Best geymda leyndarmálið við Flúðir

Best geymda leyndarmálið við Flúðir

Náttúrulaugin Hrunalaug er falin perla rétt hjá Flúðum. Laugin er á einkalandi og hefur verið í eigu sömu fjölskyldunnar lengi. Þegar laugin er heimsótt er tilvalið að geyma símann í bílnum og gleyma stað og stund.

Best geymda leyndarmálið við Flúðir

Suðurland í öllu sínu veldi | 14. ágúst 2023

Hrunalaug er skemmtileg náttúrulaug..
Hrunalaug er skemmtileg náttúrulaug..

Náttúrulaugin Hrunalaug er falin perla rétt hjá Flúðum. Laugin er á einkalandi og hefur verið í eigu sömu fjölskyldunnar lengi. Þegar laugin er heimsótt er tilvalið að geyma símann í bílnum og gleyma stað og stund.

Náttúrulaugin Hrunalaug er falin perla rétt hjá Flúðum. Laugin er á einkalandi og hefur verið í eigu sömu fjölskyldunnar lengi. Þegar laugin er heimsótt er tilvalið að geyma símann í bílnum og gleyma stað og stund.

Ganga þarf stuttan spöl til þess að komast að lauginni. Þegar gengið er að lauginni sést fljótlega í agnarlítinn kofa með torfþaki sem þjónar hlutverki búningsklefa. Í litla steypta hálfopna húsinu með torfinu skipta allir um föt, fólk af öllum kynjum og þar gildir að vera tillitssamur og fljótur.

Til að byrja með var laugin byggð með allt annað í huga en að svala þörf ferðamanna fyrir sundsprett. Í lok 19. aldar var fyrsti hluti laugarinnar byggður. Þá var hún nýtt sem þvottastaður og baðstaður fjölskyldunnar. Seinna var bætt við laug þar sem fé var hreinsað. Fyrir fáeinum árum var bætt við enn öðrum áfanga en laugin vakti mikla athygli fyrir nokkrum árum þegar hún rataði í ferðabók um heitar laugar.

Nú er tekið vægt gjald fyrir baðferðina í því skyni að standa undir kostnaði við að halda lauginni við og stýra fjölda gesta. Á sumrin er opið til 23:30 en ekki er hægt að mæta seinna en klukkan 22:00. Ef fólk vill forðast örtröð er sniðugt að hefja daginn eða ljúka honum á baðferðinni.

Þegar baðgestur situr á baðfötunum í náttúrulegri lauginni má ímynda sér að komið sé 100 ár aftur í tímann. Grjóthleðslan, torfið og náttúrulegur gróðurinn í kring fær fólk til þess að hverfa aftur til þess tíma þegar heimurinn var einfaldari en líklega harðbýlli líka.

Leiðin að lauginni.
Leiðin að lauginni.
mbl.is