Breytti barninu í þræl

Húsið þar sem Dugard var haldið fanginni svo árum skipti
Húsið þar sem Dugard var haldið fanginni svo árum skipti Reuters

Hvers vegna reyndi hún ekki að sleppa fyrr eða biðja um hjálp? er ein af fjölmörgum spurningum sem hafa vaknað vegna máls Jaycee Lee Dugard, sem var rænt í Kaliforníu árið 1991 þegar hún var ellefu ára og fannst átján árum síðar í leynilegum bakgarði hjóna sem rændu henni.

Fram hafa komið vísbendingar um að Dugard, sem er nú 29 ára, hafi oft fengið tækifæri til að flýja eða biðja um hjálp síðustu árin í prísundinni. Meðal annars hefur komið í ljós að hún aðstoðaði manninn sem rændi henni, Phillip Garrido, við rekstur lítillar prentsmiðju sem hann rak í húsi sínu. Hún talaði við viðskiptavini í síma, sendi þeim tölvupósta og tók á móti þeim á heimili Garridos og eiginkonu hans, Nancy. Hermt er að Dugard hafi jafnvel fengið að fara út úr prísundinni en alltaf snúið aftur í bakgarðinn þar sem hún ól tvær dætur eftir að Garrido rændi og nauðgaði henni.

„Jaycee ber sterkar tilfinningar til þessa manns,“ sagði stjúpfaðir Dugard, Carl Probyn. „Henni finnst að þetta hafi næstum verið hjónaband.“

Höfðu samúð með ræningjum

Mörgum kann að þykja þetta óskiljanlegt, því langflestir líta á Garrido sem skrímsli. Sérfræðingar segja þó að þetta komi þeim ekki á óvart því mörg dæmi séu um að gíslar og fórnarlömb mannrána hafi tengst mannræningjunum tilfinningaböndum og haft samúð með þeim.

Þetta fyrirbæri hefur verið nefnt Stokkhólmsheilkennið með skírskotun til bankaráns í sænsku höfuðborginni í ágúst 1973. Tveir vopnaðir ræningjar héldu þá nokkrum starfsmönnum Kreditbanken í Stokkhólmi í gíslingu í sex daga. Þegar gíslarnir voru látnir lausir föðmuðu þeir og kysstu ræningjana, mörgum til mikillar furðu. Síðar neituðu þeir að bera vitni gegn ræningjunum og söfnuðu jafnvel peningum til að Myndirstanda straum af málsvarnarkostnaði þeirra.

Kenningin um Stokkhólmsheilkennið er þó umdeild og rannsókn bandarísku alríkislögreglunnar FBI árið 2007 bendir til þess að 73% gísla og fórnarlamba mannrána hafi ekki sýnt nein merki um að þeim hafi verið hlýtt til mannræningjanna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert