„Ég vissi svo sem alveg í hvað stefndi“

Heimili | 7. október 2023

„Ég vissi svo sem alveg í hvað stefndi“

Nýverið lögðu Eyjólfur Sverrisson og fjölskylda hans lokahönd á endurbætur á húsinu Teigi austan við Grindavík eftir fimm ár af framkvæmdum. Húsið byggðu langalangafi og -amma Eyjólfs í föðurætt árið 1934 en beinir afkomendur þeirra eru orðnir um 380.

„Ég vissi svo sem alveg í hvað stefndi“

Heimili | 7. október 2023

Eyjólfur Sverrisson er fæddur og uppalinn í Keflavík.
Eyjólfur Sverrisson er fæddur og uppalinn í Keflavík. Samsett mynd

Nýverið lögðu Eyjólfur Sverrisson og fjölskylda hans lokahönd á endurbætur á húsinu Teigi austan við Grindavík eftir fimm ár af framkvæmdum. Húsið byggðu langalangafi og -amma Eyjólfs í föðurætt árið 1934 en beinir afkomendur þeirra eru orðnir um 380.

Nýverið lögðu Eyjólfur Sverrisson og fjölskylda hans lokahönd á endurbætur á húsinu Teigi austan við Grindavík eftir fimm ár af framkvæmdum. Húsið byggðu langalangafi og -amma Eyjólfs í föðurætt árið 1934 en beinir afkomendur þeirra eru orðnir um 380.

Þegar Eyjólfur tók við húsinu ásamt foreldrum sínum, þeim Auði Óskarsdóttur og Sverri Sverrissyni, og tveimur systrum vorið 2017 hafði það staðið tómt í 30 ár og var ásigkomulagið því ekki gott né var það fallegt fyrir augað. Þau réðust því í allsherjar framkvæmdir á húsinu, fyrst að utan árið 2018-2019 og síðan að innan undir lok 2022.

Blaðamaður Morgunblaðsins lagði leið sína austur fyrir Grindavík og fékk þar frábærar móttökur hjá Eyjólfi og Auði sem hafa síðustu mánuði unnið hörðum höndum að því að gera húsið upp að innan af miklum metnaði. Í húsinu er fagurfræði í fullkominni sátt við notagildi og hefur fjölskyldunni tekist að skapa afar hlýlega og notalega stemningu þar.

Hlýjir jarðtónar og fallegir húsmunir eru í forgrunni í húsinu.
Hlýjir jarðtónar og fallegir húsmunir eru í forgrunni í húsinu. mbl.is/Irja Gröndal

Fórnuðu gömlum pottofnum fyrir gólfhita

Húsið var byggt í kringum upphaf funkistímabilsins og ber byggingarstíllinn þess skýr merki. „Stíll hússins hefur lítið sem ekkert breyst frá því það var byggt, en það var steinsteypt án járnbendingar og var það þekkt í gamla daga að nota stórgrýti eða skeljar frá sjónum til að nota þyrfti minna af steypu. Þegar við tókum húsið í gegn þurftum við að fjarlægja einangrunina í lofti en hún taldi 25 stóra ruslapoka af mosa,“ útskýrir Eyjólfur.

Aðkoman að húsinu er afar sjarmerandi.
Aðkoman að húsinu er afar sjarmerandi. mbl.is/Irja Gröndal
Hér má sjá húsið að utan fyrir framkvæmdirnar, en eins …
Hér má sjá húsið að utan fyrir framkvæmdirnar, en eins og sést var ásigkomulagið ekki gott.

„Við upphaf framkvæmda voru svefnherbergin ekki nema tvö en við tókum þá ákvörðun að nýta gamalt kyndi- og þvottaherbergi sem auka svefnherbergi svo að húsið myndi nýtast betur fyrir fjölskylduna. Einnig var dyraopi úr eldhúsi inn í svefnherbergi lokað en engar aðrar breytingar voru gerðar á skipulagi hússins að innan,“ bætir hann við.

Að sögn Eyjólfs var ákveðið að fórna gömlum pottofnum fyrir gólfhita svo að fermetrarnir í húsinu myndu nýtast betur, en húsið er 91 fm. Þá var allt rafmagn endurnýjað í húsinu ásamt pípulögnum. „Okkur var ráðlagt að halda rotþrónni en okkur til mikillar skemmtunar gaf hún sig tveimur dögum áður en við héldum opið hús fyrir stórfjölskylduna, en nú er sem sagt búið að setja nýja,“ segir hann.

Þegar framkvæmdirnar voru langt komnar var svo ákveðið að gera lítinn pall baka til út frá hjónaherberginu sem lukkaðist afar vel. Þaðan er glæsilegt útsýni til sjávar og fjalla og spáir Eyjólfur því að pallurinn verði vinsæll staður til að drekka morgunbollann á.

