Ítalskur Fritzl handtekinn

Lögreglan á Ítalíu tilkynnti í dag að hún hefði handtekið mann fyrir að einangra dóttur sína frá umheiminum og þvinga hana til samfara við sig reglulega í samfellt 25 ár. Maðurinn, sem búsettur er í borginni Tórínó, egndi einnig 40 ára  gamlan son sinn til að nauðga sínum dætrum sem eru á aldrinum 6 til 20 ára.

Faðirinn sem er 63 ára gamall er sagður hafa nauðgað dóttur sinni, sem nú er 34 ára, með reglubundnum hætti síðan hún var 9 ára gömul að því er fram kemur í ítalska dagblaðinu La Repubblica.  Fjölmiðlar á Ítalíu líkja manninum við Austurríkismannina Josef Fritzl sem dæmdur var í ævilangt fangelsi í síðust viku fyrir að halda dóttur sinni fanginni og nauðga henni í 24 ár.

Ítölsku konunni, sem gengur undir dulnefndinu Laura í ítölskum fjölmiðlum, var ekki leyft að yfirgefa heimilið án föður síns og var lokuð daglangt inni í myrku herbergi. Hún hætti að ganga í skóla þegar hún var 13 ára gömul. 

Rannsókn á hendur manninum og syni hans hófst í október þegar Laura kærði bróður sinn og sakaði hann um að halda sér fanginni í tvær vikur og nauðga sér eftir að hún flúði heimili sitt í kjölfar rifrildis við föðurinn.

Laura og bróðurdætur hennar fjórar dveljast nú allar í athvarfi þar sem þær fá sálfræðimeðferð. 

mbl.is

Bloggað um fréttina