„Lengi verið draumur hjá mér að hanna mitt eigið heimili“

Heimili | 2. mars 2024

„Lengi verið draumur hjá mér að hanna mitt eigið heimili“

Sesselía Dan Róbertsdóttir er mikill fagurkeri og áhugakona um falleg heimili og hönnun. Sjálf festi hún kaup á sinni fyrstu eign ásamt kærasta sínum Gunnari Bjarna Oddssyni sumarið 2021 sem þau hafa innréttað á einkar sjarmerandi máta.

„Lengi verið draumur hjá mér að hanna mitt eigið heimili“

Heimili | 2. mars 2024

Sesselía Dan Róbertsdóttir festi kaup á sinni fyrstu eign ásamt …
Sesselía Dan Róbertsdóttir festi kaup á sinni fyrstu eign ásamt kærasta sínum sumarið 2021. Samsett mynd

Sesselía Dan Róbertsdóttir er mikill fagurkeri og áhugakona um falleg heimili og hönnun. Sjálf festi hún kaup á sinni fyrstu eign ásamt kærasta sínum Gunnari Bjarna Oddssyni sumarið 2021 sem þau hafa innréttað á einkar sjarmerandi máta.

Sesselía Dan Róbertsdóttir er mikill fagurkeri og áhugakona um falleg heimili og hönnun. Sjálf festi hún kaup á sinni fyrstu eign ásamt kærasta sínum Gunnari Bjarna Oddssyni sumarið 2021 sem þau hafa innréttað á einkar sjarmerandi máta.

Sesselía er 25 ára gömul og er þessa stundina búsett í Stokkhólmi þar sem hún stundar meistaranám í Digital Management við Hyper Island háskólann, en hún er með BS gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands. Samhliða náminu hefur Sesselía verið dugleg á undanförnum mánuðum að deila myndum og myndböndum af heimili þeirra bæði á TikTok og Instagram og segist fá útrás fyrir sköpunargleðinni þar.

Sesselía er mikill fagurkeri og hefur innréttað heimili sitt á …
Sesselía er mikill fagurkeri og hefur innréttað heimili sitt á sjarmerandi máta. Ljósmynd/Sesselía Dan

Í ágúst 2021 keyptu Sesselía og Gunnar fokhelt parhús á Selfossi. „Gunnar kærastinn minn er smiður og það hafði lengi verið draumur hjá mér að hanna mitt eigið heimili nokkurn veginn frá grunni svo við vorum spennt fyrir möguleikanum að kaupa fokhelt hús sem væri þá með að minnsta kosti tveimur svefnherbergjum,“ segir Sesselía.

„Við höfðum aðallega verið að skoða eignir á Selfossi þar sem kærastinn minn er þaðan, en eftir að hafa búið saman hjá foreldrum mínum í Þorlákshöfn í nokkur ár lét ég það eftir honum að yfirgefa Höfnina og flytja á Selfoss,“ bætir hún við.

Gunnar og Sesselía keyptu fokhelt parhús á Selfossi sumarið 2021.
Gunnar og Sesselía keyptu fokhelt parhús á Selfossi sumarið 2021.

Urðu strax heilluð af skipulaginu

Þegar Sesselía og Gunnar sáu eignina fyrst var hún bara teikning á blaði, en það sem heillaði þau hve mest var skipulagið og fjöldi herbergja. Húsið telur 111 fm og samanstendur af þremur svefnherbergjum, baðherbergi, þvottahúsi og góðu alrými með eldhúsi, stofu og borðstofu.

„Á teikningunni var líka stór stofugluggi og tvöföld hurð frá alrýminu út í garð sem ég var mjög spennt fyrir. Ég sá fyrir mér bjarta og fallega stofu og það er einmitt eitt af því sem ég elska mest við húsið okkar í dag, hvað alrýmið er bjart og fær mikið af náttúrulegri birtu,“ segir Sesselía.

Falleg birta kemur inn í alrýmið sem er bjart og …
Falleg birta kemur inn í alrýmið sem er bjart og rúmgott. Ljósmynd/Sesselía Dan

Þegar Sesselía og Gunnar fengu húsið afhent hófust heilmiklar framkvæmdir sem stóðu yfir í hálft ár. „Það þurfti að einangra allt húsið, setja upp veggi, græja allar lagnir, flota gólf, spartla, mála, setja upp innréttingar, flísaleggja baðherbergið og fleira því um líkt. Verandi smiður gat Gunnar séð um stóran hluta framkvæmdanna sjálfur og leiðbeint mér, en svo erum við líka einstaklega heppin með fjölskyldu og vinni sem voru okkur ómetanleg hjálp. Við áttum því gott hálft ár þar sem við unnum nánast dag og nótt í húsinu þar til við gátum flutt inn í febrúar 2022. En það var heldur betur þess virði,“ segir Sesselía.

„Sumarið 2022 hófum við svo framkvæmdir í garðinum og lögðum grunn að palli sem við höfum svo verið að byggja í rólegheitum,“ bætir hún við.

Parið eyddi hálfu ári í framkvæmdir áður en þau gátu …
Parið eyddi hálfu ári í framkvæmdir áður en þau gátu flutt inn. Ljósmynd/Sesselía Dan

Sótti innblástur í skandinavískan stíl

Sesselía vildi skapa notalegt og þægilegt andrúmsloft á heimilinu og lagði áherslu á að fólki myndi líða vel þar. Sjálf lýsir hún heimilisstílnum sem björtum, stílhreinum, afslöppuðum og persónulegum. „Mig langaði að skapa rými þar sem gaman væri að bjóða fólki heim, borða góðan mat og almennt eiga notalegar stundir saman,“ útskýrir hún.

Þegar kom að því að innrétta heimilið sótti Sesselía mikinn innblástur í skandinavískan stíl og hönnun, en hún vill hafa bjart og létt í kringum sig. „Við val á innréttingum, litum á veggjum og stærri húsgögnum reyndum við að velja nokkuð tímalausa liti og efni sem væri ólíklegt að við yrðum þreytt á eftir stuttan tíma. Þar sem ég fæ yfirleitt að eiga lokaorðið þegar kemur að því sem keypt er inn á heimilið þá urðu ljósir og náttúrulegir litir fyrir valinu,“ segir hún.

Ljós og náttúruleg litapalletta er í forgunni í húsinu.
Ljós og náttúruleg litapalletta er í forgunni í húsinu. Ljósmynd/Sesselía Dan

„Þegar kemur að smærri hlutum á heimilinu er ég þó hrifin af sterkari litum og jafnvel óhefðbundnari samsetningum, svo þar held ég að minn persónulegi stíll fái helst að skína. Ég elska að þræða nytjamarkaði og mikið af þeim skrautmunum sem eru á heimilinu hef ég dregið með mér heim af hinum ýmsu mörkuðum við misgóðar undirtektir hjá Gunnari,“ segir Sesselía og hlær.

Litagleðin fær að njóta sín í skrautmunum á heimilinu.
Litagleðin fær að njóta sín í skrautmunum á heimilinu. Ljósmynd/Sesselía Dan

Áttu þér uppáhaldsstað á heimilinu?

„Eldhúsið er örugglega minn uppáhaldsstaður. Ég er mjög ánægð með hvernig það tókst til en svo þykir mér svefnherbergið okkar líka voða huggulegt. Við máluðum veggi og loft í sama lit þar, litnum Truffla frá Slippfélaginu, og það gerir herbergið extra kósí. Mér líður svolítið eins og ég sé í helli þar inni.“

Svefnherbergið er í miklu uppáhaldi hjá Sesselíu.
Svefnherbergið er í miklu uppáhaldi hjá Sesselíu. Ljósmynd/Sesselía Dan

Áttu þér uppáhaldshúsgagn á heimilinu?

„Ætli það sé ekki bara rúmið okkar, mér líður virkilega vel þar. Hillan í eldhúsinu kemur þar á eftir, en mér finnst hún alltaf jafn falleg og hún poppar eldhúsið upp.“

Falleg hilla setur svip sinn á eldhúsið.
Falleg hilla setur svip sinn á eldhúsið. Ljósmynd/Sesselía Dan

Áttu þér uppáhaldshlut á heimilinu?

„Akkúrat núna er það kaffivél sem við keyptum rétt fyrir jólin. Hún gerir eitthvað annað gott kaffi og ég hreinlega sakna hennar núna þegar ég er í Stokkhólmi.“

Uppáhaldshlutur Sesselíu á heimilinu er þessi flotta kaffivél frá Sage.
Uppáhaldshlutur Sesselíu á heimilinu er þessi flotta kaffivél frá Sage. Ljósmynd/Sesselía Dan

Hvað er efst á óskalistanum á heimilið?

„Ég væri alveg til í nýjan og stærri sófa, til dæmis frá Hay eða Bolia. Einhvern þægilegan sem margir komast fyrir í og sem hægt er að hafa það huggulegt í saman.“

Sesselía vildi skapa rými þar sem gaman væri að bjóða …
Sesselía vildi skapa rými þar sem gaman væri að bjóða fólki í og borða góðan mat. Ljósmynd/Sesselía Dan
mbl.is