Útihúsgögnin gætu átt heima á einni af grísku eyjunum - …
Útihúsgögnin gætu átt heima á einni af grísku eyjunum - svo suðræn eru þau og passa vel við húsið. mbl.is/Irja Gröndal
Flísarnar á baðherberginu eru vel lagðar og fara vel við …
Flísarnar á baðherberginu eru vel lagðar og fara vel við blöndunartæki úr brassi. mbl.is/Irja Gröndal

Ánægður fyrir traustið

Í upphafi segir Eyjólfur planið ekki hafa verið að fara í þá átt sem framkvæmdirnar og útlit hússins fóru á endanum í. Honum tókst hins vegar að sannfæra foreldra sína en skuldbatt sig um leið til gríðarlegrar vinnu næstu mánuðina.

„Ég er sennilega allra ánægðastur með hvað þau treystu mér mikið fyrir hinum og þessum hlutum, enda mikið af þessu frekar nýtt fyrir mér,“ segir Eyjólfur en þótt hann sé ekki faglærður er hann afar handlaginn og hefur komið sér upp flottri smíðaaðstöðu á heimili sínu þar sem hann hefur undanfarin ár smíðað húsgögn og aðra fallega muni í frítíma sínum.

Gangurinn heppnaðist vel og tengir öll rýmin í húsinu saman.
Gangurinn heppnaðist vel og tengir öll rýmin í húsinu saman. mbl.is/Irja Gröndal
Hér má sjá sama sjónarhorn af ganginum í framkvæmdunum.
Hér má sjá sama sjónarhorn af ganginum í framkvæmdunum.

„Ég vissi svo sem alveg í hvað stefndi í upphafi og gerði fastlega ráð fyrir að vinnan við alla listana yrði virkilega tímafrek, sem kom svo á daginn. Það olli mér einnig miklu hugarangri að útbúa arinstæði utan um rafmagnsarininn í stofunni, en það lukkaðist bara talsvert betur en ég hefði vonað.

Sá veggur sem arinninn er á ásamt olíumálverki af forfeðrum mínum var svolítið aðalfókusinn hjá pabba mínum og tel ég hann bara nokkuð sáttan við útfærsluna. Þetta er líka svona ákveðinn miðpunktur stofurýmisins,“ segir Eyjólfur.

Arininn býr til notalega stemningu í stofunni.
Arininn býr til notalega stemningu í stofunni. mbl.is/Irja Gröndal

Gamalt hús með nútímalegu ívafi

Fjölskyldan vildi skapa hlýja og notalega stemningu í húsinu og lögðu þau áherslu á að Teigur væri staður þar sem fólki liði almennt vel, en þau vildu einnig sjá til þess að yfirhalningin yrði gömlu hjónunum sem reistu húsið fyrir um 89 árum til mikils sóma.

„Við höfum alveg orðið vör við góðan anda í húsinu, jafnvel meðan á framkvæmdum stóð. Þó klukkan væri orðin margt þá vildi maður ekkert vera að fara heim því manni leið bara svo vel þarna,“ útskýrir Eyjólfur.

Formfögur ljós fanga augað og gefa mjúka birtu. Borðið passar …
Formfögur ljós fanga augað og gefa mjúka birtu. Borðið passar vel inn í rýmið, en það er úr Ilvu. mbl.is/Irja Gröndal

Eyjólfur lýsir heimilisstílnum á Teigi sem gömlum stíl með nútímalegum brag. „Svona „eitt og annað og alls konar“ tel ég lýsa stílnum ágætlega. Öll rými í húsinu tengjast hvert öðru og flæða vel saman en eru á sama tíma hvert með sitt eigið sérkenni,“ segir hann.

Lampi í gylltum lit nýtur sín við eikarskenk og hringlaga …
Lampi í gylltum lit nýtur sín við eikarskenk og hringlaga spegil. mbl.is/Irja Gröndal

„Talandi um lista ... “

Mjúkir tónar og fallegir listar einkenna Teig en heilmiklar pælingar eru á bak við litina og listana sem heppnuðust afar vel. Rósetturnar setja svo punktinn yfir i-ið.

„Þrátt fyrir að þetta væri gamalt hús þar sem sterkari og bjartari litir eru oft áberandi þá vildum við frekar halda okkur í þessum hlýju jarðlitum, eins og brúnum og grænum, en í mismunandi útfærslum. Svo var sami hvíti liturinn notaður á neðri hluta veggjanna, á gólf- og loftlista, gluggakistur, gerefti og hurðir,“ útskýrir Eyjólfur.

