Allir axli byrðarnar

Bandaríkjamenn verða að vera reiðubúnir að „greiða sanngjarnan skerf“  til að draga úr fjárlagahalla ríkisins. Þetta sagði Barack Obama Bandaríkjaforseti en hann undirbýr tillögur fyrir þingið.

Obama sagði í vikulegu ávarpi sínu til bandarísku þjóðarinnar að Bandaríkjamenn verði að vera reiðubúnir að „greiða sanngjarnan skerf“ til að minnka fjárlagahallann. Reiknað er með að í tillögum hans til þingsins felist hærri skattar á auðuga landsmenn.

„Ég ætla að leggja fram áætlun mína á mánudag um hvernig við gerum það - hvernig við borgum fyrir þessa áætlun og greiðum niður skuldir okkar með því að fylgja grundvallarreglum: Gæta þess að við lifum ekki um efni fram og biðjum alla um að greiða sinn skerf,“ sagði Obama.

Hann sagði að áætlun hans upp á 447 milljarða dollara til að draga úr atvinnuleysi muni innifela skattalækkanir fyrir lítil fyrirtæki og starfsmenn.

„Atvinnumálafrumvarpið leggur til lægri skatta fyrir alla smáfyrirtækjaeigendur í Bandaríkjunum. Það lækkar þá jafnvel meira fyrir eigendur lítilla fyrirtækja svo þeir geti ráðið nýja starfsmenn og hækkað laun starfsmanna. Og það lækkar skatta fjölskyldna vinnandi fólks í Bandaríkjunum svo þú eigir meira í vasanum og fyrirtækin munu vita að viðskiptavinirnir geta keypt það sem þau selja,“ sagði Obama meðal annars.

mbl.is

Bloggað um fréttina