Sprengjuregn í Sómalíu

Ellu manns féllu í valinn í Mogadishu, höfuðborg Sómalíu,  í hörðum átökum sem þar urðu í gær á milli eþíópískra og sómalskra stjórnarhermanna annars vegar og íslamskra uppreisnarmanna hinsvegar.

Hermennirnir gerðu árásir í suðurhluta borgarinnar og létu stríðandi fylkingar sprengjum rigna á hvor aðra.

En margir óbreyttir borgarar féllu, m.a. þegar sprengjukúla lenti á markaðstorgi, að því er haft var eftir kaupmanni þar.

Uppreisnarmenn úr röðum íslamista hafa staðið að fjölda árása undanfarið í Sómalíu og beint spjótum að hersveitum skipuðum sómölskum og eþíópískum hermönnum, auk friðargæsluliða frá Afríkusambandinu.

Samtök sem kalla sig Dómstóla íslams tóku völdin í Mogadishu og á stórum svæðum í Sómalíu fyrir tveimur árum og komu á ströngum sharia-lögum, sem fólu m.a. í sér bann við tónlist og kvikmyndum.

Sómalskir stjórnarhermenn, með fulltingi eþíópískra, hröktu íslamistana frá í fyrra, en síðan hefur gengið á með skæruhernaði.

Blóðug átök hafa staðið í Sómalíu frá 1991, og landið verið stjórnlaust síðan. Íbúar í Sómalíu eru um tíu milljónir.

mbl.is

Bloggað um fréttina