Fór í dagsferð til Íslands fyrir 6.280 krónur

Skoðunarferðir | 15. febrúar 2024

Fór í dagsferð til Íslands fyrir 6.280 krónur

Breski ferðalangurinn Robbie Watson fann ódýrt flug á aðeins 36 pund, eða sem nemur um 6.280 krónur á gengi dagsins í dag, og fór í dagsferð til Íslands. Hann eyddi níu klukkustundum á landinu og náði að gera ýmislegt skemmtilegt. 

Fór í dagsferð til Íslands fyrir 6.280 krónur

Skoðunarferðir | 15. febrúar 2024

Ferðalangurinn Robbie Watson hafði níu klukkustundir til að skoða sig …
Ferðalangurinn Robbie Watson hafði níu klukkustundir til að skoða sig um á Íslandi. Samsett mynd

Breski ferðalangurinn Robbie Watson fann ódýrt flug á aðeins 36 pund, eða sem nemur um 6.280 krónur á gengi dagsins í dag, og fór í dagsferð til Íslands. Hann eyddi níu klukkustundum á landinu og náði að gera ýmislegt skemmtilegt. 

Breski ferðalangurinn Robbie Watson fann ódýrt flug á aðeins 36 pund, eða sem nemur um 6.280 krónur á gengi dagsins í dag, og fór í dagsferð til Íslands. Hann eyddi níu klukkustundum á landinu og náði að gera ýmislegt skemmtilegt. 

Watson flaug með EasyJet frá Luton-flugvelli í Lundúnum klukkan 06:25 að morgni og var lentur á Íslandi þremur tímum síðar, eða klukkan 09:35.

Frá flugvellinum fór Watson beinustu leið á næstu bílaleigu þar sem hann leigði bíl til að nýta daginn sem best. Hann var svo kominn niður í miðbæ Reykjavíkur klukkan 11:15 þar sem hann lagði bílnum í hliðargötu nálægt Hallgrímskirkju. „Ég heimsótti kirkjuna, sem er mögnuð bæði að utan og innan. Ég keypti miða til að taka lyftuna upp í kirkjuturninn þar sem ég var með útsýni í allar áttir yfir borgina,“ segir Watson í samtali við Mirror

„Eftir það gekk ég niður Skólavörðustíginn – aðalbreiðgötuna sem liggur niður frá kirkjunni í átt að miðbænum – og sá regnbogagötuna. Það er fullt af verslunum og kaffihúsum á þessu svæði til að skoða ef þú hefur tíma og krúttlegar íslenskar byggingar til að taka myndir af,“ bætir hann við. 

Fékk sér pylsu og fór í Sky Lagoon

Eftir að hafa gætt sér á pylsu frá Bæjarins Bestu gekk Watson í átt að Hörpunni. „Þegar ég gekk til baka í átt að bílnum mínum rölti ég meðfram sjónum og var með útsýni yfir snævi þakin fjöll í fjarska,“ segir hann. 

Þaðan keyrði hann svo í Sky Lagoon í Kópavogi þar sem hann naut sín í botn. „Þetta er einn af þessum stöðum, eins og Bláa Lónið, sem gaman er að heimsækja einu sinni til að segja að þú hafir gert það, en þetta er eingöngu ferðamannastaður með nóg af fólki sem svamlar um til að fanga hinar fullkomu myndir af þeim í lóninu,“ segir Watson. 

„Þetta er vel hannað lón, með háum steinum, fossi, syllum til að slaka á og ótrúlegu útsýni yfir sjóinn. Þetta var snjóþungur og vindasamur dagur, svo heita vatnið var yndislegt. Ég mæli þó með því að vera með ullarhúfu í lóninu til að halda höfðinu hlýju,“ bætir hann við. 

Toppurinn að sjá norðurljósin

Watson þurfti að vera mættur aftur upp á Keflavíkurflugvöll fyrir klukkan 19:10 sama dag svo hann fór upp úr lóninu klukkan 16:30 og var kominn til Keflavíkur til að skila bílaleigubílnum klukkan 17:40. 

„Þegar flugvélin var komin í loftið birtust norðurljósin vinstra megin í flugvélinni. Flugáhöfnin deyfði ljósin og þar sem það voru nokkrar tómar raðir í vélinni gat fólk farið yfir og skoðað. Ég hef þrisvar sinnum farið til Íslands og einu sinni til Lapplands, en þetta var í fyrsta skipti sem ég sé norðurljós. Eftirminnilegt flug, svo sannarlega. Við komum til Lundúna klukkan 23:30 og ég var kominn heim rétt eftir miðnætti. Fullkomið,“ sagði Watson að lokum. 

Alls kostaði dagsferð Watsons til Íslands 232 pund með flugi fram og til baka, bílaleigubíl, eldsneytiskostnaði og aðgöngumiðum í Hallgrímskirkjuturn og Sky Lagoon. 

mbl.is