„Það var í raun sama hverju ég áorkaði ég náði ekki að njóta þess“

Framakonur | 22. maí 2023

„Það var í raun sama hverju ég áorkaði ég náði ekki að njóta þess“

Kristbjörg Kona Kristjánsdóttir greindist með ADHD eftir fertugt. Skyndilega opnaðist nýr heimur og í kjölfarið lærði hún ADHD markþjálfun í New York í Bandaríkjunum. Hún segir að konur með ADHD geri oft óraunhæfar kröfur til sjálfra sín.

„Það var í raun sama hverju ég áorkaði ég náði ekki að njóta þess“

Framakonur | 22. maí 2023

Kristbjörg Kona Kristjánsdóttir greindist með ADHD eftir fertugt.
Kristbjörg Kona Kristjánsdóttir greindist með ADHD eftir fertugt. Ljósmynd/Rut Sigurðardóttir

Kristbjörg Kona Kristjánsdóttir greindist með ADHD eftir fertugt. Skyndilega opnaðist nýr heimur og í kjölfarið lærði hún ADHD markþjálfun í New York í Bandaríkjunum. Hún segir að konur með ADHD geri oft óraunhæfar kröfur til sjálfra sín.

Kristbjörg Kona Kristjánsdóttir greindist með ADHD eftir fertugt. Skyndilega opnaðist nýr heimur og í kjölfarið lærði hún ADHD markþjálfun í New York í Bandaríkjunum. Hún segir að konur með ADHD geri oft óraunhæfar kröfur til sjálfra sín.

„Ég byrjaði að grúska í þessu í kjölfarið af því að ég og börnin mín fengum ADHD greiningu fyrir nokkrum árum. Þá hafði ég mjög takmarkaða vitneskju og þurfti einfaldlega að demba mér inn í fræðin til að sækja upplýsingar og yfirsýn yfir þau úrræði sem voru í boði. Það var bæði yfirþyrmandi og spennandi á sama tíma því við sáum fljótt að við vorum með rétta greiningu en við vorum samt svo ólík.

Sem dæmi er strákurinn minn ofvirkur, hvatvís og mannblendin á meðan dóttir mín er með ráðandi víðhygli, mjög varkár og feimin. Þetta þýddi að ég sat oft langt fram á kvöld og las eða hlustaði á hljóðbækur og hlaðvörp til að ná utan um ólíkar birtingarmyndir og hvað ég gæti gert til að styðja við þau.

Eftir því sem ég komst dýpra inn í ADHD fræðin og fór að skilja taugafjölbreytni (e. neurodiversity) og þá opnaðist fyrir mér nýr heimur sem ég heillaðist mikið af. Taugafjölbreytni fylgja margir styrkleikar og ekki bara áskoranir og erfiði. Fólk með ADHD er einstaklega hugmyndaríkt, drífandi og fært um að sjá lausnir þegar aðrir sjá bara vandamál. Þess vegna er algengt að sjá fólk með ADHD innan skapandi greina og í nýsköpun. Við erum líka fær um að ná ofur-einbeitingu þegar við höfum áhuga á hlutum og erum ósigrandi þegar við höfum trú á einhverju.

Við erum líka næmt fólk, skemmtileg og stundum orkurík. Þetta gaf mér svo mikla von og ég var staðráðin í því að skilja fræðin enn betur og aðferðirnar til þess að getað hjálpað börnunum mínum að lifa til fulls með styrkleikunum sínum. ADHD markþjálfun varð þannig rökrétt skref í framhaldinu.

Mig hafði lengi langað að læra markþjálfun og bjó að þeirri reynslu að hafa unnið sem ráðgjafi hjá Stígamótum í nokkur ár. Ég hafði góða reynslu af því að starfa náið með fólki og verða því samferða í sinni vegferð til betra lífs. Í fyrra útskrifaðist ég svo sem sérlærður ADHD markþjálfi frá ADD Coach Academy í New York, sem er algjörlega frábær skóli og hefur alþjóðlega hæfnisvottun frá bæði ICF og PAAC sem eru alþjóðleg fagfélög markþjálfa og ADHD markþjálfa,“ segir Kristbjörg sem greindist með ADHD á svipuðum tíma og börnin hennar tvö. Hún var þó full efasemda þegar hún sjálf greindist. 

„Heilu kaflarnir sem mér fannst bara verið að lýsa mér“

„Ég vissi mjög lítið um birtingarmyndir ADHD og hvað það þýddi að hafa ADHD. Fyrstu dagana eftir að ég fékk greininguna var ég full efasemda.  

Ég var meira að segja að spá í það að fara til annars sálfræðings til að fá þetta leiðrétt. Þegar ég sagði vinkonum mínum frá þessu sló þögn á hópinn. Stórfjölskyldan mín tók fréttunum mjög vel og skellti sér sjálf í  greiningu. Mamma sagði þegar ég hringdi í hana, já veistu ég held að ég sé líka með þetta!

