Schröder ber lof á þá sem reyndu að ráða Hitler af dögum

Adolf Hitler.
Adolf Hitler.

Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands, sagði í dag að herforingjar sem reyndu að ráða Adolf Hitler af dögum fyrir 60 árum, væru fyrirmyndir allra Þjóðverja. „Þeir sýndu fram á að að til var annað Þýskaland, gott Þýskaland, lýðræðislegt Þýskaland, á þessum tíma," sagði Schröder.

Þann 20. júlí árið 1944 kom hópur yfirmanna í þýska hernum sprengju fyrir í skjalatösku. Þýski aðalsmaðurinn Claus von Stauffenberg fór með töskuna á fund í höfuðstöðvum Hitlers, sem þá voru í Austur-Prússlandi. Von Stauffenberg lagði töskuna frá sér á gólf fundarherbergisins og sagði Hitler að hann þyrfti að hringja. Hann flýtti sér síðan upp í flugvél og flaug til Berlínar þar sem hann og aðrir samsærismenn vonuðust til að geta náð völdum í landinu eftir dauða Hitlers.

En hermaður í fundarherberginu færði skjalatöskuna á bak við fót á rammgerðu eikarborði í herberginu og skýldi borðið Hitler þegar sprengjan sprakk. 5 manns í herberginu af 24 létu lífið en Hitler særðist aðeins lítillega. Von Stauffenberg og þrír aðrir voru teknir af lífi sama kvöld og tugir til viðbótar voru sendir í fangabúðir.

„Ég ber mikla virðingu fyrir og dáist að þeim konum og körlum sem áttu aðild að þessari andspyrnuhreyfingu en þau fórnuðu lífi sínu fyrir það Þýskaland sem við njótum þess nú að búa í," sagði Schröder í sjónvarpsviðtali.

Margir hafa talið það einn helsta harmleik 20. aldarinnar að banatilræðið við Hitler skyldi mistakast. Frá 20. júlí 1944 til loka stríðsins í Evrópu í maí 1945 hélt helför gyðinga áfram í útrýmingarbúðum og um 4 milljónir Þjóðverja, 1,5 milljónir Sovétmanna og yfir 100 þúsund hermenn bandamanna létu lífið í hernaðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert