!

Við vorum ekki aðeins fyrsti hópurinn frá Fjallafélaginu sem nær allur á toppinn – heldur vorum við fyrsti hópurinn sem var einungis skipaður konum! Það var ferskt kirsuber á toppinn á þessari algjörlega sturluðu upplifun!

En það sem fer upp þarf aftur að fara niður. Sjálf hafði ég meðvitað ákveðið að fókusera alls ekkert á þann hluta – enda niðurleiðin alltaf jafn lúmskt leiðinleg og erfið og það dugði mér bara alveg að einbeita mér að því að komast upp!

En það var búið að segja okkur að niður gætum við farið á þeim hraða sem við kysum. Mig var virkilega farið að langa úr skónum, hlamma mér í útilegustól og hringja heim – svo við vorum þrjár sem hlupum sem leið lá niður í efstu búðir. Það sem hafði tekið átta klukkustundir að ganga upp tók einhverja tvo og hálfa tíma niður og mikið ofboðslega var gott að komast úr skónum! Þegar ég svo hringdi í manninn minn í gegnum FaceTime sá ég að hlaupin í rykinu höfðu breytt okkur vinkonum í fyrirbæri sem helst líktust þeim félögum Karíusi og Baktusi,“ segir Björk og hlær.

Hér koma fararstjórarnir færandi hendi með kaffi í rúmið í …
Hér koma fararstjórarnir færandi hendi með kaffi í rúmið í tjaldinu.

„Þegar allir höfðu svo safnast í búðirnar kom líklega að því erfiðasta í allri ferðinni: Að pakka saman og halda áfram sem leið lá í næstu búðir enda ekki ráðlegt að vera lengi í svo mikilli hæð. Flestar hefðum við líklega gefið mikið fyrir að fá að hvíla okkur á þessum tímapunkti og gangan næstu klukkustundir var vissulega áskorun, fætur þreyttir, hausverkur og þykkt ryk í hári, vitum og öllum fatnaði (þarna sá ég smá eftir hlaupunum).

Það voru ansi sáttar og skítugar konur sem sofnuðu snemma þetta síðasta kvöld á fjallinu til þess að vakna eldsnemma morguninn eftir og klára gönguna – vitandi að neðst biði ískaldur bjór og besta sturta sem sögur fara af!“

Tjaldbúðir á leiðinni upp á Kilimanjaro.
Tjaldbúðir á leiðinni upp á Kilimanjaro.

Hræðsla, þakklæti, gleði …

Hvað tókstu með þér í ferðina?

„Það var ansi langur útbúnaðarlisti sem þurfti að fylla í en sem betur fer höfðum við góðan tíma til að safna öllu sem upp á vantaði og það sem ég vissi að ég myndi ekki endilega nota aftur fékk ég lánað, enda bjó ég svo vel að þekkja fólk sem hafði farið áður. Svo var líka hægt að leigja úti það sem upp á vantaði á góðu verði. En það þurfti líka að pakka skynsamlega enda tóku burðarmennirnir að hámarki 15 kíló á mann. Allar tókum við með eitthvert nesti eins og harðfisk, hnetur, súkkulaði og slíkt og það var mikil veisla hjá fylgdarmönnum okkar þegar við söfnuðum saman öllu sem eftir stóð og gáfum þeim. Eitthvað varð líka eftir af búnaði fyrir þá enda skýtur það skökku við hversu mikið betur búið göngufólkið upp til hópa er en þeir sem ganga þetta aftur og aftur með margfalt þyngri byrðar.“

Hér má sjá salerni ferðarinnar sem var í einu af …
Hér má sjá salerni ferðarinnar sem var í einu af tjöldunum.

Hvaða tilfinningar upplifðir þú?

„Ætli ég hafi ekki náð að haka í allan skalann: Hræðslu, þakklæti, þreytu og gleði, allt eftir tíma sólarhringsins! Á morgnana var ég smá buguð og bjúguð, á daginn að kafna úr gleði yfir hinu stórkostlega kraftaverki sem þetta líf er og hversu gefandi það er að fá að taka virkan þátt í því, á kvöldin þakklát fyrir mögnuðu konurnar sem með mér voru, konur sem alltaf voru óþreytandi við að hvetja hver aðra og hjálpa … og svo þegar ég skreið ofan í kaldan svefnpokann á kvöldin með hitapokann við tærnar var ekki laust við að örlítil heimþrá eftir hlýjum faðmi fjölskyldunnar og hitaveitunni á Íslandi gerði vart við sig.“

Fegurðin í Afríku var engri lík.
Fegurðin í Afríku var engri lík.
Hér er hópurinn kominn niður af Kilimanjaro og búinn að …
Hér er hópurinn kominn niður af Kilimanjaro og búinn að fá sér að borða.
Björk segir að hún hafi komin sterkari til baka úr …
Björk segir að hún hafi komin sterkari til baka úr ferðinni því gangan reyndi á þolrifin.
Svona litu tjaldbúðirnar út um nótt.
Svona litu tjaldbúðirnar út um nótt.
Það var nauðsynlegt að skála fyrir góðu gengi.
Það var nauðsynlegt að skála fyrir góðu gengi.
Björk og Vala í tjaldinu.
Björk og Vala í tjaldinu.
mbl.is