„Til að fá meiri hlýju í „afaherbergi“ settum við veggfóður á efri hluta veggjanna, en við köllum svefnherbergið afaherbergi því það var herbergið hans í gamla daga eftir að amma lést,“ bætir hann við.

Stóllinn var keyptur í Tekk.
Stóllinn var keyptur í Tekk. mbl.is/Irja Gröndal
Veggfóðrið gefur rýminu mikla hlýju og skemmtilegan karakter. Rúmfötin eru …
Veggfóðrið gefur rýminu mikla hlýju og skemmtilegan karakter. Rúmfötin eru úr Rúmfatalagernum og tóna fallega við veggfóðrið. mbl.is/Irja Gröndal

„Talandi um lista … þá væri ég helst til í að sleppa því að ræða um loftlistana. Við getum alla vega sagt það að ég er ekki æstur í að setja fleiri svoleiðis upp á næstunni,“ segir Eyjólfur og hlær. „Ég hummaði þá fram af mér þar til síðast, enda tímafrekari en aðrir listar að setja upp að mínu mati.“

„Flestallir aðrir listar fóru tiltölulega þægilega upp um leið og búið var að ákveða uppsetninguna í hverju rými fyrir sig. Við uppsetningu þurfti að taka mið af ýmsum hlutum eins og vegglýsingu og sjónvarpi, en einnig að passa upp á að hlutföllin héldust rétt,“ bætir hann við.

Alla lista og málningu keyptu þau í Sérefni. Hér má …
Alla lista og málningu keyptu þau í Sérefni. Hér má sjá litinn Angora Light sem var notaður á ganginn og stofuna. mbl.is/Irja Gröndal
Fegurðin er mikil í svefnherberginu þar sem liturinn á veggjum …
Fegurðin er mikil í svefnherberginu þar sem liturinn á veggjum og listum, Angora Blanket, passar vel við litinn á rúmfötunum sem eru úr Rúmfatalagernum. mbl.is/Irja Gröndal

Nýtt í bland við gamalt

Mæðginin eru miklir fagurkerar og reiddu sig mikið hvort á annað þegar kom að því að velja húsmuni og innrétta Teig, en þau voru dugleg að blanda saman nýjum húsgögnum og gömlum munum frá fjölskyldunni eða sem þau keyptu og gáfu yfirhalningu.

„Í mínum huga þarf alls ekki að kaupa það fínasta og flottasta. Mér fannst mikilvægt að hafa ekki of mikið af hlutum sem berjast um athygli og lagði frekar áherslu á að þeir hrósi hver öðrum,“ segir Eyjólfur.

Hvíta litnum var sprautað á til að fá sem fallegustu …
Hvíta litnum var sprautað á til að fá sem fallegustu áferðina. mbl.is/Irja Gröndal

„Hugmyndirnar komu einnig mikið frá samfélagsmiðlum og líka bara með því að prufa okkur áfram. Ég fékk talsvert svigrúm fyrir sjálfan mig til að spreyta mig á listrænu hliðinni í smíði og annarri vinnu á meðan mamma kom að mestu leyti að skreytingum, mublum og þess háttar,“ bætir hann við.

„Eldhúsinnréttingin í húsinu áður fyrr var græn, nema hún var …
„Eldhúsinnréttingin í húsinu áður fyrr var græn, nema hún var í ljósari grænum lit. Því var við hæfi að halda í þann grunn, en innréttinguna frá IKEA sprautuðum við.“ mbl.is/Irja Gröndal

Ættartréð stendur upp úr

Spurður hvað hafi staðið upp úr í framkvæmdunum nefnir Eyjólfur ættartré sem Auður sá um að setja saman í forstofunni.

„Ættartréð var stór hluti af gegnumtektinni og sá mamma mín alfarið um það, enda virkilega tímafrek vinna. Það er eitt af því sem stendur svona upp úr ásamt þeim húsgögnum sem við tókum í gegn,“ segir Eyjólfur.

„Það sem situr hins vegar mest eftir hjá mér eru vinnustundirnar við það sem við sköpuðum út frá nánast engu og afraksturinn þegar maður horfir til baka. Ef maður var ekki uppi í húsi að vinna þá var maður samt með hugann við það, alveg sama hvar maður var. Ég lærði sjálfur alveg heilan helling og er því reynslunni ríkari, en núna snýst þetta bara um að njóta þess að eyða tíma þarna þegar tækifæri gefst,“ segir hann að lokum.

Ættartréð tekur vel á móti manni þegar gengið er inn …
Ættartréð tekur vel á móti manni þegar gengið er inn í forstofuna. mbl.is/Irja Gröndal
mbl.is