Ávarpar þjóðina og kýs sögulega staðsetningu

Ísrael/Palestína | 19. október 2023

Ávarpar þjóðina og kýs sögulega staðsetningu

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, mun ávarpa þjóð sína frá forsetaskrifborðinu í Hvíta húsinu í kvöld. Talið er að hann muni þar reyna að fá Bandaríkjamenn til að fylkja sér á bak við Ísrael og Úkraínu, frammi fyrir vaxandi vanda þessara bandamanna Bandaríkjanna.

Ávarpar þjóðina og kýs sögulega staðsetningu

Ísrael/Palestína | 19. október 2023

Joe Biden heimsótti Ísrael í gær og átti þar fund …
Joe Biden heimsótti Ísrael í gær og átti þar fund með forsætisráðherra landsins. AFP

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, mun ávarpa þjóð sína frá forsetaskrifborðinu í Hvíta húsinu í kvöld. Talið er að hann muni þar reyna að fá Bandaríkjamenn til að fylkja sér á bak við Ísrael og Úkraínu, frammi fyrir vaxandi vanda þessara bandamanna Bandaríkjanna.

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, mun ávarpa þjóð sína frá forsetaskrifborðinu í Hvíta húsinu í kvöld. Talið er að hann muni þar reyna að fá Bandaríkjamenn til að fylkja sér á bak við Ísrael og Úkraínu, frammi fyrir vaxandi vanda þessara bandamanna Bandaríkjanna.

Biden, sem er áttræður og sækist eftir að gegna embættinu í annað kjörtímabil í kosningum á næsta ári, flytur ávarpið aðeins degi eftir að hann sneri aftur heim frá Ísrael.

Þar vottaði hann ísraelsku þjóðinni samúð sína og átti fund með forsætisráðherranum Benjamín Netanjahú.

Frá blaðamannafundi Bandaríkjaforseta í gær.
Frá blaðamannafundi Bandaríkjaforseta í gær. AFP

Aðeins annað skiptið

Forsetinn býr sig einnig undir að leggja fyrir þingið aðstoðarpakka upp á hundrað milljarða bandaríkjadala, en inni í þeirri upphæð er ætluð aðstoð við bæði Úkraínu og Ísrael.

Upplýsingafulltrúi Hvíta hússins, Karine Jean-Pierre, segir að í ávarpinu muni Biden „ræða viðbrögð okkar við hryðjuverkum Hamas gegn Ísrael og hrottalegu yfirstandandi stríði Rússlands gegn Úkraínu“.

Þetta verður aðeins annað skiptið sem Biden ávarpar þjóðina við sögufræga Resolute-skrifborðið, sem forsetar landsins hafa í áraraðir valið að nýta aðeins á stundum þar sem brýn þörf þykir til að ávarpa þjóðina.

Endurspeglar alvarleikann

Þó ávarpinu sé ef til vill í og með ætlað að bæta fylgi hans meðal kjósenda, sem mælist ekki ýkja hátt í könnunum, þá endurspeglar staðsetningin einnig alvarleika þeirra vandamála sem við honum blasa á heimsvísu.

Víst er að helstu andstæðingarnir munu fylgjast grannt með.

Þannig sagði Vladimír Pútín Rússlandsforseti, eftir fund með kínverska leiðtoganum Xi Jinping í gær, að átök í heiminum væru aðeins til þess fallin að styrkja bönd landanna tveggja; Rússlands og Kína.

mbl.is