Þandi raddböndin á TikTok og heyrði frá Svölu

Poppkúltúr | 4. febrúar 2024

Þandi raddböndin á TikTok og heyrði frá Svölu

Una Þorvaldsdóttir uppgötvaði leyndan hæfileika þegar hún áttaði sig óvænt á því að hún gæti hermt eftir söngröddum þekktra íslenskra og erlendra söngkvenna. Þessi einstaki og skemmtilegi hæfileiki kom Unu nokkuð á óvart, en sjálf er hún stórkostleg söngkona sem hefur komið fram fyrir fjölda manns á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum, en þar er hún fædd, uppalin og búsett, og einnig sungið á smærri samkomum víða um land. 

Þandi raddböndin á TikTok og heyrði frá Svölu

Poppkúltúr | 4. febrúar 2024

Una er skapandi sál og hæfleikarík á mörgum sviðum. Hún …
Una er skapandi sál og hæfleikarík á mörgum sviðum. Hún varð hálf orðlaus þegar Svala Björgvinsdóttir hringdi eftir að hafa séð eftirhermu hennar af sér á TikTok. Samsett mynd

Una Þorvaldsdóttir uppgötvaði leyndan hæfileika þegar hún áttaði sig óvænt á því að hún gæti hermt eftir söngröddum þekktra íslenskra og erlendra söngkvenna. Þessi einstaki og skemmtilegi hæfileiki kom Unu nokkuð á óvart, en sjálf er hún stórkostleg söngkona sem hefur komið fram fyrir fjölda manns á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum, en þar er hún fædd, uppalin og búsett, og einnig sungið á smærri samkomum víða um land. 

Una Þorvaldsdóttir uppgötvaði leyndan hæfileika þegar hún áttaði sig óvænt á því að hún gæti hermt eftir söngröddum þekktra íslenskra og erlendra söngkvenna. Þessi einstaki og skemmtilegi hæfileiki kom Unu nokkuð á óvart, en sjálf er hún stórkostleg söngkona sem hefur komið fram fyrir fjölda manns á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum, en þar er hún fædd, uppalin og búsett, og einnig sungið á smærri samkomum víða um land. 

„Ég hef sungið frá blautu barnsbeini og lengi dreymt um að starfa við tónlist. Ferillinn, ef svo má segja, byrjaði eiginlega þegar ég komst áfram í hæfileikakeppninni Leitin að Jólastjörnunni árið 2011,“ segir Una, en hún var hluti af fyrsta barnahópnum sem reyndi fyrir sér í söng- og hæfileikakeppninni. 

„Þetta var svona það fyrsta stóra sem ég gerði. Fram að því hafði ég aldri þorað að syngja opinberlega, þetta reyndist nauðsynlegt spark í rassinn,“ segir Una og síðan þá hefur boltinn rúllað. Þessi 26 ára gamla söngkona hefur vakið mikla athygli fyrir frumsamin lög, fallegan söng og nýverið fyrir stórskemmtilegt TikTok-myndskeið þar sem hún þenur raddböndin í líkingu við þekktar íslenskar söngkonur. 

Fór sem eldur í sinu

Una er búsett í Vestmannaeyjum ásamt sambýlismanni sínum, DeVon Má, og tveimur ungum sonum, Tristani og Adrian. Samhliða söngnum, tónlistarsköpun og móðurhlutverkinu starfar hún á leikskóla og er einnig hæfileikarík listakona, en hún býr til fallegar portrett-teikningar þegar hún hefur tök og tíma. 

Una ásamt sambýlismanni sínum og sonum.
Una ásamt sambýlismanni sínum og sonum. Ljósmynd/Aðsend

Nokkru áður en Una komst í hóp þeirra sem kepptu til úrslita í Jólastjörnunni, rataði myndband af henni syngjandi inn á íslenska vefsíðu og fór það sem eldur í sinu um netheima og áður en slíkt fór að teljast daglegt brauð. 

„Myndband af mér fór á flug á vefsíðunni bleikt.is, þegar hún var og hét. Aðdragandinn var sá að systir mín spurði mig hvort hún mætti taka mig upp og setja á netið. Hún þurfti að sjálfsögðu að múta mér en við náðum einhvers konar samkomulagi á endanum. Myndbandið endaði einhvern veginn inni á bleikt.is og fór á flug, það fór „viral“ eins og menn segja, en síðan var mjög vinsæl hér á árum áður,“ útskýrir Una. 

Símtal frá Jóhannesi Hauki breytti öllu

Sönghæfileiki Unu kom mörgum verulega á óvart en margir sem höfðu þekkt hana allt tíð heyrðu hana þenja raddböndin í fyrsta sinn í hæfileikaþætti Björgvins Halldórssonar. 

