Bryndís hefði séð káfið

Jón Baldvin Hannibalsson | 11. október 2021

Bryndís hefði séð káfið

Bryndís Schram, eiginkona Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrverandi utanríkisráðherra, sagði fyrir héraðsdómi í morgun að ef Jón Baldvin hefði verið að káfa á Carmen Jóhannsdóttur í matarboði á heimili þeirra á Spáni þá hefði hún séð það.

Bryndís hefði séð káfið

Jón Baldvin Hannibalsson | 11. október 2021

Jón Baldvin ásamt lögmanni sínum Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni.
Jón Baldvin ásamt lögmanni sínum Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni. mbl.is/Árni Sæberg

Bryndís Schram, eiginkona Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrverandi utanríkisráðherra, sagði fyrir héraðsdómi í morgun að ef Jón Baldvin hefði verið að káfa á Carmen Jóhannsdóttur í matarboði á heimili þeirra á Spáni þá hefði hún séð það.

Bryndís Schram, eiginkona Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrverandi utanríkisráðherra, sagði fyrir héraðsdómi í morgun að ef Jón Baldvin hefði verið að káfa á Carmen Jóhannsdóttur í matarboði á heimili þeirra á Spáni þá hefði hún séð það.

„Ég stóð rétt fyrir aftan rassinn á henni,“ sagði Bryndís og bætti við að hefði það gerst hefði veislunni verið lokið og hún hent matnum frá sér. „Það hefði verið í fyrsta sinn sem maðurinn minn auðmýkti mig með því að snerta rassinn á annarri konu,“ bætti Bryndís við, sem var mikið niðri fyrir er hún lýsti því sem gerðist.

Sagði Laufeyju hafa verið drukkna

Hún kvaðst hafa setið við enda borðsins á móti sínum manni í matarboðinu. Um leið og hún lauk við að flytja stutta ræðu í upphafi boðsins hafi Laufey Arnórsdóttur, móðir Carmenar, beðið Jón Baldvin um að biðjast afsökunar á því að hafa káfað á dóttur hennar. „Þá stendur Carmen upp og segir „mamma ég get alveg séð um mig sjálf“,“ greindi Bryndís frá. 

Hún sagði að Laufey, sem segist hafa séð meinta kynferðislega áreitni Jóns Baldvins, hafi verið drukkinn þetta kvöld. Laufey hafi sagst vera fárveik, sárkvalin og þurfa á sterkum lyfjum að halda. Hún mætti ekki drekka ofan í lyfin. „Auðvitað var hún búin að drekka frá sér vitið,“ bætti Bryndís við og sagði Laufeyju hafa ausið yfir hana og Jón Baldvin skömmum. Hún hafi ekki skilið hegðun Laufeyjar þetta kvöld því hún hafði áður verið búin að dásama hvað þau væru stórkostlegt fólk. Þau hafi verið svo góð við hana og gefið henni kjark til að takast á við lífið.

Jón Baldvin og Bryndís Schram. Myndin er úr safni.
Jón Baldvin og Bryndís Schram. Myndin er úr safni. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Svo allt í einu eins og umskiptingur þá horfir hún á hann með hatursfullum augum,“ hélt Bryndís áfram og bætti við að enginn hafi náð að snerta matinn. Laufey hafi síðan verið komin út í bíl skömmu síðar með dætrum sínum og þær búnar að pakka. Þótti Bryndísi skrítið hversu skamman tíma það tók.

„Ég hefði séð það ef hann hefði verið að þreifa á stúlkunni,“ sagði Bryndís, sem kvaðst hafa verið mjög hamingjusöm þennan dag. Þarna hafi góð stelpa [Laufey] verið í heimsókn sem hún hafi þekkt lengi.

Gestir í héraðsdómi í morgun.
Gestir í héraðsdómi í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Öfugt við það sem Carmen bar vitni um sagði Bryndís að Jón Baldvin hafi hellt í vínglösin við matarborðið en ekki Carmen. Hún sagðist þó ekki hafa verið viðstödd þegar hann gerði það. Spurð hvort hún hafi fylgst með Carmen allan tímann á meðan þau sátu til borðs, neitaði hún því.

Spurð út í málsatvik eftir að Carmen gekk frá borðinu og fór niður sagðist Bryndís hafa verið örvingla. „Ég var alveg að fara að gráta, þetta var svo sárt.“

Hugrún Jónsdóttir, vinkona Bryndísar sem var einnig í matarboðinu, greindi líka frá því að Jón Baldvin hafi skenkt í glösin, þegar hún bar vitni í héraðsdómi. Þar sagði hún Jón Baldvin heldur ekki hafa strokið Carmen. Sagði hún Laufeyju hafa sagt við Bryndísi: „Af hverju er hún hér?“.  „Þetta sló mig,“ sagði hún og bætti við að Laufey hefði sagt henni að hún væri á lyfjum og ætti ekki að drekka vín.  

Þverneitaði og rauk frá borðinu 

Í sínum vitnisburði frá Alicante á Spáni sagði Laufey að þær mæðgur hafi fengið boð frá Bryndísi um að koma í matarboð. Eftir leik Íslands og Argentínu sem hópurinn horfði á saman á öðrum stað hafi konurnar farið á undan heim til Jóns Baldvins og Bryndísar til að undirbúa matinn. Jón Baldvin hafi setið eftir en komið síðar þegar matarboðið var að hefjast.

Laufey sagði að þegar Carmen sótti vínflösku og tók að skenkja í glösin hafi kynferðisleg áreitni átt sér stað. „Þegar hún stendur hægra megin við Jón Baldvin sé ég að hann teygir höndina upp eftir lærinu á henni og upp á rass og niður og er hreinlega að káfa á henni. Ég sé að hún stirðnar upp og leggur frá sér flöskuna og kemur svo og sest við hliðina á mér,“ sagði Laufey og bætti við að þá hafi hún beðið Jón Baldvin um að biðja dóttur hennar afsökunar. „Hann þverneitaði og rauk svo sjálfur frá borðinu og niður.“

Kemst ekki upp með þetta

Laufey sagði Bryndísi og vinkonu hennar Hugrúnu Jónsdóttur, sem var einnig í matarboðinu, ekki hafa tekið eftir því sem gerðist og verið undrandi. Eftir að hafa rætt málin við þær sagðist hún hafa farið niður og séð þá Jón Baldvin inni í svefnherbergi að lesa bók. „Ég labba þar inn og segi: „Þú skalt ekki halda það Jón Baldvin að þó að þú sért Jón Baldvin að þú komist upp með þetta,“ sagði hún og bætti við að skömmu síðari hafi hann hótað málssókn færi hún með málið í fjölmiðla.

mbl.is