„Ég get kennt pabba mínum um ást mína á Land Rover“

Á ferðalagi | 29. október 2023

„Ég get kennt pabba mínum um ást mína á Land Rover“

Innanhússarkitektinn Hólmfríður Karen Karlsdóttir hefur alla tíð haft mikinn áhuga á ferðalögum, jeppum og útivist. Hún var aðeins 19 ára gömul þegar hún festi kaup á draumabílnum, 2000 árgerð af Land Rover Defender 90, og ákvað tveimur árum síðar að gerast leiðsögumaður í jeppaferðum og tók meiraprófsréttindi.

„Ég get kennt pabba mínum um ást mína á Land Rover“

Á ferðalagi | 29. október 2023

Hólmfríður Karen Karlsdóttir hefur mikinn áhuga á ferðalögum, jeppum og …
Hólmfríður Karen Karlsdóttir hefur mikinn áhuga á ferðalögum, jeppum og útivist. Samsett mynd

Innanhússarkitektinn Hólmfríður Karen Karlsdóttir hefur alla tíð haft mikinn áhuga á ferðalögum, jeppum og útivist. Hún var aðeins 19 ára gömul þegar hún festi kaup á draumabílnum, 2000 árgerð af Land Rover Defender 90, og ákvað tveimur árum síðar að gerast leiðsögumaður í jeppaferðum og tók meiraprófsréttindi.

Innanhússarkitektinn Hólmfríður Karen Karlsdóttir hefur alla tíð haft mikinn áhuga á ferðalögum, jeppum og útivist. Hún var aðeins 19 ára gömul þegar hún festi kaup á draumabílnum, 2000 árgerð af Land Rover Defender 90, og ákvað tveimur árum síðar að gerast leiðsögumaður í jeppaferðum og tók meiraprófsréttindi.

Hólmfríður var búsett í Englandi í fjögur ár þar sem hún stundaði nám og þar áður í eitt ár í Þýskalandi. Ferðaþráin dró hana svo aftur heim á klakann og nú starfar hún hjá Arkís Arkitektum. „Eftir mörg ár í burtu saknaði ég Íslands og að geta ferðast frjálslega um landið mitt. Ég fann að ég vildi koma aftur heim eftir námið mitt og starfa hér,“ segir hún. 

Hólmfríður er uppalinn í Árbænum og veit fátt betra en að ferðast. „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á ferðalögum, bílum og veiði enda er ég alin upp við bakka Elliðaánna og hef veitt um land allt síðan ég gat haldið á veiðistöng. Minn helsti veiðifélagi er pabbi minn, Karl Óskarsson, en við höfum eytt ófáum stundunum saman við veiði og þær stundir eru mér dýrmætar,“ segir hún.

Feðginin Karl og Hólmfríður á góðri stundu.
Feðginin Karl og Hólmfríður á góðri stundu.

„Ég get líka kennt pabba mínum um ást mína á Land Rover þar sem hann hefur verið sölustjóri Land Rover allt mitt líf. Ég er alin upp við að fara í stórskemmtilegar jeppaferðir bæði með vinnunni hans og fjölskyldu minni þar sem keyrt er um allar trissur og reynt á getu bílanna við mikið fjör,“ bætir Hólmfríður við. 

Eignaðist draumajeppann 19 ára

Árið 2015, þegar Hólmfríður var 19 ára gömul, rættist langþráður draumur þegar hún festi kaup á 2000 árgerð af Land Rover Defender 90. „Ég keypti hann af eldri konu sem hafði átt hann nýjan með manninum sínum og var hún mjög leið að þurfa að láta hann af hendi. Ég lofaði henni að sjá alltaf vel um hann og nota hann vel, enda draumabíllinn minn. Síðan þá hef ég ferðast á honum um allt land og hef ekki enn lent í neinum alvarlegum bilunum á ferðum mínum. Það kemur samt örugglega að því ef ég þekki þessa bíla rétt,“ segir Hólmfríður og hlær. 

Hólmfríður var 19 ára þegar hún eignaðist draumajeppann, Land Rover …
Hólmfríður var 19 ára þegar hún eignaðist draumajeppann, Land Rover Defender 90 af árgerð 2000.

„Það sem heillar mig mest við Defenderinn er hvað hann er hreinn og beinn. Hann hefur lítið sem ekkert af auka- og tæknibúnaði sem flækist oft fyrir í nýrri jeppum og veldur bilunum. Hann hefur nánast bara gírstöng, rúðuþurrkur, miðstöð og klukku. Hann er léttur jeppi sem er gerður að mestu úr áli og kemst allt. Hvað meira þarf maður fyrir gott ferðalag spyr ég bara? Jú, eitt sem ég lét setja aukalega í bílinn minn var gott hljóðkerfi þar sem góð tónlist til að syngja hástöfum með ferðafélögum er staðalbúnaður í mínum bókum,“ útskýrir Hólmfríður. 

„Ef félagsskapurinn og tónlistin er góð verður ferðin sjálfkrafa fullkomin. Mér finnst yndislegt að keyra á hálendinu á sumrin og get vel mælt með því að taka F35 Kjalaveginn og enda í kaffi og vöfflu á Hveravöllum – og jafnvel dýfa sér smá í náttúrulaugina,“ bætir hún við. 

Hólmfríður veit fátt betra en að keyra um hálendið á …
Hólmfríður veit fátt betra en að keyra um hálendið á Defendernum sínum í góðum félagsskap og með góða tónlist.

„Maður er oft að keyra í krefjandi aðstæðum“

Annar langþráður draumur Hólmfríðar var að verða leiðsögumaður á breyttum Defender. Árið 2017, þegar hún var 21 árs, lét hún verða að því og tók meiraprófsréttindi. „Ég fékk strax vinnu hjá leiðsögufyrirtækinu Superjeep og vann þar með náminu mínu á veturna og sumrin, bæði í norðurljósaferðum og lengri dagferðum upp á jökla og úti á landi að skoða okkar helstu náttúruperlur. Ég hef minni tíma til að taka ferðir í dag þar sem ég er komin í fulla vinnu annars staðar en hef alltaf möguleikann ef ég vil,“ segir hún. 

Hólmfríður fór bæði í norðurljósaferðir og í lengri dagsferðir upp …
Hólmfríður fór bæði í norðurljósaferðir og í lengri dagsferðir upp á jökla.

„Enginn dagur er eins í ferðabransanum og hef ég upplifað þó nokkur ævintýrin með vinnufélögum mínum í öllum veðrum, þá sérstaklega á snjóþungum fögum uppi á Langjökli. Þessari vinnu fylgir stundum mikil spenna og maður er oft að keyra í krefjandi aðstæðum. Í einni ferð minni upp á Langjökul í óveðri og blindbyl festust allir þrír bílarnir okkar á einhverjum tímapunkti í djúpum snjó. Það er samt alltaf partur af óvissunni og gamninu og við hjálpumst þá einfaldlega að við að losa hvort annað ef þarf. Oftar en ekki fannst farþegunum mínum ekkert meira spennandi en að hoppa út og hjálpa til við að losa bílinn og fá að upplifa alvöru íslenska jeppaferð við snjó,“ útskýrir Hólmfríður. 

Það eru ófá ævintýrin sem gerast í ferðabransanum.
Það eru ófá ævintýrin sem gerast í ferðabransanum.

„Það besta við vinnuna er að hitta fólk frá öllum löndum og njóta þess að keyra saman um og sýna þeim fallega landið okkar. Stundum skellti ég mér með í snjósleðaferð uppi á jökli í gullfallegu veðri ef farþegarnir mínir voru líka að fara sem mér þótti ekki leiðinlegt. Á slíkum stundum þótti mér ótrúlegt að ég væri að „vinna“ því þetta var ekkert annað en sturluð skemmtun,“ bætir hún við. 

Frá snjósleðaferð uppi á jökli í dásamlegu og sólríku veðri.
Frá snjósleðaferð uppi á jökli í dásamlegu og sólríku veðri.

Heilluð af kyrrðinni í Hrísey

Aðspurð segir Hólmfríður Norðurlandið vera í sérstöku uppáhaldi hjá sér. „Báðir foreldrar mínir koma þaðan, mamma frá Blönduósi og pabbi frá Akureyri. Sá staður sem mér þykir einna vænst um á Norðurlandi er Hrísey, en föðurafi minn ólst þar upp og mér finnst alltaf yndislegt að far þangað í kyrrðina við sjóinn og hitta ættfólk þegar ég get. Þar eru engir bílar og því tilvalið að labba um eyjuna og njóta friðsins sem er þar,“ segir hún. 

„Annar staður á Norðurlandi sem ég hef mikið dálæti á eru Dimmuborgir við Mývatn. Ég mæli með því að fólk fari þangað, labbi um þetta hraunmikla svæði og keppist um hver geti fundið flest tröllo falin í hrauninu því þau leynast út um allt í Dimmuborgum,“ bætir hún við.

Dimmuborgir eru í miklu uppáhaldi hjá Hólmfríði.
Dimmuborgir eru í miklu uppáhaldi hjá Hólmfríði.

„Uppáhaldsferðalögin mín enda oftast á því að tjalda á einhverjum fallegum stað með fjölskyldu og vinum, vera í náttúrunni og grilla góðan mat,“ segir hún. 

Uppáhaldsferðalög Hólmfríðar eru með vinum og fjölskyldu.
Uppáhaldsferðalög Hólmfríðar eru með vinum og fjölskyldu.

Hvetur ungar konur í meiraprófið

Hólmfríður hvetur fleiri ungar konur sem hafa áhuga á fjallamennsku og jeppum að taka meiraprófið og prófa að vinna á jeppa. „Þetta er fjölbreytt, skemmtilegt og krefjandi starf en ég horfði aldrei á þetta sem vinnu – frekar sem áhugamál og upplifun í góðum félagsskap farþega minna,“ segir hún. 

„Maður þarf bara B-far leigubílapróf til þess að geta unnið á breyttum jeppa svo ég hvet ungar konur sem hafa áhuga eindregið til að skoða það betur,“ segir hún að lokum. 

Hólmfríður hvetur ungar konur sem hafa áhuga á fjallamennsku og …
Hólmfríður hvetur ungar konur sem hafa áhuga á fjallamennsku og jeppum að prófa að vinna á jeppa.
mbl.is