„Það bárust myndbönd frá öllum landshornum í keppnina en það voru 10 til 15 börn valin í hálfgerðan úrslitahóp. Systur mínar sannfærðu mig um að skella í eitt myndband og sögðu að það færi ekkert lengra. Það var ekki satt. Örfáum dögum seinna þá hringdi síminn og á hinum enda línunnar var Jóhannes Haukur leikari að tilkynna mömmu að ég væri komin í úrslit,“ segir Una sem upplifði óttablandinn sæluhroll við að heyra tíðindin. 

Una að syngja fyrir dómnefnd Jólastjörnunnar árið 2011.
Una að syngja fyrir dómnefnd Jólastjörnunnar árið 2011. Samsett mynd

Aðspurð segist Una ekki hafa ímyndað sér framtíð í tónlist þegar hún tók sig upp á myndband að syngja sem ung stúlka. „Þetta var ekki mín hugmynd, systur mínar þrýstu þessu í gegn,“ segir hún. Þegar Una snéri aftur til Vestmannaeyja eftir þátttöku sína þá hélt hún ótrauð áfram að syngja og er rödd hennar flestum kunnug á þeim slóðum í dag. „Þetta var það sem byrjaði allt.“

Heillaði netverja með eftirhermum

Þó svo að tími bleikt.is sé löngu liðinn þá er Unu enn á fullu að deila sönghæfileikum sínum með netverjum og birti skemmtilegt myndband á samfélagsmiðlinum TikTok nýverið sem vakti mikla athygli. Ekki alls fyrir löngu uppgötvaði hún leyndan hæfileika þegar hún áttaði sig óvænt á því að hún gæti hermt eftir söngröddum þekktra íslenskra og erlendra söngkvenna. 

„Þetta byrjaði bara sem grín og þá bara ég að herma eftir poppstjörnum míns tíma, Britney Spears, J.Lo, Shakiru og þessum söngkonum, svo hélt þetta bara áfram að þróast. Ég var til að mynda bara að ræða um Svölu Björgvinsdóttur og raddblæ hennar nýverið og hljómaði bara allt í einu alveg eins og hún, það var fyrir algjöra slysni,“ segir Una og hlær. 

Una syngur mikið ásamt mágkonu sinni, Söru Renee. Þær gáfu …
Una syngur mikið ásamt mágkonu sinni, Söru Renee. Þær gáfu út þjóðhátíðarlag árið 2012 sem heitir Ástarstrengur. Ljósmynd/Aðsend

„Mér hefur lengi verið líkt við Jóhönnu Guðrúnu, söngstílar okkar eru frekar svipaðir myndi ég segja. Ég hef svo prófað mig áfram með hinar íslensku söngkonurnar, eins og söngstíl Bríetar.“

Hverjum nærðu best?

„Ég myndi segja að Svala væri öruggasta eftirherman og svo á ég kannski ekki í miklum erfiðleikum með að ná utan um söngstíl og tón Jóhönnu Guðrúnar.“

Una segist hafa tekið upp myndbandið í algjöru flippkasti. „Ég bjóst alls ekki við þessu áhorfi né viðbrögðum. Það sem kom mér helst á óvart var að Svala hafði samband við mig í kjölfarið, við ræddum málin fram og til baka nánast heila kvöldstund. Ég var eiginlega hálf orðlaus, hún var svo yndisleg, bara alveg hreint frábær,“ segir Una sem fékk að heyra lofsamleg orð og frábær ráð frá söngkonunni. 

„Á árinu sé ég fyrir mér að gefa út lag …
„Á árinu sé ég fyrir mér að gefa út lag með mágkonu minni, Söru Renee. Okkur langar að gefa út sumarsmell. Ég er líka bókuð í nokkur brúðkaup og á árshátíðir í sumar. Svo kemur rest í ljós.“ Ljósmynd/Aðsend

Varstu efins um að deila myndbandinu?

„Nei, alls ekki. Ég vissi að sjálfsögðu ekkert hvort það fengi áhorf eða athygli eins og er með allt sem dettur inn á samfélagsmiðla, en fólk virtist nokkuð hrifið af myndbandinu. Ég kom sjálfri mér bara á óvart þegar ég horfði á það til baka af TikTok.“

Horft hefur verið á myndbandið rúmlega 25 þúsund sinnum síðan því var póstað síðla janúar. Yfir 2000 manns hafa líkað við færsluna á TikTok sem sýnir Unu syngja eins og nokkrar af íslensku söngdívunum. Sjón er sögu ríkari. mbl.is