Tveir létust úr fuglaflensu

Bólusett var gegn fuglaflensu á Íslandi og víðar.
Bólusett var gegn fuglaflensu á Íslandi og víðar. Ómar Óskarsson

Víetnamskur maður lést af völdum fuglaflensu í síðustu viku og ungt barn í Kambódíu lést úr sjúkdómnum í gær. Þá lést maður úr fuglaflensu í Kína í desember. Þetta er fyrsta dauðsfallið sem tilkynnt er í Víetnam vegna fuglaflensu í tæp tvö ár, eða síðan í apríl 2010.

Tilkynnt var um alvarlegt tilfelli af fuglaflensu í Indónesíu í síðustu viku, í þriðja skiptið á þremur mánuðum. Margir hafa áhyggjur af því að sjúkdómurinn sé að breiðast út á nýjan leik, en heilbrigðisyfirvöld í Víetnam segja enga ástæðu til þess.

„Við höfum fulla stjórn á útbreiðslu fuglaflensunnar,“ sagði Le Minh Hung, læknir sem starfar hjá heilbrigðisyfirvöldum í Ho Chi Minh-borg, í samtali við AFP-fréttastofuna.

Maðurinn sem lést í síðustu viku ræktaði aliendur og nú er verið að rannsaka hvort hann smitaðist af öndunum. Barnið sem lést í Kambódíu í gær var tveggja ára gamalt og talið er að það hafi smitast af kjúklingum. 

Meira en 340 manns hafa látist af völdum fuglaflensunnar, eða H5N1, frá árinu 2003, flestir í Víetnam, eða 59.

Átta manns létust af völdum fuglaflensu í Kambódíu á síðasta ári, sjö þeirra voru börn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert