Breska þingið kallað saman

Breska þingið verður kallað saman á fimmtudag vegna óeirðanna í Lundúnum og í öðrum borgum í Bretlandi, að sögn Davids Camerons, forsætisráðherra Bretlands. Eins verður fjölgað í lögreglunni í Lundúnum.

Cameron greindi frá þessu eftir neyðarfund í Downing-stræti í morgun en Cameron gerði hlé á sumarleyfi sínu í gærkvöldi vegna ástandsins í landinu. Breska þingið hefur ekki verið kallað saman úr sumarleyfi síðan árið 2002.

Meðal þess sem verður gripið til er að fjölga lögreglumönnum á vakt um tíu þúsund að næturlagi. Í gærkvöldi voru sex þúsund lögreglumenn á vakt í borginni en verða 16 þúsund í kvöld.

Cameron segir að sú eyðilegging sem unnin hafi verið á heimilum fólks og eignum þess sem og eigenda fyrirtækja sé ekkert annað en lögbrot og stemma þurfi stigu við slíku framferði. 

Cameron kom heim frá Ítalíu í nótt og vildi ekki tjá sig við BBC um hvers vegna hann hefði ekki snúið fyrr heim vegna ástandsins heima fyrir.
mbl.is