Finnland: Morðinginn skildi eftir sjálfsvígsbréf

Fánar hafa víða verið dregnir í hálfa stöng í Finnlandi …
Fánar hafa víða verið dregnir í hálfa stöng í Finnlandi í dag til að minnast þeirra sem létust í árásinni í gær. AP

Unglingspilturinn sem myrti átta manns í menntaskóla í Finnlandi í gær skildi eftir sjálfsvígsbréf áður en hann framdi ódæðisverkið. Þá var hann með 500 byssukúlur á sér en alls notaði hann 69 stykki. Frá þessu greindi finnska lögreglan í dag.

Að sögn talsmanns lögreglunnar, Göran Wennqvist, var morðinginn að kveðja fjölskyldu sína í bréfinu. Þá var þar einnig að finna skilaboð þar sem hann útlistaði skoðanir sínar á samfélaginu.

Þjóðarsorg ríkir í Finnlandi eftir árásina í gær þegar hinn 18 ára gamli Pekka-Eric Auvinen myrti átta manns í Jokela menntaskólanum í Tuusula. Um 30.000 manns búa í bænum sem liggur við stöðuvatn norður af Helsinki.

Klukkan 10 í dag var haldin þriggja mínútna þögn á sveitarstjórnarskrifstofum í Tuusula. Þá fyrirskipaði innanríkisráðherra landsins að fánar yrðu dregnir í hálfa stöng í Finnlandi til að minnast þeirra sem létust.

Finnska þingið sleit þingfundi snemma í gær af virðingarskyni við þá sé létust og fjölskyldur þeirra.

mbl.is

Bloggað um fréttina