Ekki réttað í máli Plame

Joseph Wilson og kona hans Valerie Plame Wilson
Joseph Wilson og kona hans Valerie Plame Wilson Reuters

Hæstiréttur Bandaríkjanna ákvað í dag að taka ekki til umfjöllunar mál Valerie Plame, fyrrum starfsmanns leyniþjónustunnar CIA sem sækist eftir bótum eftir að hinu leynda starfi hennar var lekið til fjölmiðla.

Plame og eiginmaður hennar Joseph Wilson vildu kæra nokkra opinbera starfsmenn í stjórn George W. Bush þar á meðal varaforsetann Dick Cheney fyrir uppljóstrunina frá 2003.

Máli hjónanna hefur tvisvar áður verið vísað frá í bandaríska réttarkerfinu.

Eiginmaður Plame er fyrrum sendiherra Bandaríkjanna og gagnrýndi hann Bush og ríkisstjórn hans fyrir að ýkja þá ógn sem stafa þótti af Írak til að geta réttlætt innrás í landið.

Skömmu síðar var því lekið í fjölmiðla að eiginkona hans væri starfsmaður hjá CIA en það er refsivert samkvæmt bandarískum lögum að gefa slíkar upplýsingar upp.

Úr varð mikið fjölmiðlamál sem endaði með því að Lewis Libby þáverandi starfsmannastjóri hjá Cheney hlaut fangelsisdóm sem hljóðaði upp á tvö og hálft ár en áður en til þess kæmi að hann sæti inni var hann náðaður af George W. Bush.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert