Fjölskylda Brasilíumannsins fordæmir skotárás lögreglu

Lögreglumenn við Stockwell lestarstöðina í London á föstudag.
Lögreglumenn við Stockwell lestarstöðina í London á föstudag. AP

Fjölskylda brasilíska mannsins sem lögregla skaut til bana á lestarstöð í London á föstudag í tengslum við leit á tilræðismönnum hefur fordæmt aðgerðir lögreglu. Amma mannsins, sem hét Jean Charles de Menezes, segir „enga ástæðu hafa verið til að halda að hann væri hryðjuverkamaður.“

Lögregla sagðist í gær „harma“ að maðurinn, sem var 27 ára gamall rafvirki, hefði verið skotinn og viðurkenndi hún að það væri „harmleikur.“

Utanríkisráðherra Brasilíu hefur óskað eftir skýringum frá Jack Straw, utanríkisráðherra Bretlands. Lundúnalögreglan staðfesti í gær að að Menezes hefði á engan hátt tengst hryðjuverkaárásunum í London á fimmtudag. Hann bjó í suðurhluta Lundúna.

Frændi Menenzez, Alex Alves Pereira, segir að fjölskyldan eigi erfitt með að sætta sig við að hann hafi verið drepinn. „Afsakanir eru ekki nóg. Ég tel að frændi minn hafi dáið vegna vanhæfni lögreglu.“

Þá sagði hann að Menenzez hefði ekki haft neitt að fela og engin ástæða hefði verið fyrir hann að hlaupa undan lögreglu.

Zilda Ambrosia de Figueiredo, amma Menezes, sagði við brasilíska sjónvarpsstöð að enginn ástæða hefði verið að ætla að Menezes væri hryðjuverkamaður.

Celso Amorim, utanríkisráðherra Brasilíu, mun eiga fund með Jack Straw, utanríkisráðherra Bretlands, í Lundúnum síðar í dag og ætlar þar að krefjast frekari skýringa. Menezes er frá borginni Gonzaga í suðausturhluta Brasilíu. Hann bjó síðustu þrjú árin í Brixton í Lundúnum og vann sem rafvirki. Fréttaritari BBC í Brasilíu segir að Menezes hafi búið í fátækrahverfi í Sao Paulo um tíma. Mikill fjöldi morða sé framinn þar og það kunni að skýra hvers vegna Menezes lagði á flótta undan þegar óeinkennisklæddir lögreglumenn í Lundúnum drógu upp byssur og skipuðu honum að nema staðar.

Lögreglan segir að Menezes hafi komið út úr húsi í Tulse Hill í suðurhluta Lundúna á föstudagsmorguninn en lögregla fylgdist með húsinu vegna þess að það var talið tengjast sprengjuárásunum daginn áður.

Lögreglan segir að fatnaður Menezes og hegðun hafi aukið á grunsemdir en Menezes var klæddur þykkri úlpu í sumarhitanum. Hann tók strætisvagn til Stockwell neðanjarðarbrautarstöðvarinnar og þar skipuðu lögreglumenn honum að nema staðar. Menezes hljóp þá niður stiga, stökk yfir gjaldhlið og reyndi að komast inn í lest en þá skutu lögreglumennirnir hann til bana.

Ken Livingstone, borgarstjóri Lundúna, sagði að lögregla hefði gert það sem hún taldi nauðsynlegt til að vernda almenning. Í þessum harmleik hefði eitt nafnið enn bæst við á lista yfir fórnarlömb hryðjuverkamanna.

Pakki fannst í gærmorgun í Little Wormwood Scrubs í Lundúnum og talsmaður lögreglunnar segir að pakkinn kunni að tengjast sprengjunum sem notaðar voru sl. fimmtudag. Gerð var húsleit í íbúð í Lundúnum í gær.

Blaðið News of the World bauð um helgina 100 þúsund pund fyrir upplýsingar, sem geti leitt til handtöku sprengjumannanna.

Jean Charles de Menezes, í miðið, ásamt ættingjum.
Jean Charles de Menezes, í miðið, ásamt ættingjum. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert