Frakkar hrósa Grikkjum

Francois Fillon, forsætisráðherra Frakklands.
Francois Fillon, forsætisráðherra Frakklands. Reuters

Francois Fillon, forsætisráðherra Frakklands, hrósaði grískum stjórnmálaleiðtogum í dag og sagði að það hefði verið mjög góð lausn að ákveða að mynda þjóðstjórn í landinu.

Grískir stjórnmálaleiðtogar funduðu um málið í gær og komust að samkomulagi um myndun þjóðstjórnar. Þá var ákveðið að útnefna nýjan leiðtoga samsteypustjórnarinnar, sem mun halda um stjórnartaumana þar til boðað verður til kosninga.

Hann segir að Evrópusambandið hafi ekki getað beðið lengi eftir því að Grikkir tækju ákvörðun varðandi björgunarpakkann. Fillon segir að Grikkir verði að hafa hraðar hendur við að taka afstöðu og það hafi þeir nú gert. Þetta hafi verið vel gert af hálfu leiðtoganna.

„Það er hlutverk Grikkja að finna lausnirnar og leiðina út úr núverandi stöðu. Ég skil að gríska stjórnin hafi lagt til að mynduð yrði þjóðstjórn,“ segir Fillon.

„Ég tel að það sé mjög góð lausn miðað við núverandi stöðu og við munum aðstoða Grikki við að komast þangað,“ segir Fillon.

mbl.is