Ódæðismennirnir fóru til Pakistan í fyrra

Myndin sem var tekin af Mohammad Siddique Khan við innskráningu …
Myndin sem var tekin af Mohammad Siddique Khan við innskráningu á alþjóðlega flugvellinum í Karachi í Pakstan í nóvember á síðasta ári. Reuter

Staðfest hefur verið að þrír af þeim fjórum ódæðismönnum sem stóðu á bak við hryðjuverkin í Lundúnum fyrir einni og hálfri viku síðan fóru til Pakistan á síðasta ári. Tveir þeirra fóru saman til landsins og dvöldu þar í þrjá mánuði. Hasib Hussain, sem sprengdi sjálfan sig í loft upp í strætisvagni við Tavistock Square, fór þangað í júlí fyrir ári síðan. Ekki er vitað um dvalartíma hans. Mennirnir voru allir breskir ríkisborgarar af pakistönsku bergi brotnir og áttu ættingja í landinu. Sprengjumennirnir fjórir voru á meðal hinna 55 sem létust í fjórum sprengingum í Lundúnum. Þeir voru fyrstu mennirnir í sögu Bretlands til að sprengja sjálfa sig í loft upp.

Að sögn fréttavefjar breska ríkisútvarpsins, BBC, bjuggu mennirnir allir í Leeds í Bretlandi. Þeir þrír þeirra sem fóru til Pakistan í fyrra fóru þangað með löglegum hætti, en við komuna í landið var mynd tekin af þeim. Homammad Sidique Khan, 30 ára, og Shehzad Tanweer, 22 ára, flugu saman til Karachi í nóvember síðastliðnum og sneru til baka í byrjun febrúar á þessu ári. Hasib Hussain, 18 ára, kom til borgarinnar í júlímánuði fyrir ári síðan en hvorki hefur verið staðfest hver tilgangur ferðar hans var né hvenær hann hélt til baka.

Ættingjar þeirra Khans og Tanweer hafa staðfest að þeir hafi ferðast til austurhluta landsins og numið þar við trúarskóla múslíma um stundarsakir í þau skipti sem þeir hafi komið þangað. Menn sem rannsaka ferðir mannanna um landið kanna um þessar stundir hvort þeir hafi komist í samband, eða verið í sambandi við, einhverja af liðsmönnum hryðjuverkasamtakanna al-Qeda.

Ekki er vitað hvort fjórði ódæðismaðurinn, Germaine Lindsay, sem var 19 ára, hafi farið til Pakistan. Hann var fæddur í Bretlandi en af jamaísku bergi brotinn.

Þrír mannanna sprengdu sprengjur sínar í neðanjarðarlestakerfi Lundúna. Þar létust 38 manns. 13 létust í sprengingunni í strætisvagninum við Tavistock Square. Staðfest er að 55 eru látnir eftir hryðjuverkin og 700 slösuðust.

Shehzad Tanweer, við komuna til Karachi í Pakistan í nóvember …
Shehzad Tanweer, við komuna til Karachi í Pakistan í nóvember á síðasta ári og mynd af vegabréfi hans. Tawneer og Siddique komu saman til Karachi. Reuter
Mynd sem lögreglan í Bretlandi gerði opinbera í dag sýnir …
Mynd sem lögreglan í Bretlandi gerði opinbera í dag sýnir Hasib Hussain, en hann fór til Pakistan í júlí fyrir ári síðan. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert