Aðgerðir stjórnvalda fá „jákvæða umsögn“

Kórónukreppan | 7. júlí 2021

Aðgerðir stjórnvalda fá „jákvæða umsögn“

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að Ísland hljóti góðan dóm í skýrslu OECD um efnahagsástandið hér á landi, sem hverfist einna helst um viðspyrnu við kórónuveirufaraldrinum og áhrif hans. 

Aðgerðir stjórnvalda fá „jákvæða umsögn“

Kórónukreppan | 7. júlí 2021

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Tómas Brynjólfsson, skrifstofustjóri á …
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Tómas Brynjólfsson, skrifstofustjóri á skrifstofu efnahagsmála í fjármálaráðuneytinu, á blaðamannafundi í dag. Kynnt var skýrsla OECD um efnahagsástandið hér á landi og viðspyrnu við kórónuveirufaraldrinum, sem sögð var vera til fyrirmyndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að Ísland hljóti góðan dóm í skýrslu OECD um efnahagsástandið hér á landi, sem hverfist einna helst um viðspyrnu við kórónuveirufaraldrinum og áhrif hans. 

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að Ísland hljóti góðan dóm í skýrslu OECD um efnahagsástandið hér á landi, sem hverfist einna helst um viðspyrnu við kórónuveirufaraldrinum og áhrif hans. 

Á blaðamannafundi í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í dag kynntu skýrsluhöfundar niðurstöður sínar og töluðu vel um viðspyrnuna hér á landi, sögðu að hér gæti efnahagsvöxtur farið fram úr fyrri spám og að slíku sé ekki endilega að heilsa í öðrum OECD-ríkjum. 

„Það er ekki hægt að segja annað en að við fáum jákvæða umsögn um aðgerðir okkar í faraldrinum og stóri dómurinn í því kannski fellur þegar við urðum fyrst þjóða til þess að aflétta öllum takmörkunum innanlands,“ segir Bjarni við mbl.is. 

Einkaneyslan hélt hagkerfinu gangandi

Bjarni segir að vel hafi tekist til við að halda neyslu heimilanna mikilli, sem síðan knýr áfram hagkerfið og ver það falli. Útgjöld ríkissjóðs segir hann forsendu þess að vel hafi tekist. Trúin á að ástandið væri aðeins tímabundið hafi síðan verið forsenda umræddra ríkisútgjalda- og styrkja, aðrar leiðir hefðu verið farnar ef ástandið hefði verið varanlegt.

„Okkur tókst að verja einkaneysluna, hún var bara áfram nokkuð sterk á Íslandi á síðasta ári. Kaupmáttur heimilanna jókst einnig og ég vil benda á að við höfum skapað forsendur til þess að beita ríkissjóði af þessum krafti með því að lækka skuldastöðuna og það átti ekki við í öllum OECD-ríkjunum. Hinn armurinn í þessum umræðum er sá að við eigum að byggja slíkan viðnámsþrótt að nýju þegar áhrifa faraldursins hættir að gæta.“

Einkaneysla íslenskra heimila og fyrirtækja er sögð hafa verið ein …
Einkaneysla íslenskra heimila og fyrirtækja er sögð hafa verið ein forsenda þess að vel gangi að rétta úr kútnum eftir efnahagsáfallið. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Bjarni heldur áfram:

„Við höfum náð að halda uppi einkaneyslunni með því að skuldsetja ríkissjóð ansi verulega. Við fórum í mjög umfangsmiklar aðgerðir til dæmis vegna ástandsins á vinnumarkaði og héldum uppi einkaneyslunni, ekki vegna þess að það væri svo mikill sláttur í hagkerfinu heldur með því að stórauka tilfærslugreiðslur og greiddum út um 100 milljarða í atvinnuleysisbætur. Auðvitað er þetta ekki sjálfbært, þetta er brú sem við teljum að teygi sig yfir á fast land.“

Mestu skiptir að skapa störf

Spurður að því hvort mögulega sé þessi mikla einkaneysla og aukni kaupmáttur bundinn við einn þjóðfélagshóp eða ákveðnar atvinnugreinar, segir Bjarni að auðvitað eigi þeir sárast um að binda sem misstu störf sín.

„Það eru auðvitað hópar sem hafa tapað miklu í sínum kjörum, þar eru þeir fremstir í flokki sem töpuðu starfinu. Og jafnvel þótt bótagreiðslur, tekjutengt bótatímabil og hækkaðar atvinnuleysisbætur hafi skipt miklu þá fylgir atvinnumissi líka töluvert mikið óöryggi, sem hefur áhrif meðal annars á neysluhegðun.

Og við erum mjög meðvituð um það að til þess að leysa þetta ástand og skapa stöðugleika að nýju skiptir mestu að búa til störf. Þess vegna er það ánægjulegt að við virðumst ætla að fara fram úr almennum hagvaxtarspám.“

mbl.is