Leikkonan sem varð leiðsögumaður

Fjallganga | 2. júlí 2023

Leikkonan sem varð leiðsögumaður

Fáir þekkja Ísland betur en leiðsögumenn og margir þeirra vita ýmislegt um landið sem við hin höfum ekki hugmynd um. Sigrún Sól Ólafsdóttir, leikkona og leikstjóri, er meðal reyndari leiðsögumanna landsins enda hefur hún leiðsagt í fjölbreyttum og ólíkum ferðum í yfir 20 ár. Hún segir starfið einstaklega skemmtilegt og gefandi og það séu ákveðin forréttindi að fá að sjá sitt eigið land í gegnum augu annarra. 

Leikkonan sem varð leiðsögumaður

Fjallganga | 2. júlí 2023

Sigrún Sól Ólafsdóttir leikkona, leikstjóri og leiðsögumaður segir að Ísland …
Sigrún Sól Ólafsdóttir leikkona, leikstjóri og leiðsögumaður segir að Ísland sé alltaf ólétt. mbl.is/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Fáir þekkja Ísland betur en leiðsögumenn og margir þeirra vita ýmislegt um landið sem við hin höfum ekki hugmynd um. Sigrún Sól Ólafsdóttir, leikkona og leikstjóri, er meðal reyndari leiðsögumanna landsins enda hefur hún leiðsagt í fjölbreyttum og ólíkum ferðum í yfir 20 ár. Hún segir starfið einstaklega skemmtilegt og gefandi og það séu ákveðin forréttindi að fá að sjá sitt eigið land í gegnum augu annarra. 

Fáir þekkja Ísland betur en leiðsögumenn og margir þeirra vita ýmislegt um landið sem við hin höfum ekki hugmynd um. Sigrún Sól Ólafsdóttir, leikkona og leikstjóri, er meðal reyndari leiðsögumanna landsins enda hefur hún leiðsagt í fjölbreyttum og ólíkum ferðum í yfir 20 ár. Hún segir starfið einstaklega skemmtilegt og gefandi og það séu ákveðin forréttindi að fá að sjá sitt eigið land í gegnum augu annarra. 

En hvernig skyldi standa á því að hún hafi farið í þetta starf? „Í raun má segja að ég hafi óvart leiðst út í þetta en ég er leikstjóri, leikari og leiðsögumaður að mennt eða ellin þrjú eins og ég segi stundum. Fyrir rúmum tuttugu árum síðan, á meðan ég var bæði að leika og leikstýra, þá datt ég inn í að aðstoða í hestaferð með útlendinga inn á milli verkefna. Fólkið sem sá um þær ferðir var alltaf að hvetja mig til að gera meira af þessu. Ég fór svo í leiðsögunám árið 2008 en í raun ætlaði ég aldrei að hafa þetta sem mitt aðalstarf heldur meira til að gera eitthvað skemmtilegt og hafa afsökun til að ferðast um landið og fá borgað fyrir. Fyrsta ferðin sem ég réð mig í var hestaferð yfir hálendið. Nokkrum dögum áður en ferðin átti að hefjast fann ég einhverja furðulega og kunnuglega tilfinningu í líkamanum og komst að því að ég var ólétt og kannski ekki ráðlagt að fara að hossast upp á hálendi.“

Sigrún Sól segir þetta, ásamt því að hún lenti í slysi, hafa gert það að verkum að hún hafi leiðst út í annars konar leiðsagnarverkefni. „Mér fannst erfitt að fara frá kornabarni í hestaferðir því þetta er mjög erfið vinna þótt hún sé skemmtileg. Á svipuðum tíma fór ég í meistaranám til Berlínar og var líka að leika í Þýskalandi þannig að ég hafði nóg að gera í öðru. Í fyrstu var ég var töluvert mikið með þýska ferðamenn, enda þýskumælandi, svo komst ég í samband við bandarískt fyrirtæki og fór að leiðsegja með þeim á sumrin frá árinu 2012. Ferðirnar sem ég fer í með þeim eru sérlega fjölbreyttar og oft er líka farið til Grænlands.“ Sigrún Sól bætir við að hún hafi unnið mikið á þessum tíma. „Ég stofnaði líka fyrirtæki í kjölfar skilnaðar og vann mikið á bak við tjöldin í tengslum við kvikmyndir og leikaraval ásamt því að vera með námskeið. Ég vinn enn í þeim geira, sérstaklega á veturna.“

Leikkonumenntunin nýtist í leiðsögninni

Hún segir leiðsögnina hafa togað sífellt meira í sig og bætir við að í raun sé starfið svolítið eins og að vera með litla leikþætti fyrir ferðamenn. „Reynsla mín sem leikkona hefur nýst mér vel í leiðsögninni. Mér finnst gaman að segja sögur og nota einkalíf mitt og ættarsögu sem ég flétta gjarnan við Íslendingasögur og þjóðsögur. Auk þess finnst mér gaman að krydda og ýkja smávegis. Þannig næ ég oft að heilla gestina. Þeim finnst það miklu skemmtilegra en að heyra mig þylja þurrar staðreyndir. Við höfum svo ótrúlega margt hér á Íslandi, dásamlega náttúru og söguhefð. Ég reyni líka að kveikja áhuga og fá fólk til að virkja ímyndunaraflið hjá sér.“

En hvað finnst Sigrúnu merkilegt við landið okkar? „Við verðum oft svo þreytt á rokinu, súldinni og grámanum en ég elska það. Ég fer til að mynda stundum með ferðamenn á Snæfellsnesið og við förum upp á jökul og sjáum kannski ekki toppana fyrir þoku eða skýjum en það er svo sjarmerandi, svona dulúð. Margt býr í þokunni. Ég tala veðrið aldrei niður og segi mínum ferðamönnum að það birti alltaf upp um síðir, bara að bíða í 5 mínútur. Ég heillast af þessum breytileika í birtunni og veðrinu. Sumar leiðir hef ég farið margsinnis en sé alltaf eitthvað nýtt, fjall í nýrri birtu eða skýjalag sem málar nýja mynd.“ Sigrún segir að Íslendingar ættu að hafa þetta í huga og ekki alltaf að agnúast út í veðrið, læra að meta rokið og kraftinn í því. Þess má geta að hún hefur töluvert verið að leiðsegja uppi á jöklum og er að læra að verða jöklaleiðsögumaður.

mbl.is/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Segir ferðamönnum að Ísland sé alltaf ólétt

Hún segir að sér finnist jarðfræðin á Íslandi alltaf meira og meira heillandi. „Mér finnst gott að það séu ekki of mörg tré því þá sjáum við landslagið svo vel. Við getum lesið sögu landsins í fjöllum og bergi og það er einstakt. Ég hef lært töluvert um jarðfræði enda fer ég stundum í sérhæfðar jarðfræðiferðir. Ísland reis bara upp úr hafinu og mótaðist af jöklum og eldfjöllum. Stundum segi ég við mína skjólstæðinga að Ísland sé alltaf ólétt, jarðskjálftarnir hríðirnar, gjóskan og kvikan sem stækkar landið okkar sé barnið og lögin og sprungurnar í berginu séu eins og óléttuslit móður jarðar. Ég bendi karlmönnum sérstaklega á að velta fyrir sér þeim gífurlega krafti sem losnar úr læðingi þegar kona fæðir barn. Þetta er skemmtileg samlíking,“ segir Sigrún Sól, svolítið kímin á svip.

Standa á öndinni fyrir framan Jökulsárgljúfur

Verkefnin sem Sigrún Sól tekur að sér eru á landinu öllu en þó hefur hún minnst ferðast um Vestfirði og Austfirði. En hvaða staður eða svæði finnst henni heilla ferðamennina mest? „Ég þekki Suðurlandið, Suðausturlandið, Snæfellsnes og Norðurland einna best og af þeim svæðum finnst mér fólk hrifnast af Mývatni, Kelduhverfi og Fljótunum. Útlendingar standa oft á öndinni þegar þeir fara um Jökulsárgljúfrin, enda eru þau mögnuð. Ég mæli eindregið með því að Íslendingar skoði þau. Tröllaskaginn og Siglufjörður heilla líka marga erlenda ferðamenn og þar spilar inn í að fátt fólk er á svæðinu og ákveðin ró og auðn. Sumir Íslendingar bölva því hversu mikið er um ferðamenn en það er fáránlegt því þeir eru mikilvæg tekjulind fyrir þjóðarbúið. Aftur á móti er það okkur að kenna að þeir séu flestallir á Suðurlandi á sama tíma en þetta er kannski önnur umræða.“

