15 þúsund tilkynningar á 50 árum

15 ára danskur piltur sá óútskýrð fyrirbæri á Fjóni 1982
15 ára danskur piltur sá óútskýrð fyrirbæri á Fjóni 1982

Danski flugherinn hefur nú opnað aðgang að tilkynningum og frásögnum fólks um fljúgandi furðuhluti (UFO) á árunum 1978 - 2002. Samkvæmt frétt danska hersins hefur eftirgrennslan oft leitt í ljós skýringar á meintum fljúgandi furðuhlutum. Oftar en ekki hafa þeir reynst vera flugvélar, skærar stjörnur eða einhver veðurfyrirbæri.

Skýrsla danska hersins geymir 329 síður af tilkynningum. Samtökin Skandinavisk UFO Information tók við að skrá tilkynningar um fljúgandi furðuhluti eftir árið 2002.

Meðal annars má lesa í skýrslunni lýsingu 56 ára gamals vélstjóra sem sá óþekkt fyrirbæri við Thule herstöðina í Norður-Grænlandi 5. janúar 1981. Hann sá eitthvað ferhyrnt og logandi fyrirbæri þá um 45° fyrir ofan jörðu yfir ísbreiðunni nálægt stöðinni. Fyrirbærið færðist til suðausturs og hvarf síðan á bakvið fjall í um 30° séð frá jörðu. Ekki heyrðist neitt hljóð né sást reykur á eftir þessu fyrirbæri.

Bandarískir hermenn sem voru á vakt við ratsjá flugstöðvarinnar sáu óþekkt fyrirbæri á fluti á nákvæmlega sömu stundu og vélstjórinn hafði fylgst með þessu fyrirbæri.

Önnur tilkynning er höfð eftir 15 ára dreng sem var að hjóla til vinnu á sumarmorgni 1982 á Fjóni. Klukkan var hálf fimm um morguninn þegar pilturinn sá skært ljós skína inni á akri, í um 50 metra fjarlægð. Hann furðaði sig á ljósinu, steig af hjólinu og gekk að ljósinu.

Hann lýsti fyrirbærinu sem hann sá sem tveimur djúpum diskum sem lágu saman. Fyrirbærið var um tveggja metra hátt og tveir metrar í þvermál. Yfirborðið virtist slétt nema lúga var á hliðinni.

Fimm verur voru í 10-15 metra fjarlægð frá þessu fyrirbæri. Þær voru í mannsmynd en ekki nema um 60 sentimetra háar með stór höfuð og brjóstkassa, grannar um mjaðmir og fótsmáar, að sögn drengsins.

Danski flugherinn hefur fengið um 15 þúsund tilkynningar um fljúgandi furðuhluti á undanförnum 50 árum, að því er fram kemur í grænlenska netmiðlinum Sermitsiaq.

Nýlega hafa Bandaríkjamenn, Bretar og Frakkar einnig opinberað áður leyndar skrár um fljúgandi furðuhluti.

Frétt danska hersins og tengill á skýrslurnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert