Hröð bráðnun á norðurhjara

Uppþornað íslón nálægt Helheim jökli á Suðaustur-Grænlandi.
Uppþornað íslón nálægt Helheim jökli á Suðaustur-Grænlandi. Henrik Egede Lassen/Alpha Film

Ísinn á norðurhjaranum bráðnar nú sem aldrei fyrr. Vísindamenn hafa orðið vitni að gríðarlega miklum breytingum á hafís á norðurslóðum, á Grænlandsjökli og jöklum í kringum Norður-Íshafið.

Niðurstöður rannsóknanna eru nú kynntar á ráðstefnu um loftslagsbreytingar á norðurslóðum sem um 400 vísindamenn sækja í Kaupmannahöfn. Skýrsla sérfræðingahóps Norðurskautsráðsins, svonefnd SWIPA-skýrsla, er rædd á ráðstefnunni. 

Þar kemur m.a. fram að hlýnun loftslags á Norðurheimsskautssvæðinu, vegna loftslagsbreytinga, hafi verið tvöfalt meiri en meðaltalshlýnun í heiminum frá árinu 1980. Lofthiti við yfirborð á norðurhjaranum frá árinu 2005 hefur verið hærri en á nokkru öðru fimm ára tímabili frá því að mælingar hófust um árið 1880.

Sumarhiti á norðurslóðum undanfarna áratugi hefur verið hærri en nokkur dæmi eru um áður undanfarin 2.000 ár. Auk þess eru vísbendingar um að samspil snævar og hafís við veðurkerfin ýti undir hlýnunina. 

mbl.is

Bloggað um fréttina