Þurfti að skríða við Seljalandsfoss

Sigrún Sól hefur eðli málsins samkvæmt lent í ýmsu á sínum leiðsagnarferli en hvað skyldi hafa komið henni mest á óvart? „Eins og ég sagði í byrjun þá er sérlega gaman að upplifa landið sitt í gegnum ókunnuga og fólkið sem ég hef verið með er alls konar. Sumir hafa til dæmis aldrei verið úti í svona grófri náttúru. Ég man eftir einum manni sem var hámenntaður efnafræðingur og hafði lítið farið út fyrir rannsóknarstofuna, hann gat varla gengið í möl og steinum og þurfti að skríða þegar við fórum að Seljalandsfossi. Honum fannst líka merkilegt að það væri hægt að sjá fjöll svona langt í burtu þegar við vorum að keyra í rútunni. Ameríkanar eru mikið fyrir alls konar tölur og spyrja oft hvað við erum hátt yfir sjávarmáli. Ég fékk einu sinni þá spurningu þegar við vorum úti á sjó í hvalaskoðun… Önnur kona spurði mig hvers vegna ísjakarnir á Jökulsárlóni væru svona bláir og hver hefði málað þá,“ Sigrún Sól bætir við að flestir ferðamenn séu fróðleiksfúsir og þyrsti í sögur og upplýsingar.

Sigrún Sól í hestaferð.
Sigrún Sól í hestaferð.

Skáldaði tröllasögu sem rataði í jarðfræðibók

„Ég má til með að segja eina fyndna sögu til viðbótar. Ég var einu sinni að leiðsegja í kringum Mývatn og bjó til sögu um tröllkonu sem ferðaðist með þrjú lítil tröllabörn. Þau voru þreytt og hún útbjó bæli fyrir þau í hraundröngum við vatnið. Rétt við Höfða eru sérstakir drangar sem líta út, ef maður skoðar þá í ljósi þessarar upplognu sögu, eins og þriggja hæða koja. Ég sagði að hún hefði grafið þetta bæli fyrir börnin og lagst svo til hvílu í grasigróna hvilft fyrir framan og æ síðan hefðu þessir klettar verið kallaðir Þrítröllabæli. Farþegunum fannst þetta æðislegt og tóku fullt af myndum. En svo skrifaði einn bandarískur jarðfræðingur, sem ég fór oft með í ferðir, bók um Ísland og jarðfræði þar sem hann sagði þessa sögu sem eina af þjóðsögum landsins og nefndi sérstaklega þetta „forna“ heiti … Þrítröllabæli. Ég segi alltaf þessa sögu og spyr bílstjórana hvort þeir hafi heyrt hana og æ oftar hafa þeir gert það frá mismunandi leiðsögumönnum. Þeir verða hálfhvumsa þegar ég segi þeim að ég hafi skáldað söguna. Þetta er orðið að skemmtilegu rannsóknarefni hjá mér. Jarðfræðingurinn varð mjög skömmustulegur þegar ég sagði honum að ég hefði búið þessa sögu til,“ segir Sigrún Sól og hlær, svolítið tröllslega og bætir við að hún segi alla jafna sannar sögur.

Allt er uppáhalds

Þegar hún er spurð hver sé uppáhaldsstaðurinn hennar á landinu koma vöflur á hana og hún grettir sig aðeins. „Margir ferðamenn sem ég hef leiðsagt hafa gert góðlátlegt grín að mér því ég er alltaf að segja að allt sé í uppáhaldi. Málið er nefnilega að ég held upp á svo margt og mér finnst erfitt að velja einhvern einn, tvo eða þrjá staði. En kannski svona af því þú spyrð þá finnst mér Snæfellsnesið afar heillandi og þá sérstaklega alveg yst á nesinu þar sem Djúpalónssandur og þjóðgarðurinn er. Þar er náttúran mjög hrá, hraun og klettar sem velta fram í sjóinn, það er einhver kraftur þarna, hvort sem maður trúir á hann eða ekki.“

Sleppið símanum

En hvaða ferðaráð um Ísland getur Sigrún Sól gefið samlöndum sínum? „Það er svo margt,“ segir hún hugsi á svip. „Ætli það sé ekki að horfa út fyrir þjóðveginn og fara í göngur, til dæmis um Jökulsárgljúfur, þau eru mögnuð. Mig langar líka að benda fólki á að vera þakklátt fyrir landið okkar og læra að meta hreina loftið og vindinn. Farið út í móa með teppi án símans og setjist niður, hlustið á hafið, horfið á fuglana, finnið ilminn af lynginu og birkinu, andið að ykkur hreina loftinu. Njótið og ekki taka myndir, það þarf ekki að mynda allt. Heyrðu, núna get ég svarað með góðri samvisku hvað er mitt uppáhalds á Íslandi, það er þetta sem ég var að lýsa, að vera í núvitundinni úti í móa, ég elska það!“

mbl.is