Sprengjumenn ganga enn lausir á Bretlandi

Myndir af fjórum mönnum, sem lögreglan í Lundúnum telur að …
Myndir af fjórum mönnum, sem lögreglan í Lundúnum telur að hafi komið fyrir sprengjum í lestum og strætisvagni á fimmtudag. Reuters

Lögregla telur að mennirnir fjórir, sem reyndu að sprengja sprengjur í lestum og strætisvagni í Lundúnum sl. fimmtudag, gangi enn lausir og kunni að hafa aðgang að sprengiefni. Þrír menn eru í haldi lögreglunnar í tengslum við rannsókn málsins en enginn þeirra er talinn vera í hópi þeirra fjögurra sem lögregla birti myndir af á föstudag og lýsti eftir.

Pakki sem fannst í almenningsgarði í Lundúnum á laugardag og sprengdur var af sprengjusérfræðingum, er talinn hafa verið fimmta sprengjan en enginn sprengnanna sprakk eins og til var ætlast.

Sir Ian Blair, lögreglustjóri Lundúna, sagði í gær að engin ástæða væri til að ætla, að mennirnir fjórir hefðu farið úr landi en lögreglumenn telja hugsanlegt að einn eða fleiri hafi framið sjálfsmorð.

Ættingjar manns sem Lundúnalögreglan skaut til bana á föstudag en reyndist síðan ekkert tengjast hryðjuverkunum, íhuga að fara í skaðabótamál gegn lögreglunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert