Talið líklegt að maður sem kom fyrir sprengju í strætisvagni hafi látið lífið

Lögreglumaður gengur fram hjá myndum, sem hengdar hafa verið upp …
Lögreglumaður gengur fram hjá myndum, sem hengdar hafa verið upp á King's Cross brautarstöðinni af fólki sem saknað er eftir sprengjuárásirnar. AP

Lögreglan í Bretlandi telur líklegt að maðurinn sem bar ábyrgð á því að sprengja strætisvagn upp við Tavistock Square í miðborg Lundúna á fimmtudag í síðustu viku, hafi verið á meðal farþega í vagninum þegar hann sprakk í loft upp. Lögreglan telur sig vita hver maðurinn var en telur óvíst að hann hafi ætlað að sprengja sjálfan sig í loft upp.

Lögreglan hefur komist að niðurstöðu sinni eftir vitnisburð vitna sem sátu í námunda við manninn í strætisvagninum. Segja þau hann hafa verið í uppnámi og litið ítrekað ofan í poka sem hann hafði meðferðis skömmu áður en sprengingin varð.

Samkvæmt fréttavef Sky voru það vísbendingar sem fundust við húsleit í Leeds í morgun sem leiddu til þess að lögreglu grunar að maðurinn sem sprengdi upp strætisvagninn hafi verið farþegi í honum. Íbúar við eitt húsanna sem leitað var í greindi lögreglu frá því að hann hafi ekki orðið var við nágranna sinn frá því hryðjuverkin voru fram í Lundúnum í síðustu viku. Maðurinn er 22 ára.

Samkvæmt fréttavef breska ríkisútvarpsins, BBC hafa nokkrir verið handteknir í tengslum við leit lögreglu í húsum í Yorkshire í Leeds í morgun en hvorki hefur fengist staðfest hversu margir þeir séu né hvernig þeir tengist málinu.

Leit stendur nú yfir að sprengiefni í húsi mannsins og fleiri íbúðum í Leeds og sprengdi lögreglan sér leið inn í eitt húsið. Einnig standa yfir aðgerðir í borginni Luton. Þar sprengdi lögregla bíl sem talinn er kunna tengjast sprengjuárásunum í Lundúnum þar sem að minnsta kosti 52 létu lífið.

Frá Tavistock Square í Lundúnum á fimmtudag.
Frá Tavistock Square í Lundúnum á fimmtudag. AP
Flak strætisvagnsins, sem sprakk nálægt Tavistock Square í Lundúnum á …
Flak strætisvagnsins, sem sprakk nálægt Tavistock Square í Lundúnum á fimmtudagsmorgun í síðustu viku. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert