Jafnréttismál í ólestri hvað varðar vasapeninga norskra unglinga

mbl.is/Eggert

Kynbundinn launamunur virðist ekki eingöngu bundinn við fullorðna á hinum hefðbundna vinnumarkaði því samkvæmt könnun sem norski bankinn Nordea hefur látið gera þá fá norskar stúlkur minni vasapeninga en drengir. Á fréttavef Aftenposten segir að stúlkur fái að meðaltali 32 krónum minna í vasapeninga en drengir, eða sem svarar rúmum 300 krónum íslenskum. Í elsta aldurshópnum er munurinn þó enn meiri, eða 20%

Norskir drengir á aldrinum 15 - 17 ára hafa að meðaltali 1835 krónur norskar til ráðstöfunar alls, en stúlkur aðeins 1455.

Að sögn Liv Irene Haug, neytendahagfræðings hjá Nordea, þá geta ýmsar ástæður verið fyrir því að drengir séu betur launaðir hjá sínum fyrstu vinnuveitendum, foreldrunum. Drengir kaupa yfirleitt stærri og dýrari hluti, t.a.m. hluti sem tengjast tölvum og tækni, en stúlkurnar eru meira gefnar fyrir smáhluti. Haug er á því að foreldrum þyki slíkt ef til vill frekar réttlætanlegt en að samþykkja kaup á „enn einum fjólubláum toppi". Þá segir Haug að e.t.v. liggi skýringin í því að það séu oft mæður sem greiði vasapeningana og þær eigi einfaldlega erfiðara með að segja nei við syni sína en dætur.

mbl.is