Það sem hjálpaði mér sennilega mest þarna í kjölfar greiningarinnar var að hlusta á bók Sari Solden, Women with Attention Deficit Disorder. Þar voru heilu kaflarnir sem mér fannst bara verið að lýsa mér og lífi mínu. Það hjálpaði mér að taka greininguna í sátt og kveikti upp í mér áhuga um að vita meira,“ segir hún. 

Kristbjörg segir að ógreint og ómeðhöndlað ADHD hafi mótandi og djúpstæð áhrif á sjálfsmynd fólks og líðan þess.

„Það hefur áhrif á þær ákvarðanir sem við tökum og það gildismat sem við förum eftir. Þess vegna er það svo mikilvægt að við náum að greina stúlkur snemma og veitum þeim viðeigandi fræðslu og stuðning. Hópurinn sem oft gleymist eru konur eins og ég sem fáum greiningu seint á ævinni eftir að hafa stofnað fjölskyldu og valið okkur starfsframa. Það er svo mikilvægt að fá uppgjör og frelsi frá skömminni og grafa grímuna sem við höfum sennilega haldið uppi svo lengi að við munum ekki hverjar við erum.“ 

Snýst um að hafa næga þekkingu

Aðspurð að því hvað hafi breyst við það að fá ADHD greiningu segir hún það vera mjög margt.

„Að fá ADHD greiningu hefur algjörlega breytt öllu fyrir mig. Hún var upphafið af því að ég fór sjálfsskoðun. Ég fór að skilja líðan mína betur sem var forsendan að því að ég náði að gera réttar tengingar. Það er ekki allt í okkar hegðun og líðan tengt ADHD en það getur verið margt og þú nálgast einkennin á annan hátt þegar þú veist að þau eru ADHD tengd. Ég sýndi sjálfri mér mun meiri sjálfsmildi eftir greiningu. Ég átti auðveldara með að taka einkenni mín í sátt og gat losað mig við óþarfa skömm þegar ég skildi að þau voru tengd því hvernig heilinn á mér var upp byggður. 

Það var líka margt sem mig hefði aldrei grunað að væri tengt ADHD-inu og hélt bara að væri rökrétt viðhorf, hegðun eða hugsun. Gott dæmi um það er sjálfsharkan. Ég hef alltaf gert miklar kröfur til mín og frekar óraunhæfar væntingar sem gerði það að verkum að mér fannst ég aldrei nógu góð. Ég ætti að geta gert betur og náði því sjaldan að njóta afreka minna. Það var í raun sama hverju ég áorkaði ég náði ekki að njóta þess. Þegar ég fékk launahækkun eða landaði góðri stöðu fann ég fyrir svikara heilkenni (e. imposter syndrome) og upplifði mig ekki verðskulda launahækkunina eða stöðuna. Þetta er mjög lýjandi tilfinning og þó svo að ég geti séð og skilið rökin á bak við viðurkenningar fannst mér ég ekki verðskulda þær. Þú hefur á margan hátt vaðið fyrir neðan þig þegar þú hefur kortlagt einkenni þín og ADHD heilann þinn.

Ef þú veist hverju þú getur átt von á og þá veistu hvernig þú átt að bregðast við. Að sníða ákveðna viðbragðsáætlun var nákvæmlega það sem ég þurfti til að tryggja vellíðan og hafna sjálfsgagnrýni og því niðurrifi sem svikara heilkennið olli. Þetta snýst um að hafa næga þekkingu, innsýn og réttu verkfærin til að mæta eigin þörfum, hægja á og fækka sjálfkrafa viðbrögðum. Þetta gerist auðvitað ekki á einni nóttu og byggir á reynslu sem safnast saman með tímanum. Að skiljaADHD heilann sinn og átta sig á því hvað virkar og hvað virkar ekki breytir öllu og það er svo sannarlega fyrirhafnarinnar virði. Ég fékk líka ómetanlega hjálp frá kollega mínum, Sigrúnu Jónsdóttir ADHD markþjálfa. Það er fátt betra en að hitta aðra meðADHD og finna að það eru fleiri að ganga í gegnum það sama og þú. Sigrún var líka hvatinn að því að ég sérhæfði mig sem ADHD markþjálfi hjá ADDCA. En hún hafði sjálf lokið námi þar fimm árum áður,“ segir Kristbjörg. 

Sigrún Jónsdóttir og Kristbjörg Kona Kristjánsdóttir halda námskeið fyrir konur …
Sigrún Jónsdóttir og Kristbjörg Kona Kristjánsdóttir halda námskeið fyrir konur með ADHD.

Kristbjörg og Sigrún standa fyrir námskeiði fyrir konur með ADHD. 

„Við Sigrún eigum það sameiginlegt að hafa verið komnar yfir fertugt þegar við fengum okkar greiningu og sú staðreynd hefur alltaf verið vinsælt umræðuefni okkar á milli. Það að hafa verið með ógreint og ómeðhöndlað ADHD í öll þessi ár, í gegnum okkar menntun, sambönd, hjónaband og síðan móðurhlutverkið hafði djúpstæð áhrif á okkur. Við fórum báðar á kaf í fræðin í kjölfarið sem var mjög tímafrekur prósess. Þess vegna er þetta námskeið okkur svo mikilvægt og er  okkur mikið hjartans mál.

Vinna okkar innan ADHD markþjálfunar er unnin af  ástríðu og einskærum vilja til þess að hjálpa fólkinu okkar hvort heldur að vinna með einstaklingum eða vera með námskeið. Námskeiðið ADHD á kvenna máli er ákveðinn stuðningshópur þar sem konur fá tækifæri til að deila reynslu sinni, hlusta á sögur annarra, fræðast og öðlast dýpri skilning á sjálfri sér. Þetta er námskeiðið sem við vildum að hefði verið í boði  þegar við fengum okkar greiningu.

Við byggjum þetta upp sem vegferð sem leiðir konur í átt að sáttinni. Sátt við það að vera með ADHD og að meðtaka hverjar við erum í raun og veru. Við erum ekki að hjálpa konum að losna við einkenni sín eða verða venjulegar. Hjá okkur lærir þú að við erum flottar, frábærar og jafnvel stórkostlegar vegna þess að við erum - með ADHD.“ 

Hvers vegna heldur þú að konur séu að greinast svona margar með ADHD á fullorðinsaldri núna?

„Framfarir. Hér á árum áður var talið að ADHD myndi vaxa af okkur með aldrinum. Því var líka haldið fram að fleiri strákar væru með ADHD en stelpur. Þá var kannski verið að greina þrjá stráka á móti einni stelpu. Svo erum við háð því að fá upplýsingar úr rannsóknum og þar hefur hallað verulega á konur. Enn þann dag í dag er mikill skortur á rannsóknum á konum með ADHD og ekki síst með tilliti til hormóna og aldurs.“ 

Hvernig hafa hormón áhrif á ADHD?

„Hormón kvenna sveiflast til dæmis í takt við tíðahringinn og svo er hlutfall þeirra mjög breytilegt út ævina. Þegar konur hafa blæðingar eða fara á breytingaskeiðið fellur estrógen og prógesterón magnið í líkamanum. Það hefur áhrif á langlífi og framleiðslu líkamans á dópamíni og seretóníni. Við þurfum dópamín til þess að koma hlutum í verk og serótónín til að líða vel. Þegar stúlkur verða kynþroska verður fyrsta alvöru breytingin á stýrifærninni en það er einmitt þar sem ADHD áskoranir okkar eiga upptök sín. Ef það er ekki skortur á estrogeni í líkamanum dregur verulega úr ADHD einkennum stúlkna við kynþroska aldur. Margar byrja að standa sig betur í skóla, styrkja félagsleg tengsl sín og skilja heiminn betur því þær eiga auðveldara með einbeitingu. En því miður er estrogen magnið aldrei stöðugt og breytist reglulega. Sem dæmi eykst magn estrógens þegar þú hefur egglos en fellur svo um leið við blæðingar. 

Estrogen heldur svo áfram að minnka jafnt og þétt fram að breytingarskeiðinu, sem er ⅓  af ævi okkar. Margar konur fá ekki lamandi eða hamlandi einkenni ADHD fyrr en á breytingarskeiðinu. Það getur verið mikið áfall.“  

Þegar Kristbjörg er spurð að því hvort hún þekki konur með ADHD langar leiðir segir hún svo ekki vera. 

„Ég get ekki sagt það. Það hefur alveg komið fyrir að ég taki eftir ákveðinni hegðun eða einkennum hjá nánum ættingjum og vinum en ég reyni að halda því fyrir sjálfa mig. Ég læt sálfræðinga og geðlækna um að gera slíkt mat.“

Hverjar eru helstu áskoranirnar sem konur með ADHD standa frammi fyrir?

„Skömmin um að standa ekki undir eigin væntingum er sennilega einn erfiðasti fylgikvilli þess að vera með ADHD. Að ógleymdri allri utanaðkomandi pressu. Það er svo rosalega mikið álag á konum í dag og óþarfa mikil áhersla á það að vera með allt á hreinu í lífinu. Eiga fallegt, vel skipulagt og hreint heimili, klár börn, vera smart og brillera í vinnunni þetta er auðvitað að keyra okkur í kaf. Það er alveg sama hvort konur eru virkar eða óvirkar þeim finnst erfitt að leyfa sér slaka á, án þess að hafa samviskubit yfir því. 

Ég sótti alþjóðlegt námskeið um daginn þar sem þetta var mikið rætt og þessi mikla samfélagslega krafa sem gerð er á konur. Þessar kröfur eru auðvitað galnar og við þurfum einfaldlega að hætta að gangast við þessum kröfum,“ segir hún og hlær.

„Nei í alvöru, það er 2023 og við erum ennþá að dæma konur fyrir að gera hluti sem körlum er velkomið að gera. Konur sem hafa athyglisbrest með ofvirkni upplifa til dæmis mun meiri fordóma í sinn garð því þær eiga það til að tala meira og hærra en aðrar konur og taka meira pláss. Þær geta líka verið hvatvísari en aðrar konur og sýnt dug, dugnað og verið óhræddar í erfiðum aðstæðum. Allt eiginleikar sem eru sagðir mjög eftirsóknarverðir hjá körlum, en ekki hjá konum. Þetta er félagslegt mein og hefur með kynjahlutverkin að gera. Hvað samfélagið skilgreinir sem æskilega hegðun hverju sinni. Svo var líka talað um að konur með ADHD geti átt erfiðara með að vera í samböndum sérstaklega á meðan þær eru með ógreint og ómeðhöndlað ADHD. Ef vinnsluminnið er slakt og tilfinningastjórnun erfið þá eru þær líklegri til að misskilja maka sinn og aðstæður og lesa vitlaust í þær. Svo er líka margt sem bendir til þess að konur þjáist frekar af vefjagigt séu með mígreni og hafi stoðkerfisvandamál af einhverju tagi en karlar með ADHD. Það er eiginlega sama hvort konur eru ofvirkar, vanvirkar eða allt þar á milli. Aðal áskorunin er sjálfsmildi. Við þurfum að læra að sýna okkur sjálfum mildi.“

Hvað er hægt að gera til þess að láta sér líða betur annað en taka lyf? 

„Lyfin hjálpa mörgum og rannsóknir sýna að notkun þeirra lengir líf okkar og kemur í veg fyrir slys og dregur úr fíknihegðun svo eitthvað sé nefnt. Lyfin eru oft tekin samferða öðru úrræði s.s. með hugrænni atferlismeðferð (HAM), stuðningssamtölum eða ADHD markþjálfun. Ég tók sjálf lyf í nokkur ár en þurfti svo að hætta á þeim vegna þess að þau voru æðaþrengjandi. Ég sakna þeirra mjög mikið en ég næ að halda mér á góðu róli með réttu mataræði, hreyfingu, bætiefnum og með því að gera mikið af því sem hækkar dópamínið mitt. Ég veit upp á hár hvað ég get gert til þess að hressa mig við, auka virkni og einbeitingu. Þetta er auðvitað mjög einstaklingsbundið en á mínum lista eru hlutir eins og að hitta reglulega góða vini, vera úti í náttúrunni, hlusta á góða tónlist, dansa og fá góðan svefn. Allt hlutir sem eru ókeypis og virka fyrir mjög marga. Svo geta hlutir hætt að virka og þá þurfum við að endurskilgreina þá. Við sem erum með ADHD þurfum sífellt að finna nýja hluti sem styðja við okkur því ef við missum fljótt áhuga á þeim og þá hætta þeir að virka,“ segir hún og bætir við: 

„Þegar þú ert með taugatengingar í heilanum sem eru knúnar áfram að áhuga, nýjungum og ásetningi þarftu oft að endurskilgreina hlutina svo þeir geti haldið áfram að gera þér gott. Svo þarf fólk einfaldlega að prófa sig áfram. Stundum þarf rútínur eða kerfi til að styðja við okkur og þá þarf að gæta þess að setja sér ekki of háleit markmiðið eða búa okkur of stranga rútínu. Þetta vinnum við ADHD markþjálfar mikið með því það er lítið mál að kaupa sér skipulagsbækur og öpp en það gerir ekkert fyrir okkur ef við förum ekki eftir því. Við þurfum öll að finna hvað virkar fyrir okkur. 

Aukin þekking á eigin ADHD er lykillinn að betra lífi og það sem breytti öllu fyrir mig persónulega. Ég byrjaði á því að lesa allt sem ég fann og mæli eindregið með því að fólk sæki sér þekkingu. Það er svo mikið af góðu efni á netinu, á bókasafninu og í hlaðvörpum sem er  ókeypis eða fáanlegt fyrir lítinn pening. Svo er rosalega nærandi að tilheyra hópi ADHD kvenna sem eru að glíma við svipaðar áskoranir og þú. Ég mæli að sjálfsögðu með námskeiðinu okkar Sigrúnar, ADHD á kvennamáli. Þar fá konur tækifæri til þess að fræðast, kynnast sjálfri sér og vera í frábærum félagsskap ADHD systra sinna. Það gerist ekki betra!“ 

mbl.is